Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu um allt land hefur verið algjört forgangsatriði mitt sem menntamálaráðherra. Markmiðið er að byggja um 12.000 fermetra við flesta verk- og starfsnámsskóla á landinu á næstu árum. Nú þegar hefur verið skrifað undir samninga um stækkun Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Verkmenntaskólans á Akureyri og Fjölbrautaskóla Suðurnesja um samtals allt að 5.800 fermetra auk þess sem framkvæmdir við Fjölbrautaskólann í Breiðholti eru á næsta leiti. Til viðbótar verða nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans byggðar í Hafnarfirði.
Að auka framboð og fjölbreytni iðnnáms hefur verið eitt af forgangsmálum okkar á þessu kjörtímabili og hefur það skilað sér í bæði aukinni aðsókn og mikilli umræðu um mikilvægi þess að byggja upp sterkt og öflugt iðnnám um allt land. Það er liðin tíð að umræðan snúist um að iðnnám sé síðri valkostur fyrir ungt fólk. Nú eru nýir tímar, aðsókn hefur aldrei verið jafn mikil og vísa þarf hundruðum umsækjendum frá ár hvert. Við verðum að gera betur, það er ekki nóg að benda á mikilvægi þessara greina, við sem samfélag verðum að tryggja að þeir sem hefja nám geti lokið því og gera sem flestum kleift að sækja sér nám sem þeir hafa áhuga á.
Við sem skólasamfélag verðum að skapa umhverfi innan skólanna sem gerir þeim kleift að bregðast við framförum í tækni og þörfum vinnumarkaðarins. Þessi áform okkar um uppbyggingu og stækkun starfsnámsaðstöðu er til marks um að við ætlum að bregðast við þessu ákalli og þessari þörf. Hverjum hefði dottið það í hug um aldamót að rafmagnsbílar yrðu jafn vinsælir og þeir eru í dag en breyting á starfi bifvélavirkja er einmitt gott dæmi um iðnnám þar sem heil starfsstétt hefur þurft að bregðast við hröðum tæknibreytingum. Að sama skapi þurfa málm- og véltæknigreinar sífellt að færa sig nær tölvustýrðum verkfærum og svo mætti lengi telja. Við þurfum að geta boðið upp á nám sem bregst við ákalli samtímans og horfir til framtíðar.
Rétt undir 50 þúsund manns vinna í iðnaði á Íslandi í dag og hefur uppbygging sjaldan verið jafn mikil. Allar okkar spár gefa sterklega til kynna að sú uppbygging komi til með að halda áfram á næstu árum og áratugum. Við eigum ekki og ætlum ekki að sitja og bíða eftir að aðstaða til verk- og starfsnáms springi og biðlistar inn í verknám lengist enn frekar. Látum verkin tala, sýnum vilja í verki og lyftum upp því öfluga fólki sem kemur til með að stunda verk- og starfsnám í framtíðinni.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2024.