Categories
Greinar

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Deila grein

21/03/2016

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Þorsteinn-sæmundssonHvað rekur framsóknarkarl um sextugt til að sækja Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á eigin vegum? Það eru allnokkrar ástæður fyrir því. Í 11 ár starfaði ég með lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli og varð þá vitni að tilraunum til mansals sem upp komst um á Vellinum. Ég er líka eiginmaður, sonur, tengdasonur og faðir, tengdafaðir og afi. Ég á tvo vel menntaða syni sem eru allir vegir færir, á tvær hæfileikaríkar, vel menntaðar tengdadætur sem ég vil að njóti öll sömu réttinda og fái jöfn tækifæri. Ég er líka stoltur afi þriggja afastelpna og tveggja afadrengja. Ég vil leggja mitt af mörkum til að þau njóti öll sömu réttinda í lífinu. Ég vil líka gera allt sem ég get til að tryggja að barnabörnin mín og öll önnur börn sæti aldrei misnotkun í nokkurri mynd.

Síðan ég hóf störf á opinberum vettvangi hefur mér oft blöskrað hvaða niðurstöðu kynferðisbrotamál fá í dómskerfinu. Það sýnir sig einnig í þeirri staðreynd að í fyrra fjölgaði skjólstæðingum Stígamóta en kærum til lögreglu vegna kynferðisafbrota fækkaði. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif til bóta í þessum málaflokki. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við.

Kynning sú sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar Stígamóta og ungur íslenskur rithöfundur stóðu fyrir á Kvennaráðstefnunni í New York sl. fimmtudag var stórkostleg og vakti verulega athygli.

Það er haft á orði hér að menn leggi einkum við hlustir á alþjóðavettvangi þegar fulltrúar Íslendinga taka til máls í þrem málaflokkum. Í málefnum sem tengjast hafinu, málefnum tengdum uppblæstri og málefnum kvenna. Það er greinilegt af því sem maður heyrir hér að Íslendingar hafa og geta víða lagt gott til í jafnréttisbaráttunni og til að hafa áhrif á það skelfilega ofbeldi sem víða tíðkast gagnvart konum. Nokkrar hugrakkar konur hafa stigið fram hér á ráðstefnunni og lýst reynslu sinni. Ein sagði frá misþyrmingu á kynfærum við umskurð, önnur sagði frá því er maður sem hún neitaði að giftast hellti yfir hana sýru þannig að hún var um tíma skinnlaus á 95% líkamans og lá lengi milli heims og helju. Sú hefur undirgengist á fimmta tug aðgerða síðan hún varð fyrir árásinni. Óhugnanleg var líka saga konu sem upplifði barn að aldri að ættingjar föður hennar eltu móður hennar með barsmíðum þar sem hún hafði ekki fætt son. Þá er ótalið að á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á aldrinum 5-15 ára giftar eldri mönnum. Já, lesandi góður, 39 þúsund börn á hverjum degi. Þessar stúlkur verða margar hverjar barnshafandi löngu áður en þær hafa þroska til og látast margar þeirra á meðgöngu, í fæðingu eða rétt eftir barnsburð. Sumar þeirra örkumlast af erfiðleikum í fæðingu og lifa við útskúfun alla ævi. Enn eru ótalin barnsrán og viðskipti með börn. Ein stúlka hér á ráðstefnunni var um skeið í nauðungarvist hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hún lifði þar við misnotkun og annað ofbeldi. Saga hennar var sláandi. Innan samtakanna ganga stúlkur kaupum og sölum. Sama má segja um börn af báðum kynjum í Indlandi sem seld eru eins og hver önnur verslunarvara. Þá er ótalinn launa- og kjaramunurinn, lífeyrir heimavinnandi kvenna og fleira af sama meiði. Það er efni í aðra grein. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við. Nóg eru verkefnin sem bíða okkar, hvort sem við erum í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi við að bæta umhverfi kvenna heima hjá okkur og einnig á alþjóðavísu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2016.