Categories
Fréttir

Græni takkinn!

Deila grein

27/11/2019

Græni takkinn!

„Virðulegi forseti. Nú erum við að ganga til atkvæðagreiðslu í 3. umræðu fjárlaga, ég held að það sé í fyrsta skipti sem við erum á tíma í þeim efnum. Þá er líklega hægt að þakka það góðri vinnu í fjárlaganefnd sem hefur verið stýrt undir styrkri stjórn hv. þm. Willums Þórs Þórssonar. Aðrir þingmenn í nefndinni mega líka fá bita af hrósi dagsins,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í dag.
„Þó að mismunandi hugmyndir eða skiptar skoðanir séu um hvernig eigi að skipta kökunni, sem birtist hér í fjölda nefndarálita og litríkum ljósum á atkvæðatöflunni, þá hefur þetta gengið vel. Sú atkvæðagreiðsla sem birtist hér er oft kómísk, niðurstaðan svolítið augljós en túlkunin skemmtileg. Samfylkingin hefur kvartað sáran hér og í fjölmiðlum um að stjórnarmeirihlutinn hafi aldrei verið á græna takkanum við tillögum hennar en gleymir að segja frá því að hún hefur heldur aldrei verið á græna takkanum við tillögum meiri hlutans þrátt fyrir margar frábærar tillögur af þeim bæ.
Telja má upp nokkur dæmi en listinn er ekki tæmandi úr fjárlögum þessa árs sem við erum að fara að samþykkja núna.

  • Það eru markvissar skattalækkanir og breytingar á tekjuskatti einstaklinga.

  • Fæðingarorlofið er aukið um einn mánuð strax á næsta ári og verður komið upp í 12 mánuði á árinu 2021.

  • Einnig eykst framlag til barnabóta um 1 milljarð og

  • stofnframlag til íbúðarbygginga hækkar einnig verulega.

  • Í samræmi við fjármálaáætlun er aukið verulega við fjárfestingu og viðhald í samgöngumálum. Frá árinu 2017 nemur aukningin 11,6 milljörðum kr. eða 32% að raungildi.

Virðulegi forseti. Það er vissulega áskorun fram undan í ríkisfjármálum og spár sýna að við erum að ganga inn í lægra hagvaxtarstig. Atvinnuleysi er að aukast og minni afkoma kallar á að við þurfum að vera vakandi. Gangi okkur vel í framhaldinu,“ sagði Halla Signý.