Categories
Fréttir Greinar

Til hvers var barist?

Deila grein

25/05/2025

Til hvers var barist?

Til að auka hag­sæld og bæta lífs­kjör á Íslandi voru háð þrjú erfið þorska­stríð við Bret­land. Með þraut­seigju, sam­vinnu og framtíðar­sýn tókst að stækka land­helg­ina í 200 míl­ur. Þetta var gert í fjór­um áföng­um. Fyrst úr 3 í 4 sjó­míl­ur árið 1952, 12 míl­ur (1958), 50 míl­ur (1972) og svo loks 200 míl­ur (1976). Þessi sókn Íslend­inga varð að einni mestu lífs­kjara­bót sem ein þjóð hef­ur upp­lifað á svo skömm­um tíma. Allt til árs­ins 2000 komu yfir 60% af gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins frá sjáv­ar­út­vegi, sem gegndi lyk­il­hlut­verki í efna­hags­legu sjálf­stæðu þjóðar­inn­ar. Hæst fór hlut­deild sjáv­ar­út­vegs í vöru­út­flutn­ingi í rúm 97% árið 1949.

Á síðustu 50 árum hef­ur sam­setn­ing út­flutn­ings breyst tölu­vert, og nú koma um 22% gjald­eyristekna frá sjáv­ar­út­vegi. Það hef­ur fært þjóðarbú­inu aukið jafn­vægi og minni sveifl­ur, en um leið sýn­ir þetta hversu mik­il áhrif sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur enn. Gjald­miðill­inn var háður gengi sjáv­ar­af­urða, og sam­keppn­is­hæfni lands­ins réðst að stór­um hluta af af­komu grein­ar­inn­ar. Þær kerf­is­breyt­ing­ar sem gerðar voru á sín­um tíma til að styrkja meg­in­út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar urðu einnig grunn­ur að því að skapa um­gjörð fyr­ir ný­sköp­un og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf.

Í vik­unni var kynnt­ur nýr samn­ing­ur Evr­ópu­sam­bands­ins við Bret­land. ESB-rík­in hafa áfram aðgang að fiski­miðum Bret­lands næstu tólf árin, sem er veru­leg stefnu­breyt­ing. Bret­ar vildu upp­haf­lega tak­marka aðgang­inn við fjög­ur til fimm ár. Sjáv­ar­út­vegs­stefna ESB hef­ur verið gagn­rýnd og hef­ur skaðað bresk­an sjáv­ar­út­veg veru­lega. For­sæt­is­ráðherra Bret­lands hef­ur sætt harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa gefið eft­ir kröf­una um full yf­ir­ráð yfir fiski­miðunum, þó að í staðinn hafi Bret­land fengið aukið aðgengi að mörkuðum fyr­ir vör­ur og þjón­ustu. Fram­lag sjáv­ar­út­vegs í lands­fram­leiðslu Breta er ekki nema 0,14% sam­an­borið við 6% á Íslandi. Mik­il­vægi sjáv­ar­út­vegs fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf er marg­falt og því hags­mun­ir sam­kvæmt því.

Helstu út­flutn­ings­grein­ar okk­ar búa nú við mikla óvissu. Í fyrsta lagi er stefnt að veru­legri skatta­hækk­un án þess að nægi­legt sam­tal eða grein­ing fari fram. Í öðru lagi rík­ir alþjóðleg óvissa vegna nýrr­ar viðskipta­stefnu Banda­ríkj­anna, þar sem erfitt er að sjá fyr­ir þróun mála. Í þriðja lagi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það á stefnu­skrá að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Öll þessi óvissa dreg­ur úr fjár­fest­ingu, minnk­ar hag­vöxt og eyk­ur áhættu í at­vinnu­líf­inu. Tveir af þess­um óvissuþátt­um, skatta­hækk­an­ir og ESB-veg­ferð, eru sjálf­skapaðir og vekja að mörgu leyti undr­un. Gleym­um því ekki að öll hag­sæld þjóðar­inn­ar grund­vall­ast á verðmæta­sköp­un, dugnaði og far­sælli framtíðar­sýn. Evr­ópu­för rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ekki leiðin til hag­sæld­ar og við get­um spurt okk­ur, til hvers var bar­ist á dög­um þorska­stríðanna?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. ut­an­rík­is­ráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2025.