Categories
Fréttir

„Tími athafna er kominn“

Deila grein

23/10/2015

„Tími athafna er kominn“

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins í gær ræddi ég meðal annars afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég ræddi mikilvægi þess hver næstu skref ættu að vera í málinu og nauðsyn þess að þau skref yrðu tímasett á allra næstu dögum. Núna þarf að fá svör við þessum spurningum: Á að afnema verðtrygginguna? Á að setja þak á verðtryggð húsnæðislán? Á að auka hvata til töku á óverðtryggðum lánum? Hver er staðan og hvernig standa málin?
Erfitt er að átta sig á því hvað veldur því að verðtryggingarmálin hafi ekki enn komið inn í þingið. Það er hægt að varpa fram þessum spurningum: Er verið að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi innan velferðarráðuneytisins? Eða er kannski verið að bíða eftir niðurstöðum í máli Hagsmunasamtaka heimilanna er varðar lögmæti verðtryggingarinnar? Ef svo er þá er nauðsynlegt að það mál fái flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Eða er kannski ástæðan bara allt, allt önnur?
Eins og fram kom í ræðu minni í gær eru verðtryggingarmálin á borði hæstv. fjármálaráðherra. Það má ekki gleyma því sem vel er gert. Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp til að finna leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Þessi hópur hefur núna skilað af sér niðurstöðum.
Í lok ræðu minnar langar mig að minnast á þann þjóðfund sem var hér í morgun sem þrír hæstv. ráðherrar stóðu fyrir. Hann var afar vel sóttur, hátt í 300 manns tóku þátt og ræddu húsnæðismál, ræddu m.a. hvernig ætti að fara að því að byggja hratt upp vandað og hagkvæmt húsnæði og hvernig auka ætti framboð af húsnæði hratt og vel. Tími athafna er kominn. Þessi ríkisstjórn ætlar að láta verkin tala. Í því samhengi verðum við að afnema verðtryggingu.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins, 21. október 2015.