Categories
Fréttir

Tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri

Deila grein

27/11/2019

Tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, gerði tolla á matvæli og tolla almennt að umtalsefni í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Virðulegur forseti. Umræða um tolla á matvæli og tolla almennt skýtur reglulega upp kollinum í umræðunni hér á landi en þá stíga gjarnan fram á völlinn valinkunnir talsmenn frjálshyggjunnar og fara frjálslega með staðreyndir. Þá virðist oft gleymast að það eru tvær hliðar á öllum málum en tollar á vörum þekkjast úti um allan heim. Þjóðir setja á tolla til að vernda framleiðslu sína, þjóðartekjur og jafna þannig aðstöðumuninn sem snertir framleiðsluna,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Til að mynda er Evrópusambandið mikið tollabandalag þar sem innri markaðurinn er eitt svæði og lönd utan hans annað. Íslendingar hafa ákveðna innflutningstolla á ESB-svæðinu fyrir skyr, lambakjöt og unninn lax. Þeir tollar eru settir af ESB til að verja eigin framleiðslu og hagkerfi og tryggja að bændur og úrvinnslugeirinn á svæði ESB hafi ákveðið öryggi fyrir framleiðslu sína.
Ísland setur tolla á ákveðnar vörur sem og önnur lönd og af hverju er það gert?
Jú, eins og áður hefur verið komið inn á er það gert til að vernda íslenska framleiðslu og hagkerfi.
Í hinum fullkomna heimi væri jafn dýrt að framleiða kjöt á Spáni og í Barðastrandasýslu en svo er hins vegar ekki.

  • Veðurfar,

  • löggjöf um aðbúnað og hirðingu,

  • húsakostur og

  • aðstæður til ræktunar eru ekki sambærilegar.

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að hirðingu og aðbúnaði og veðurfar hér er gjörólíkt. Það hefur verulegan kostnað í för með sér fyrir framleiðsluna og síðan er ótalinn einn stærsti þátturinn sem er launakostnaður.
Virðulegi forseti. Munum að tollvernd er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er það þannig að flest ríki og ríkjasambönd hafa tollvernd,“ sagði Þórarinn Ingi.