Categories
Fréttir

„Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum“

Deila grein

27/11/2019

„Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, spurði þingheim hvers vegna þetta þurfi að vera svona flókið, en „bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum eftir sveitarfélögum, meira að segja á sömu sorpsöfnunarsvæðunum,“ sagði Líneik Anna í störfum þingsins í dag.
„Virðulegi forseti. „Af hverju þarf þetta að vera svona flókið?“, spurði ungur Framsóknarmaður í grein í Fréttablaðinu um daginn og vísaði þar til flækjunnar við að skila af sér rusli til endurvinnslu á Íslandi. Íslendingum hefur tekist að búa til svo margar mismunandi útgáfur af flokkunarkerfum að margir fórna höndum og gefast upp fyrir verkefninu og setja allt í sama plastpokann. Bláar, grænar og gráar tunnur lúta mismunandi lögmálum eftir sveitarfélögum, meira að segja á sömu sorpsöfnunarsvæðunum. Margir hafa vakið athygli á þessu og ályktað um mikilvægi samræmds flokkunarkerfis. Ég vil því vekja athygli á og fagna því að ríkisstjórnin er með málið á dagskrá og við eigum von á frumvarpi um þau mál á vorþinginu.
Að því sögðu vil ég gera brúnar tunnur og heimajarðgerð að umtalsefni. Alveg sama hvernig við horfum á það mál hlýtur sjálfbærasta leiðin til jarðgerðar alltaf að vera jarðgerð á og hjá heimilunum þegar þess er kostur. Hún hentar sérstaklega vel fyrir íbúa í dreifbýli og garðeigendur í þéttbýli, ég tala nú ekki um ef notaðar eru aðferðir sem skila litlu kolefni út í andrúmsloftið og jarðvegurinn sem myndast nýtist í eigin ræktun. Þróunin hefur hins vegar sums staðar a.m.k. orðið sú að þegar sameiginlegri jarðgerð hefur verið komið á í sveitarfélögunum hafa þeir sem jafnvel hafa jarðgert heima árum saman horfið frá því vegna þrýstings um að taka þátt í sameiginlega verkefninu.
Ég legg því áherslu á að við samræmingu flokkunarkerfa verði horft til þess að búa til hvata til heimajarðgerðar og áhersla verði lögð á leiðbeiningar og stuðning við það verkefni,“ sagði Líneik Anna.