Categories
Greinar

Unnið að verkefnun í loftslagsmálum

Deila grein

22/10/2015

Unnið að verkefnun í loftslagsmálum

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum voru kynntar í ríkisstjórn tillögur að verkefnum og áherslum Íslands í loftslagsmálum, sem kynntar verða í tengslum við 21. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París í desember næstkomandi.

Stefnt er að því að ríki jarðar sameinist um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hnattrænu samkomulagi í loftslagsmálum til 2030 á fundinum í París.

Stærstu tækifærin eru í orkumálum. Ísland hefur lengi verið í fararbroddi á alþjóðavísu hvað varðar loftslagsvæna orku. Við njótum ákveðins forskots frá náttúrunnar hendi að því leyti að hér kemur nær öll orka til rafmagns og hitunar frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nú er lag að taka næsta skref og nýta endurnýjanlega orku á fleiri sviðum. Þar blasa tækifærin við og við þurfum að hugsa stórt. Forsætisráðherra hefur þegar lýst yfir þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Þar þurfa nýir orkugjafar að koma í staðinn.

Í Stjórnarráðinu er unnið að því að setja raunhæf markmið í loftslagsmálum til lengri tíma sem verða útfærð í nýrri sóknaráætlun og kynnt á fundinum í París í desember.

Sem dæmi um verkefni má nefna að nýta þarf rafmagn á bílaflotann í mun meiri mæli en nú er gert og styrkja þarf og stuðla að loftslagsvænni tækni í sjávarútvegi. Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa þróað framsæknar lausnir og að þeim grænu sprotum þarf að hlúa. Einnig hafa fyrstu skrefin verið stigin til eflingar skógræktar og landgræðslu, sem græðir landið og bindur kolefni úr andrúmslofti um leið. Þá er matarsóun einnig stórt loftslagsvandamál því 30% matvæla heimsins enda í ruslinu.

Loftslagsvandinn er langtímaverkefni og verður ekki leystur í einu skrefi. En lausnir og tækniþróun sem grillir í gefa tilefni til ákveðinnar bjartsýni. Um leið þurfum við að gæta að því að fjölmargar ákvarðanir, bæði stjórnvalda og almennings, sem og daglegar athafnir hvers og eins hafa áhrif í loftslagsmálum. Þannig má segja að lykillinn að framtíðinni sé í okkar eigin höndum.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2015: