Categories
Fréttir

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Deila grein

22/10/2015

Um 40% landsmanna á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum

Karl_SRGB„Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti fyrir skömmu búa fjórir af hverjum tíu landsmönnum á aldrinum 20–29 ára enn í foreldrahúsum, um 40%. Til samanburðar er hlutfallið um 10% í Danmörku. Ástæður þess að svo margir búa í foreldrahúsum fram undir þrítugt eru eflaust margvíslegar. Margir á þessum aldri eru í háskólanámi og það getur verið erfitt að fjármagna nám samhliða því að borga leigu, hvað þá að kaupa húsnæði. Það vita allir.
Ég minnist hins vegar á þetta mál vegna þess að á fjölmennum og áhugaverðum þjóðfundi í morgun sem þrír ráðherrar blésu til var fjallað um möguleika á nýjum og ekki síst ódýrari leiðum á húsnæðismarkaði. Þetta er gott framtak.
Þessa dagana er m.a. talað um Ikea-íbúðir, stáleiningahús frá Kína o.s.frv. Auðvitað þarf að skoða alla kosti og fara síðan fýsilegustu leiðina. Tími til athafna er kominn. Við getum ekki setið lengur hjá. Félagsmálaráðherra hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir sem eru skref í rétta átt. Til að ná utan um húsnæðismál ungs fólks og finna viðunandi lausnir þurfa hins vegar fjölmargir að koma að borðinu og það má enginn vera stikkfrí. Í morgun komu umhverfisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra líka að þessu stóra verkefni.
Staðreyndin er sú að heil kynslóð ungs fólks hefur ekki efni á þaki yfir höfuðið nema með aðstoð foreldra. Þetta unga fólk getur hvorki keypt né leigt. Það er einföld staðreynd. Þetta vandamál er ekki nýtt, það hefur verið viðvarandi í langan tíma. Við getum breytt reglugerðum, barið niður lóðaverð og líka byggingarkostnað en fjármagnskostnaðurinn er öllu venjulegu fólki ofviða. Ódýrt fjármagn er ekki til á Íslandi. Verðtryggingin er allt að drepa í þessu landi og hér mun ekkert breytast fyrr en hún fer.“
Karl Garðarssonstörf þingsins,  21. október 2015.