Það sem ræður mestu um lífskjör þjóða og getu þeirra til að byggja upp velferðarsamfélög og fjárfesta til framtíðar, er getan til að skapa verðmæti. Þessi verðmætasköpun er kjarni hagvaxtar, atvinnu og aukinna lífsgæða. Kenningar hins skoska hagfræðings Adams Smith, sem birtust árið 1776 í verki hans Auðlegð þjóðanna, leggja grunninn að efnahagslegri hugsun um hvernig þjóðir auka hagsæld. Smith lagði mikla áherslu á sérhæfingu og verkaskiptingu sem undirstöðu framleiðniaukningar. Með því að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að sérhæfa sig í því sem þau gera best og eiga frjáls viðskipti sín á milli skapast hvatar til nýsköpunar, aukinnar framleiðni og betri nýtingar auðlinda. Í þessu samhengi gegnir samkeppnishæfni þjóðar lykilhlutverki.
Af hverju að rifja upp þessa klassísku hagfræðikenningu Smiths? Tvennt kemur þar til. Annars vegar fer Trump-stjórnin mikinn þessa dagana og hefur í hyggju að setja af stað mikið tollastríð um heim allan. Ný-merkantílismi Trumps virðist vera að ryðja sér til rúms. Afleiðingarnar hafa birst okkur á öllum helstu mörkuðum, þar sem hlutabréfaverð hefur hríðlækkað og gullverð er í hæstu hæðum. Óvissa á mörkuðum er ráðandi. Afleiðingarnar fyrir íslenska hagkerfið eru óljósar en óvissan dregur úr hagvexti. Hins vegar, þá hefur ríkisstjórn Íslands kynnt auknar álögur á okkar helstu útflutningsgreinar. Mér finnst rétt að greidd séu auðlindagjöld í auðlindahagkerfi, en það skiptir máli hvernig það er gert og á hvaða tímapunkti. Eins skiptir máli að afleidd áhrif séu skoðuð gaumgæfilega og ábatagreining sé gerð. Það er ábyrgðarleysi að sinna ekki þessari vinnu og líka virðingarleysi gagnvart þeim samfélögum sem reiða sig á afkomu þessara atvinnugreina. Samvinna er lykillinn að velgengni. Ríkið þarf að vera til fyrirmyndar í þeim efnum.
Auðlegð Íslands veltur á því að samkeppnisstaða grunnatvinnugreina okkar sé sterk. Alþjóðahagkerfið er á fleygiferð þessa dagana og óvissan mikil. Þess vegna er svo brýnt að vandað sé til verka og ekki sé efnt til óvinafagnaðar. Ríkisfjármálaáætlunin sem kynnt var í vikunni reiðir sig á hóflegan hagvöxt og lækkandi verðbólgu. Ef ekki rættist úr hagvextinum, þá er ríkisfjármálaáætlunin komin í uppnám.
Velsæld á Íslandi hefur aukist verulega síðustu áratugi. Allt byggist þetta á því að verðmætasköpun eigi sér stað í vöru- og þjónustuútflutningi. Ef þrengir að útflutningi þjóðarinnar, þá minnkar hagsæld hratt. Á óvissutímum þarf að þétta raðirnar og styðja við íslenska hagsmuni, ekki skaða þá. Ef Ísland ætlar að tryggja áframhaldandi vöxt og lífsgæði þarf að leggja áherslu á aukna verðmætasköpun. Með því að hlúa að samkeppnishæfni getur þjóðin tryggt sér betri framtíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar. liljaalf@gmail.com
Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2025.