Categories
Fréttir Greinar

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Deila grein

07/10/2025

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Ísland hefur notið þeirrar gæfu að búa við ríka lýðræðishefð frá stofnun Alþingis árið 930. Stofnun allsherjarþings var merkilegt nýmæli á þeim tíma, án beinnar fyrirmyndar á Norðurlöndum, þar sem þing voru aðeins fyrir afmarkaða landshluta en ekki fyrir heila þjóð. Lögin voru æðsta vald og allir þeim undirgefnir. Alþingi hefur allar götur síðan verið tákn um sjálfsforræði þjóðarinnar og grundvöllur þjóðfrelsisbaráttu. Þessi hefð fyrir lýðræðislegum ákvörðunum og sjálfstæðu réttarkerfi hefur verið burðarás í íslensku þjóðlífi í meira en þúsund ár.

Til að velsæld ríki á Íslandi er nauðsynlegt að efla alþjóðaviðskipti og standa vörð um alþjóðasamvinnu. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands frá gildistöku hans árið 1994. Hann tryggir íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu, styrkir neytendavernd og stuðlar að samræmdum leikreglum á mörkuðum. Með samningnum tekur Ísland þátt í sameiginlegum reglum án þess að vera hluti af Evrópusambandinu og heldur þannig stjórn á eigin löggjöf. EES-samstarfið byggist á jafnvægi milli sjálfstæðra ríkja sem skuldbinda sig til samvinnu en framselja ekki alfarið löggjöf sína undir yfirþjóðlegt vald. Það er því mikilvægt að varðveita þetta jafnvægi, þar sem Ísland nýtur ávinnings samstarfsins án þess að fórna fullveldi sínu.

Bókun 35 við EES-samninginn gengur gegn íslenskri lýðræðishefð. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög, sem væri í reynd afsal á löggjafarvaldi Alþingis. Samkvæmt Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, er innleiðing bókunar 35 ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins. Núverandi fyrirkomulag, þar sem íslenskir dómstólar túlka lög í samræmi við EES-samninginn, tryggir bæði réttindi borgaranna og virðingu fyrir þjóðréttarlegum skuldbindingum án þess að grafa undan stjórnarskránni. Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.

Íslensk stjórnskipan byggist á því að valdið komi frá þjóðinni og sé bundið við lög sem hún setur sér sjálf. Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína og þá meginreglu að engin yfirþjóðleg löggjöf skuli hafa forgang fram yfir vilja Alþingis. Að standa vörð um þessa grundvallarreglu er ekki andstaða við Evrópusamvinnu heldur trygging þess að þátttaka Íslands í henni verði áfram á forsendum sterkrar lýðræðishefðar og fullveldis þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. október 2025.