Categories
Fréttir

Tímamót

Deila grein

21/03/2016

Tímamót

Sigrún Magnúsdóttir_001Alþingi samþykkti tvö mál í vikunni sem leið, sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, mælti fyrir sl. haust og marka ákveðin tímamót.
Annars vegar er um að ræða samþykkt nýrra laga um gerð langtímaáætlunar um uppbyggingu á ferðamannasvæðum og hins vegar þingsálytkun um landskipulagsstefnu 2015-2026. Bæði málin varða skipulag og kortlagningu sem nær yfir allt landið, þar sem horft verður til lengri tíma.
Landskipulagsstefna
Samþykkt landskipulagsstefnu markar tímamót hér á landi þar sem í fyrsta sinn er sett fram heilstæð stefna ríkisins á landsvísu um skipulagsmál. Í stefnunni eru samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýting og önnur landnýting samþætt og varðar dreifbýli, miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifingu byggðar og haf- og strandsvæði.
Í stefnunni er lagt upp með að skipulag byggðar og landnotkunar þurfi að stuðla að sjálfbærri þróun svo það sé sveigjanlegt og styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.
Uppbygging ferðamannasvæða
Þá mun ráðherra setja vinnu af stað sem miðar að því að móta stefnu á ferðamannasvæðum.
Þetta er einnig í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið og verður unnið að því að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhaldi á ferðamannsvæðum.
Slík uppbygging þarf ávallt að hafa náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi, enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir. Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem þarf að vinna, skilgreina fjárþörf, forgangsraða verkefnum, fylgja á eftir framkvæmdum, tryggja hagkvæmni og vinna að skilgreiningu nýrra svæða. Það eru verkefni eins og að fyrirbyggja skemmdir, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt bættri upplifun og öryggi fólks á ferð um landið, enda hefur fjöldi ferðamanna vaxið gífurlega á undanförnum árum með tilheyrandi álagi á náttúru Íslands og menningarminjar.
Vinna við áætlunina hefst strax og byggir á fyrirliggjandi vinnu. Ráðherra er ætlað, innan sex mánaða frá samþykkt laganna, að leggja fram og birta opinberlega bráðabirgðaæáætlun um uppbyggingu innviða.