Categories
Fréttir Greinar

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Deila grein

03/04/2025

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Það sem ræður mestu um lífs­kjör þjóða og getu þeirra til að byggja upp vel­ferðarsam­fé­lög og fjár­festa til framtíðar, er get­an til að skapa verðmæti. Þessi verðmæta­sköp­un er kjarni hag­vaxt­ar, at­vinnu og auk­inna lífs­gæða. Kenn­ing­ar hins skoska hag­fræðings Adams Smith, sem birt­ust árið 1776 í verki hans Auðlegð þjóðanna, leggja grunn­inn að efna­hags­legri hugs­un um hvernig þjóðir auka hag­sæld. Smith lagði mikla áherslu á sér­hæf­ingu og verka­skipt­ingu sem und­ir­stöðu fram­leiðniaukn­ing­ar. Með því að leyfa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um að sér­hæfa sig í því sem þau gera best og eiga frjáls viðskipti sín á milli skap­ast hvat­ar til ný­sköp­un­ar, auk­inn­ar fram­leiðni og betri nýt­ing­ar auðlinda. Í þessu sam­hengi gegn­ir sam­keppn­is­hæfni þjóðar lyk­il­hlut­verki.

Af hverju að rifja upp þessa klass­ísku hag­fræðikenn­ingu Smiths? Tvennt kem­ur þar til. Ann­ars veg­ar fer Trump-stjórn­in mik­inn þessa dag­ana og hef­ur í hyggju að setja af stað mikið tolla­stríð um heim all­an. Ný-merkan­tíl­ismi Trumps virðist vera að ryðja sér til rúms. Af­leiðing­arn­ar hafa birst okk­ur á öll­um helstu mörkuðum, þar sem hluta­bréfa­verð hef­ur hríðlækkað og gull­verð er í hæstu hæðum. Óvissa á mörkuðum er ráðandi. Af­leiðing­arn­ar fyr­ir ís­lenska hag­kerfið eru óljós­ar en óviss­an dreg­ur úr hag­vexti. Hins veg­ar, þá hef­ur rík­is­stjórn Íslands kynnt aukn­ar álög­ur á okk­ar helstu út­flutn­ings­grein­ar. Mér finnst rétt að greidd séu auðlinda­gjöld í auðlinda­hag­kerfi, en það skipt­ir máli hvernig það er gert og á hvaða tíma­punkti. Eins skipt­ir máli að af­leidd áhrif séu skoðuð gaum­gæfi­lega og ábata­grein­ing sé gerð. Það er ábyrgðarleysi að sinna ekki þess­ari vinnu og líka virðing­ar­leysi gagn­vart þeim sam­fé­lög­um sem reiða sig á af­komu þess­ara at­vinnu­greina. Sam­vinna er lyk­ill­inn að vel­gengni. Ríkið þarf að vera til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Auðlegð Íslands velt­ur á því að sam­keppn­is­staða grunn­atvinnu­greina okk­ar sé sterk. Alþjóðahag­kerfið er á fleygi­ferð þessa dag­ana og óviss­an mik­il. Þess vegna er svo brýnt að vandað sé til verka og ekki sé efnt til óvinafagnaðar. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in sem kynnt var í vik­unni reiðir sig á hóf­leg­an hag­vöxt og lækk­andi verðbólgu. Ef ekki rætt­ist úr hag­vext­in­um, þá er rík­is­fjár­mála­áætl­un­in kom­in í upp­nám.

Vel­sæld á Íslandi hef­ur auk­ist veru­lega síðustu ára­tugi. Allt bygg­ist þetta á því að verðmæta­sköp­un eigi sér stað í vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ingi. Ef þreng­ir að út­flutn­ingi þjóðar­inn­ar, þá minnk­ar hag­sæld hratt. Á óvissu­tím­um þarf að þétta raðirn­ar og styðja við ís­lenska hags­muni, ekki skaða þá. Ef Ísland ætl­ar að tryggja áfram­hald­andi vöxt og lífs­gæði þarf að leggja áherslu á aukna verðmæta­sköp­un. Með því að hlúa að sam­keppn­is­hæfni get­ur þjóðin tryggt sér betri framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­arlilja­alf@gmail.com

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2025.