Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ræddi afgreiðslu samgönguáætlunar í störfum þingsins á Alþingi í gær. Sagði hún ný tækifæri skapast í íslensku samfélagi vegna margra stórra og mikilvægra framkvæmda í allra handa nýsköpun. Nefndi Líneik Anna sem dæmi samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en með samþykkt frumvarps um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, verður stuðlað að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
„Stóru tímamótin með sáttmálanum eru að með honum sameinast ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgönguskipulag fyrir alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu, hvaða ferðamáta sem þeir kjósa. Það er ekki bara samkomulag um skipulag heldur líka um fjármögnun, uppbyggingu mannvirkja og almenningssamgöngur til 15 ára,“ sagði Líneik Anna.
„Samvinna sveitarfélaganna um skipulag umferðar um svæðið í heild er risastórt skref og aðkoma ríkisins tryggir samspil við umferð að og frá svæðinu í flugi, um hafnir og stofnbrautir, m.a. með tengingu við skipulag Sundabrautar en gert er ráð fyrir að tillögur um legu hennar liggi fyrir í lok sumars.
Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, sérakreinar fyrir forgangsumferð, göngu- og hjólastíga, auk þess sem átak verður gert í umferðarstýringu. Greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringu er hafin en betri umferðarstýring getur haft veruleg áhrif á umferðarflæði.“
„Tilgangur samgöngusáttmálans er að flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærð framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans verður áfram hluti af samgönguáætlun og þannig er aðkoma Alþingis tryggð. Virðing allra samningsaðila fyrir samkomulaginu og heilindi í vinnu að framgangi þess er svo lykill að árangri,“ sagði Líneik Anna að lokum.