Categories
Greinar

Leggjum símann niður í umferðinni

Deila grein

23/10/2015

Leggjum símann niður í umferðinni

fjola-hrund-ha-upplausnFarsímanotkun ökumanna hefur aukist gífurlega með árunum. Þegar farið er út í umferðina þarf að vera með fulla og óskipta athygli. Með árunum eru sífellt fleiri sem nota farsíma undir stýri. Eftir því sem tækninni fleygir fram og fleiri smáforrit í farsíma verða til verður áreitið sífellt meira og símarnir hætta vart að gefa frá sér tilkynningar.

Það er þekkt hér á landi að margir nota síma undir stýri og virðast ekki geta látið hann frá sér þegar ekið er. Þó svo að alltaf sé verið að brýna fyrir ökumönnum að nota ekki símann undir stýri eða tengja hann við handfrjálsan búnað þá leiða rannsóknir það í ljós að farsímanotkun ökumanna virðist ekki minnka. Þetta er þekkt vandamál víða um heim þar sem fjöldi umferðarslysa verður af völdum truflunar frá farsímum.

Fylgjum umferðarlögum
Í 47. gr. umferðarlaga 1987 nr. 50 segir: ,,Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.” Sektir eru við því ef lögreglan stoppar einstakling í umferðinni fyrir farsímanotkun. Lögreglan gefur reglulega frá sér tilkynningar til að brýna fyrir ökumönnum að tala ekki í farsíma við akstur og hvetur ökumenn til þess að nota handfrjálsan búnað. Við þurfum að fylgja tilmælum lögreglu og fylgja umferðarlögum.

Rannsóknir hafa sýnt að með árunum hafa fleiri slys orðið vegna farsímanotkunar þar sem ökumenn eru ekki með óskipta athygli við stýrið. Jafnframt hefur komið í ljós að þegar þú skrifar smáskilaboð undir stýri þá lítur þú af veginum í allt að 5 sekúndur. Á 5 sekúndum getur einstaklingur á t.d. þjóðvegi 1 keyrt allt að 100 metra. Það er auðséð að á þessum stutta tíma ferðast bíllinn langa leið og margt getur farið úrskeiðis sé athyglinni ekki beint að akstrinum.

Höldum fókus
Á undanförnum árum hefur verið vakning meðal ökumanna og ekki síst vegna átaks sem Samgöngustofa hefur verið með varðandi farsímanotkun ökumanna. Svo virðist sem færri noti farsíma rétt eftir að auglýsingar varðandi meðhöndlun farsíma við stýrið hafa verið birtar. Það er því deginum ljósara að ökumenn ættu að þekkja hættuna sem getur skapast og séu meðvitaðri um nauðsyn þess að leggja farsímanum við akstur. ,,Höldum fókus” er dæmi um gríðarlega vel heppnaða markaðsherferð sem fékk áhorfandann til að vera hluti af aðstæðum. Herferðin fékk gríðarlega athygli og snerti viðkvæma strengi.

Ég tel að það sé okkar hlutverk í umferðinni að sýna þeim ungu fordæmi hvað varðar farsímanotkun undir stýri. Við eigum að sýna náunganum þá virðingu og vera með fulla athygli í umferðinni. Ég biðla því til ökumanna um að leggja símann niður í umferðinni og tengja handfrjálsa búnaðinn ef svo ber undir.

Fjóla Hrund Björnsdóttir

Greinin birtist í DV föstudaginn 23. október 2015.