Categories
Fréttir

Útboð á sjúkraþjálfun er ekki jarðgangaverkefni

Deila grein

12/11/2019

Útboð á sjúkraþjálfun er ekki jarðgangaverkefni

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að Félag sjúkraþjálfara hafi bent á marga agnúa á þeirri aðferð að bjóða út sjúkraþjálfun án þess að leggja skal áherslu á fjölbreytni, gæði, samfellu og þátttöku notenda í þjónustunni. Þetta kom fram hjá henni í störfum þingsins á Alþingi í dag. Það er ekki hægt að nálgast slíkt útboð á sama hátt og jarðgangaverkefni eða aðrar stórar vegaframkvæmdir á vegum ríkisins. Það er annað er á við um vörukaup til heilbrigðisþjónustu enda viðkvæmur málaflokkur.
„Sjúkratryggingar Íslands hafa ákveðið að fela Ríkiskaupum að bjóða út sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu og er það í samræmi við lög um opinber innkaup sem sett voru samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014. Þessi lög eru mikilvæg því að hagkvæm innkaup eru forsenda fyrir góðri nýtingu á almannafé. Félag sjúkraþjálfara hefur bent á marga agnúa á þessari aðferð. Það sem skiptir mestu máli er náttúrlega fá góða niðurstöðu, bæði fyrir þá sem þjónustuna þiggja og líka fyrir ríkið sem niðurgreiðir hana. En á þá heilbrigðis- og félagsþjónusta að falla undir opinber innkaup og lög um hana? Norðurlöndin hafa tekið upp lög, sömu lög eða sömu tilskipun um opinber innkaup, en þau hafa sett sérstaka umgjörð um heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í Noregi eru til að mynda ákvæði í lögum um opinber innkaup sem fjalla um útboð á heilbrigðis- og félagsþjónustu sem segir að setja skuli í reglugerð reglur um sérstöðu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Leggja skal áherslu á fjölbreytni, gæði, samfellu og þátttöku notenda í þjónustunni.
Virðulegi forseti. Ég tel það vera skynsamlega nálgun og ættum við sem fámenn þjóð að fara sömu leið. Strax eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum var greiðsluþátttökukerfinu breytt þannig að fleirum var gert kleift að nýta sér þjónustu sjúkraþjálfara. Það er líka á stefnuskránni að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Heilbrigðis- og félagsþjónusta er viðkvæmur málaflokkur. Þess vegna getum við ekki nálgast hann á sama hátt og jarðgangaverkefni eða aðrar stórar vegaframkvæmdir á vegum ríkisins. Annað á við um vörukaup til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðis- og félagsþjónustu verður alltaf að nálgast með sérstökum aðferðum og reglum,“ sagði Halla Signý.