Eftir hagstjórnarvillu millistríðsáranna var lagt upp með að eftir seinni heimsstyrjöldina grundvallaðist alþjóðaviðskiptakerfið á frjálsum viðskiptum. Ríkur vilji var fyrir því að gera þjóðir háðari hver annarri, þar sem það minnkaði líkurnar á átökum og stríðum. Kenningar breska hagfræðingsins David Ricardo um frjáls viðskipti hafa verið leiðarljós í þessari heimsskipan. Helstu rökin fyrir frjálsum viðskiptum eru að þau stuðla að aukinni framleiðni ríkja, lækka vöruverð, auka framboð af vörum og skila meiri hagvexti fyrir þau ríki sem taka þátt í þeim. Hagvöxtur á heimsvísu tók ekki að aukast að ráði fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld, sérstaklega á tímabilinu 1945-1973, sem hefur verið kallað „gullöld markaðshagkerfisins“. Meðal þeirra þátta sem stuðluðu að þessum hagvexti voru stöðugleikinn sem skapaðist með Bretton-Woods kerfinu, endurreisn efnahagslífsins eftir stríð og afnám haftabúskapar og lækkun tolla. Í kjölfarið hefur velsæld og hagvöxtur aukist verulega með opnun viðskipta við ríki á borð við Kína og Indland.
En skjótt skipast veður í lofti. Nú er hafið tollastríð. Forseti Bandaríkjanna hefur hrint í framkvæmd efnahagsstefnu sinni, sem gengur út á að Bandaríkin endurheimti auð sem þau telja sig eiga um allan heim, meðal annars með því að setja tolla á helstu viðskiptaríki sín og jafnvel nánustu bandamenn! Með þessu ætlar hann sér að leiðrétta viðvarandi viðskiptahalla Bandaríkjanna og nota fjármagnið til að lækka skuldir. Afleiðingarnar eru vel þekktar í hagfræðinni og má lýsa sem „tapi allra“. Í fyrsta lagi verður óvissa og órói á fjármálamörkuðum. Stefnan skapar mikla óvissu, sem veldur óstöðugleika á öllum fjármálamörkuðum og hlutabréfaverð í Bandaríkjunum féll um tæp 3% á mánudag. Í öðru lagi hækkar verðlag og verðbólga eykst. Öll ríki hafa þegar átt í baráttu við verðbólgu eftir covid og hætta er á að þessi stefna ýti undir frekari verðhækkun. Í þriðja lagi minnka alþjóðaviðskipti og hagvöxtur. Þetta er sérstaklega slæmt núna, þar sem mörg ríki eru skuldsett eftir gríðarleg útgjöld á covid-tímabilinu og þurfa hagvöxt til að draga úr fjármögnunarkostnaði. Í fjórða lagi minnka gjaldeyristekjur og gjaldmiðlar veikjast. Að lokum tapast traust og samskipti ríkja versna.
Fyrir lítið og opið hagkerfi eins og Ísland er þessi þróun afar neikvæð. Mikilvægustu viðbrögð íslenskra stjórnvalda ættu nú að vera að vinna í nánu samstarfi við atvinnulífið til að tryggja að íslenskir markaðir haldist opnir og verði ekki fyrir þessum nýju álögum. Velmegun Íslands er nátengd alþjóðaviðskiptum og útflutningstekjum þjóðarbúsins. Við verðum öll að standa vörð um hagsmuni Íslands í þessu nýja og krefjandi viðskiptaumhverfi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2025.