Categories
Fréttir Greinar

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Deila grein

27/03/2023

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Mál­efni gervi­greind­ar hafa verið tals­vert í þjóðfé­lagsum­ræðunni hér í landi í kjöl­far þess að banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI, eða Opin gervi­greind á ís­lensku, til­kynnti að tungu­málið okk­ar hefði verið valið í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta þýðir að við get­um átt sam­ræður við líkanið á ís­lensku og spurt það spjör­un­um úr um hin ýmsu mál­efni og fengið svör á ís­lensku. Þessi ákvörðun fyr­ir­tæk­is­ins var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir menn­ingu okk­ar og þá miklu heima­vinnu sem lagst hef­ur verið í hér á landi til að gera þetta mögu­legt.

Ný­verið ritaði Bill Gates, einn stofn­enda Microsoft, grein þar sem hann fer yfir að öld gervi­greind­ar­inn­ar sé runn­in upp og að tækn­in eigi eft­ir að hafa mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar í för með sér. Þannig rek­ur hann hvernig gervi­greind­in eigi eft­ir að breyta störf­um fólks, námi, ferðalög­um, heil­brigðisþjón­ustu og sam­skipt­um svo dæmi séu tek­in. Hann nefn­ir meðal ann­ars að til­koma gervi­greind­ar­inn­ar sé jafn bylt­ing­ar­kennd og til­koma farsím­ans, al­nets­ins og einka­tölv­unn­ar.

Það skipt­ir máli að Ísland verði ger­andi og taki virk­an þátt í þróun og inn­leiðingu yf­ir­stand­andi tækni­breyt­inga til þess að bæta sam­fé­lagið en á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór og fram­sæk­in skref til þess að huga að þess­um breyt­ing­um með ein­mitt það í huga. Má þar til að mynda nefna stefnu Íslands um gervi­greind sem var unn­in árið 2021 að beiðni for­sæt­is­ráðherra. Þar var mótuð skýr framtíðar­sýn um hvernig ís­lenskt sam­fé­lag geti unnið með gervi­greind, öll­um til hags­bóta. Í stefn­unni er meðal ann­ars farið yfir ýmsa snertifleti gervi­greind­ar við ís­lenskt sam­fé­lag, til að mynda rétt­indi Íslend­inga gagn­vart nýrri tækni, þau gildi sem hafa þarf til hliðsjón­ar við inn­leiðingu henn­ar og hvernig leysa beri úr álita­mál­um henni tengdri.

Það skipt­ir höfuðmáli að mann­fólkið stjórni tækn­inni en ekki öf­ugt. Eitt af þeim stóru atriðum sem Bill Gates ræðir meðal ann­ars í grein sinni er mik­il­vægi þess að gervi­greind­in sé nýtt til góðs en ekki til ill­virkja. Þar hef­ur hann svo sann­ar­lega lög að mæla.

Segja má að eitt fram­sækn­asta skref sem stjórn­völd hafa stigið í seinni tíð hafi verið að fjár­festa í mik­il­væg­um innviðum á sviðum mál­tækni í gegn­um fyrstu mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og und­ir­byggja þannig að ís­lensk­an gæti orðið gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Þannig var Ísland virk­ur ger­andi í því að þróa tækni til hags­bóta fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki hér á landi sem og er­lend­is og leggja sitt af mörk­um til þess að auka nota­gildi gervi­greind­ar á okk­ar eig­in for­send­um. Eft­ir þessu var meðal ann­ars tekið þegar ég, ásamt for­seta Íslands og sendi­nefnd, heim­sótt­um OpenAI í fyrra og töluðum máli ís­lensk­unn­ar. Það er sann­ar­lega ánægju­legt að sjá ár­ang­ur vinnu und­an­far­inna ára skila sér með fyrr­nefnd­um hætti. Við þurf­um hins veg­ar að halda áfram að standa vakt­ina og tryggja að tækn­in skili okk­ur bætt­um lífs­kjör­um á okk­ar for­send­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars 2023.