Categories
Fréttir

Verðum að svara hversu mikla orku við þurfum og hvert við ætlum að stefna

Deila grein

27/03/2023

Verðum að svara hversu mikla orku við þurfum og hvert við ætlum að stefna

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í umræðu um orkuöryggi á Alþingi.

Ingibjörg kom inn á að Íslendingar hafi raunverulegan möguleika til þess að verða fyrsta landið sem verður óháð jarðefnaeldsneyti, en erum núna að flytjum við inn jarðefnaeldsneyti fyrir um 300 milljarða kr. á ári. Markmiðin í loftslagsmálum eru metnaðarfull og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur sé í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða. Það má sjá þegar orkumarkaðir erlendis eru í uppnámi og orkuöryggi er ógnað.

„Á ársfundi Landsvirkjunar á dögunum kom fram að Landsvirkjun hafi þurft að hafna mörgum umhverfisvænum og áhugaverðum verkefnum vegna þess að raforkukerfi Landsvirkjunar er fullnýtt. Einnig kom fram að það væri mikil umframeftispurn í kerfinu,“ sagði Ingibjörg.

Rammaáætlun sem við náðum að losa um á síðasta ári þarfnast yfirferðar og einfalda þarf leyfisferli. Ferlið frá umsókn til lokafrágangs virkjunar tekur allt að tíu til fimmtán ár.

Atvinnulífið hefur hafið orkuskiptin en innviði og orku skortir. „Við byggjum allt okkar atvinnulíf og samkeppnisforskot á orkunni sem við búum yfir í landinu, en það getur fljótt dregið af þessu ef við höfum ekki nægjanlega orku. Ég hef ekki fundið annað en að allir vilji vanda til verka, en við búum við flókið verkferli í tengslum við framkvæmdir í orkumálum,“ sagði Ingibjörg.

Orkuskortur blasir við og flutningstakmarkanir eru til staðar á milli landsvæða svo að aðgerða er þörf. Eins þarf að svara spurningum varðandi orkusækinn iðnað en verulega stór hluti af útflutningstekjum Íslands má einmitt rekja þangað.

  • Ætlum við að standa með þeim fyrirtækjum sem eru hér í dag og þeirra verkefnum til framtíðar?
  • Viljum við vaxa og eflast sem samfélag?

„Í grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum er okkur gefnar sex sviðsmyndir um orkuþörf landsins. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp um aukna orkuþörf Íslands með vísan í loftslagsmarkmið spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040, allt eftir því hvort stefnt er að stöðnun eða auknum hagvexti,“ sagði Ingibjörg.

Hvaða sviðsmynd ætlum við að vinna með?

„Við þurfum að treysta betur flutning og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Fyrirséð er að ljúka þurfi endurnýjun á meginflutningskerfi raforku sem liggur í kringum landið enda er byggðalínan orðin hálfrar aldar gömul og raforkunotkun hefur margfaldast frá því að hún var byggð.“

„Í áðurnefndri grænbók kom fram að leggja þyrfti fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku á árinu 2022 og í henni þyrfti að taka afstöðu til fjölmargra beiðna um aukna flutningsgetu, samtengingar og betri stýringar. Sú tillaga er ekki komin fram og ég get ekki séð hana á þingmálaskrá á þessu þingi,“ sagði Ingibjörg.

Orka verður sífellt stærri hluti af því hvernig við vöxum sem velferðar- og velsældarsamfélag

„Mikilvægast af öllu er að taka ákvörðun um hvernig við viljum sjá landið og þjóð þróast til framtíðar. Ætlum við að nýta tækifærið sem blasir við okkur? Ætlum við að auka orkuöflun, ráðast í orkuskipti og ekki síður nýta landfræðilega stöðu landsins til orkuskipta á skipum og flugvélum?“

„Því spyr ég ráðherra hver sé framtíðarsýnin. Hvernig ætlum við að tryggja nægt framboð á raforku um allt land til orkuskipta? Hver eru framtíðaráform ráðherra varðandi uppbyggingu á meginflutningskerfi raforku á Íslandi? Ég veit að þetta eru stórar spurningar, en við verðum einfaldlega að fara að svara þeim,“ sagði Ingibjörg að lokum.