Eðlilega hafa verið miklar umræður um veiðigjöldin á Alþingi. En stefnt er að því að afkomutengja veiðigjöld og hafa álagningu eins nálægt í tíma og hægt er. Minnihlutinn sakar ríkisstjórnina um að blekkja þingið, enga sátt og segir stöðu greinarinnar ekki alvarlega.
Markmiðið með veiðigjaldinu er að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Með frumvarpinu er lagt til að:
- settur verði nýr reiknistofn veiðigjalds sem verði byggður á afkomu við veiðar hvers nytjastofns,
- veiðigjald verði 33% af reiknistofni,
- reglur um frítekjumark veiðigjalds verði óbreyttar,
- veiðigjald verði ákveðið fyrir almanaksár,
- stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið verði úr töf við meðferð upplýsinga.
Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði um 6–8 milljarðar kr. á ári næstu þrjú árin. Árlegur kostnaður vegna framkvæmdar laganna er áætlaður um 42,5 milljónir kr. Að auki fellur til um 46,1 milljóna kr. stofnkostnaður sem dreifist á árin 2018–2020 og gert er ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt innan útgjaldaramma málefnasviðs 5 í fjármálaáætlun (Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla).
Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum. Við ákvörðun veiðigjalds sumarið 2017 var þannig byggt á skýrslunni Hagur veiða og vinnslu 2015, sem kom út 20. janúar 2017 (og var endurskoðuð 29. júní 2017). Með því er reiknistofninn verulega háður gengissveiflum, ekki aðeins hvað snertir sölutekjur heldur einnig árlegt endurmat á lánum eða eignum þar sem bókhaldslegur gengishagnaður (eða tap) er hluti gjaldstofnsins og getur leitt til breytinga sem illa samræmast rekstrarafkomu á þeim tíma. Hér má benda á mikla hækkun hagnaðar (EBT) í fiskveiðum frá árinu 2014 þegar hann var álitinn um 15 milljarðar kr. til ársins 2015 þegar hann var álitinn um 31 milljarður kr. Stóran hluta þessa mátti rekja til áhrifa gengisbreytinga á fjármagnsstofn. Þetta gat síðan af sér mikla hækkun veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2017–2018 sem ekki samrýmdist nýjustu fáanlegu upplýsingum um rekstrarafkomu sjávarútvegsins á sama tíma, svo sem rakið var hér að framan.
Með frumvarpinu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds endurspegli væntanlega afkomu við veiðar (fyrir skatt) á komandi veiðigjaldsári (almanaksári). Þá er jafnframt lagt til að ekki verði lengur byggt á Hagtíðindum við útreikninga. Þess í stað verði byggt einvörðungu á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa auk skýrslna til Fiskistofu um afla og aflaverðmæti. Reiknistofn frumvarpsins er mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga þar sem annars vegar eru sóttar upplýsingar um hagnað í birtar töflur Hagstofu Íslands og hins vegar öllum kostnaði jafnað niður samkvæmt svonefndum afkomuígildum, sem um er fjallað ítarlega í skýringum við gildandi lög. Ekki er þörf á slíkri tveggja skrefa aðferð lengur en niðurjöfnun kostnaðarþátta er reist á vegnu hlutfalli aflaverðmætis hverrar tegundar við veiðar hvers fiskiskips.
„Þá vil ég draga fram mikilvægi þess að hafa í huga þá áherslu sem er í lögum um fiskveiðistjórn, að tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu. Eins það sem fram kemur í 20. gr. þeirra laga varðandi þá sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þeim lögum eða landa afla, að fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Þetta er það sem við erum að ræða, virðulegi forseti, og hefur mikið verið rætt á umliðnum misserum, að gjaldið þurfi að afkomutengja og byggjast á afkomutölum nær rauntíma. Í frumvarpinu sem við ræðum, frumvarpi til laga um veiðigjöld, er þeim sjónarmiðum sannarlega mætt,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í ræðu í fyrstu umræðu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks segir:
Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.
„Þeim sjónarmiðum er klárlega mætt í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í fyrstu umræðu um veiðigjaldið á Alþingi, að verið væri að að koma til móts við umsagnir og gagnrýni á fyrra frumvarp sem lagt var fram í s.l. vetur. „Þarna er verið að horfa eins og hægt er til hverrar útgerðar og kannski ekki hægt að gera þetta einstaklingsmiðaðra en þetta, því að það skiptir verulegu máli. Eins og í flestum atvinnugreinum eru útgerðin og sjávarútvegsfyrirtækin misjafnlega byggð upp og eru kannski ekki öll jöfn í þeirri skiptingu sem hefur verið, enda er óbreytt álagning veiðigjalds röng miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í dag,“ sagði Halla Signý.
„Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sérstaklega, sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum í sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi, en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum, eða um tæp 60% á 12 árum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið verður náttúrlega að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og fleiri þáttum í rekstri eins og tíðkast með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir nú ekki á afgjöldum af auðlindinni sem kostar okkur rótgróin fyrirtæki,“ sagði Halla Signý.