Categories
Greinar

Ísland tækifæranna

Deila grein

28/11/2019

Ísland tækifæranna

Mér varð hugsað til þess á fjölmennum miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina hvað samfélag er stórkostlegt fyrirbæri. Allur fjölbreytileikinn sem birtist okkur í ólíkum lífsviðhorfum, hagsmunum, skoðunum og framtíðarsýn. Í stjórnmálunum hljóma þessar ólíku raddir. Stjórnmálaflokkarnir eru mikilvægur þáttur í stjórnmálunum og þar með samfélaginu. Þeir eru lifandi farvegur þeirra mismunandi lífsgilda og skoðana sem í samfélaginu finnast. Mér þótti ekki síst vænt um þá miklu fjölgun sem hefur verið í ungliðastarfi flokksins.

Samfélag okkar er ekki fullkomið en það stendur framarlega í samanburði við aðrar þjóðir samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Sú staða hefur náðst með öflugri þátttöku Framsóknar í stjórn landsins þá rúmu öld sem flokkurinn hefur starfað. Við höfum unnið með flokkum til hægri og til vinstri og í þetta sinn spannar ríkisstjórnin sem við störfum í litróf stjórnmálanna á Íslandi frá vinstri til hægri, nokkuð sem verður að teljast einstakt í heimi þar sem stjórnmálin einkennast nú um stundir af miklum öfgum.

Framsókn hefur í farsælu samstarfi við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og Sjálfstæðisflokk unnið af heilindum fyrir landsmenn alla að margvíslegum umbótamálum og ég er stoltur af árangrinum. Stærsta einstaka framfaramál ríkisstjórnarinnar til þessa er gerð lífskjarasamninganna sem er undirstaða jafnvægis og framsóknar í íslensku samfélagi. Í tengslum við þá hefur tekist að koma baráttumáli Framsóknar síðustu árin, afnámi erðtryggingar, á góðan rekspöl.

Stórsókn í samgöngum, nýr og öflugur Menntasjóður þar sem hugsjónir Framsóknar um jöfn tækifæri óháð efnahag og búsetu koma skýrt fram og sérstök áhersla á að ungt fólk og efnaminna hafi tækifæri til að koma sér öruggu þaki yfir höfuðið. Allt eru þetta kosningamál Framsóknar sem eru að verða að veruleika. Allt eru þetta mál sem samvinnan hefur gert að veruleika. Allt eru þetta gríðarleg umbótamál sem styrkja Ísland sem land tækifæranna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. nóvember 2019.