Categories
Fréttir

Tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna

Deila grein

28/02/2019

Tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna

„Ný drög að heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur fara nú til umsagnar til almennings í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og verður leiðarljós að bættri þjónustu fyrir almenning. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér tillögurnar á vef samráðsgáttar – samradsgatt.island.is – og vænti þess að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í grein í Fréttablaðinu 14. febrúar.
Stjórnvöld ætla sér að jafna aðgengi að þjónustu og til atvinnu með að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að til verði heildstætt kerfi. Í því felst að bæta þjónustustig, hafa sameiginlega upplýsingaveitu og þéttari tengingar á milli áfangastaða.
„Fyrir farþega er lykilatriði að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Sá sem ætlar að fara frá Vopnafirði til Ísafjarðar eða Kaupmannahafnar til Dalvíkur á ekki að þurfa að leita að fari nema í einni gátt. Upplifunin þarf að vera að eitt far sé pantað, óháð staðsetningu,“ segir Sigurður Ingi.
Grein Sigurðar Inga má lesa í heild sinni hér.