Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

Deila grein

16/10/2025

Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

Að kaupa sér fasteign er ein stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingur tekur á ævinni. Fólk þarf að geta skipulagt framtíð sína með trú á efnahagslegt jafnvægi og öryggi, án þess að sveiflur í verðbólgu og vöxtum setji fjárhagslegt öryggi og framtíðaráætlanir fólks í uppnám. Fyrirsjáanleiki í afborgunum húsnæðislána er þar lykilatriði, því hann gerir fólki kleift að gera raunhæfar áætlanir til langs tíma. Það krefst stöðugs efnahagsumhverfis og lánakerfis sem þjónar fólkinu, ekki öfugt.

Óverðtryggð lán skapa stöðugleika

Til að ná fram slíkum stöðugleika þarf að endurskoða lánakerfið og bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma, líkt og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar. Slíkt kallar á kerfisbreytingar sem ég hóf skoðun á þann stutta tíma sem ég var í fjármálaráðuneytinu. Á grundvelli þeirrar vinnu liggja nú fyrir tillögur í skýrslu dr. Jóns Helga Egilssonar sem birt var í upphafi þessa árs.

Niðurstaða skýrslunnar er að við getum boðið upp á óverðtryggð langtímalán, rétt eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Slík leið er raunhæf og framkvæmanleg, og Framsókn hefur þegar lagt fram þingmál á Alþingi sem miða að því að gera þessa breytingu mögulega. Þessi breyting mun að auki gera fjármögnun ríkissjóðs hagkvæmari til framtíðar og lækka vaxtakostnað. Áætlað er að vaxtagjöld ríkissjóðs nemi um 125 milljörðum króna árið 2026. Hagkvæmari fjármögnun mun því skila ríkissjóði miklu sem við getum þá nýtt til eflingar innviða eða bættrar þjónustu.

Með þeirri kerfisbreytingu sem við höfum lagt til mun vægi verðtryggðra lána dragast verulega saman, sem gerir alla hagstjórn markvissari og stöðugri. Það er mikilvægt að stíga út úr umhverfi verðtryggðra húsnæðislána, og þingmál Framsóknar er skref í þá átt. Þetta er áfangi að heilbrigðara fjármálaumhverfi, þar sem stöðugleiki, fyrirsjáanleiki og traust verða meginstoðir íslensks efnahagslífs.

Það er miður að fjármálaráðherra Viðreisnar hafi hafnað því að ráðast í nauðsynlegar breytingar sem myndu gera þetta að veruleika. Sú afstaða er í raun þvert á það sem bæði forystufólk verkalýðshreyfingar og atvinnulífs hefur kallað eftir. Eina lausn ríkisstjórnarinnar virðist nú felast í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sem er hvorki skjót né einföld leið til að takast á við þau brýnu, innlendu efnahagsvandamál sem íslensk heimili standa frammi fyrir.

Fleiri lóðir, fjölbreyttari uppbygging

En það þarf að grípa til fleiri aðgerða til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Sveitarfélög þurfa jafnframt að auka framboð lóða og tryggja að fólk geti sjálft byggt sér heimili, ekki eingöngu í gegnum stórverktaka. Víða um land er það orðið nánast ógerlegt að kaupa eða byggja sitt eigið húsnæði, hvort sem er vegna skorts á lóðum eða kostnaðar sem gerir einstaklingum erfitt að standa í slíku. Við treystum fólki til að ala upp börnin sín og taka ábyrgð á eigin lífi, en samt er því oft ekki treyst né gert kleift að kaupa lóð á viðráðanlegum kjörum og reisa sitt eigið heimili. Þessu þarf að breyta.

Til þess þarf samhæfðari sýn og heildstætt svæðisskipulag, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, með það að markmiði að stórauka lóðaframboð og gera einstaklingum og smærri byggingaraðilum kleift að byggja heimili á eigin forsendum. Nýtt skipulag þarf að vera raunhæft og í takt við þarfir fólks, þannig að aðgengi, samgöngur og bílastæði endurspegli daglegt líf og venjur heimila.

Við eigum að endurnýja þá hugsun sem einkenndi húsnæðissamvinnufélög fyrri tíma, þegar fólk tók höndum saman og byggði sitt eigið húsnæði. Sú sýn var á grunni samvinnu og samhjálpar, og þannig reis mikill fjöldi heimila, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að tryggja að sú leið sé raunhæfur valkostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur í dag.

Innviðagjöld og tekjuskipting

Jafnframt þarf að huga að því að innviðagjöld og álögur sveitarfélaga auki ekki kostnað við nýtt húsnæði og ýti þannig undir verðbólgu. Það er raunverulegt vandamál að lóðagjöld fyrir íbúð geti numið allt að tuttugu milljónum króna, sem einstaklingar og fjölskyldur þurfa að greiða áður en nokkrar framkvæmdir hefjast. Þetta kerfi setur mörgum skorður og dregur úr möguleikum fólks til að byggja sér heimili á eigin forsendum. Samhliða þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, enda munu lægri innviðagjöld óhjákvæmilega hafa áhrif á tekjur sveitarfélaga og því þarf að mæta því með slíkri endurskoðun.

Við þurfum aðgerðir sem breyta stöðunni á íslenskum húsnæðismarkaði, stuðla að auknum stöðugleika og gera hagstjórnina beittari og skilvirkari til framtíðar. Þetta eru leiðir til þess.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2025.