Categories
Fréttir Greinar

Varnarmál í brennidepli

Deila grein

26/02/2024

Varnarmál í brennidepli

Tvö ár eru liðin í dag frá því að við fylgd­umst agndofa með því þegar Rúss­ar hófu ólög­lega inn­rás sína inn í frjálsa og full­valda Úkraínu. Stríð var hafið í Evr­ópu. Dag­legu lífi Úkraínu­manna, þess­ar­ar fjöl­mennu Evr­ópuþjóðar, var á einni nóttu snúið á hvolf, með þeim af­leiðing­um að millj­ón­ir hafa neyðst til að rífa sig upp með rót­um og flýja heim­ili sín vegna árása Rúss­lands­hers.

Þó að upp­haf­leg­ar áætlan­ir Rússa um að her­taka alla Úkraínu á nokkr­um dög­um hafi bless­un­ar­lega eng­an veg­inn gengið eft­ir hef­ur þeim tek­ist að her­taka um 18% af landsvæði Úkraínu. Úkraínu­mönn­um tókst að hrekja Rússa á brott frá stór­um landsvæðum fram­an af en á und­an­förn­um mánuðum hef­ur víg­lín­an lítið hreyfst í hörðum átök­um, þar sem mann­fall hef­ur verið mikið.

Áhrif inn­rás­ar­inn­ar hafa hríslast út um víða ver­öld með nei­kvæðum efna­hags­áhrif­um og varpað ljósi á and­vara­leysi í varn­ar­mál­um Evr­ópu­ríkja. Veru­leiki í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um gjör­breytt­ist á svip­stundu og í fyrsta sinn í ára­tugi var mála­flokk­ur­inn aft­ur kom­inn á dag­skrá í þjóðfé­lagsum­ræðunni. Þannig hafa ríki Evr­ópu stór­aukið sam­starf og fram­lög til varn­ar­mála og aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur fjölgað með inn­göngu Finna og inn­göngu­ferli Svía sem er á loka­metr­un­um en þau skref telj­ast til sögu­legra stefnu­breyt­inga í lönd­un­um tveim­ur. Þær ákv­arðanir sem tekn­ar hafa verið í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Íslend­inga hafa verið far­sæl­ar og staðist tím­ans tönn, má þar nefnda stofnaðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu árið 1949 og tví­hliða varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in árið 1951.

Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í sam­hæfðum aðgerðum vest­rænna ríkja til að styðja við Úkraínu. Tekið hef­ur verið á móti öll­um þeim Úkraínu­mönn­um sem hingað hafa leitað í skjól, ásamt því að margþætt­ur efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur stuðning­ur hef­ur verið veitt­ur svo dæmi séu tek­in. Það er gríðarlega mik­il­vægt að það verði ekki rof í stuðningi Vest­ur­landa við Úkraínu og sér­stak­lega brýnt að fundn­ar verði leiðir til þess að tryggja öfl­uga hernaðaraðstoð til Úkraínu­manna. Þar eru meðal ann­ars bundn­ar von­ir við að sátt ná­ist milli Re­públi­kana og Demó­krata í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings um 60 millj­arða dala hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Lang­tíma­hugs­un með marg­háttuðum stuðningi við Úkraínu skipt­ir máli. Sag­an kenn­ir okk­ur að ef ein­ræðis­herr­ar verða ekki stöðvaðir, halda þeir yf­ir­gangi sín­um ótrauðir áfram. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú þjóðfé­lags­gerð sem við og þjóðirn­ar í kring­um okk­ur þekkj­um er ekki sjálf­sögð. Tug­millj­ón­ir manna létu lífið í seinni heims­styrj­öld­inni í bar­átt­unni fyr­ir því frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um sem við búum við í dag. Inn­rás­in í Úkraínu er grimmi­leg áminn­ing um að þessi gildi eiga und­ir högg að sækja í heim­in­um. Það er óheillaþróun sem sporna verður við.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.