Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins 23.-24. nóvember 2019 í Hofi, menningarhúsi Akureyrar.
***
Kæru félagar!
Í kringum kosningar til Alþingis árið 2017 sýndu kannanir að 74 prósent kjósenda vildi sjá Framsókn í ríkisstjórn. Fólk var orðið þreytt á vígamóðum stjórnmálum og vildi sjá festu og jafnvægi í stjórn landsins eftir erfið ár frá hruni. Á þessum grunni og þeim skýru skilaboðum sem kjósendur gáfu í kosningum þar sem mynduð var stjórn með megináherslu á uppbyggingu innviða samfélagsins sem höfðu látið á sjá í þeim miklu niðurskurðarárum eftir hrunið.
Stórsókn í samgöngum, stórsókn í menntamálum, stórsókn í heilbrigðismálum og stórsókn í lífsgæðum. Sú ríkisstjórn sem við sitjum í undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur unnið af krafti að stórum málum sem varða lífsgæði allra Íslendinga.
Framsókn hefur í þessu farsæla samstarfi við Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokk unnið að heilindum fyrir landsmenn alla að því að koma í framkvæmd þeim stefnumálum sem við settum á oddinn í kosningabaráttunni og ég er stoltur af árangrinum. Stærsta einstaka framfaramál ríkisstjórnarinnar til þessa er gerð Lífskjarasamningsins sem er undirstaða jafnvægis og Framsóknar í íslensku samfélagi. Í tengslum við hann hefur tekist að koma baráttumáli Framsóknar síðustu árin, afnámi verðtryggingar, á góðan rekspöl.
Húsnæðismálin sem við lögðum svo mikla áherslu á í kosningabaráttunni eru þungamiðjan í lífskjarasamningunum og sýnir það svo ekki verður um villst þá sterku tengingu sem við sem flokkur höfum við alþýðu landsins.
Samfélag okkar er ekki fullkomið en það stendur framarlega í samanburði við aðrar þjóðir samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Sú staða hefur náðst með öflugri þátttöku Framsóknar í stjórn landsins þá rúmu öld sem flokkurinn hefur starfað. Við höfum unnið með flokkum til hægri og til vinstri og í þetta sinn spannar ríkisstjórnin sem við störfum í litróf stjórnmálanna á Íslandi frá vinstri til hægri, nokkuð sem verður að teljast einstakt í heimi þar sem stjórnmálin einkennast nú um stundir af miklum öfgum til hægri og vinstri.
Þessi stjórn var svarið við ósk kjósenda um jafnvægi og Framsókn í mikilvægum málum. Getum við ekki öll verið sammála um það?
Og af hverju vildu íslenskir kjósendur svo margir sjá Framsókn við stjórn landsins? Samvinnan er okkur í Framsóknarflokknum í blóð borin. Flokkurinn okkar er ekki stofnaður eftir forskrift alþjóðlegra kreddna heldur sprettur hann upp úr íslenskum jarðvegi þar sem krafan var og er enn að jafnvægi ríki í samfélaginu.
Að mínu mati er eitt það fallegasta og mikilvægasta við íslenskt samfélag að hér er félagslegur hreyfanleiki einn sá mesti á byggðu bóli, ef ekki sá mesti. Fólki er með öflugu menntakerfi og sterku félagslegu neti gert kleift að láta hæfileika sína blómstra. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklinginn heldur samfélagið allt að hæfileikar fólks geti verið grunnur að betra lífi, meiri lífsgæðum.
Ísland er land tækifæranna. Við erum flokkur umbóta.
Sjávarútvegur
Undanfarnar vikur hefur samfélagið verið skekið af því sem í almennu tali er nefnt Samherjamálið. Fólk er eðlilega reitt. Reitt yfir þessu framferði stórfyrirtækisins sem birtist í umfjölluninni en ekki hvað síst reitt yfir þeim aðstöðumun sem stórfyrirtæki og almenningur búa við. Framsóknarflokkurinn kom að því á sínum tíma að setja á kvótakerfi í fiskveiðum. Það var stórkostlegt hagsmunamál fyrir þjóðina að fiskveiðar við Ísland væru sjálfbærar og gengju ekki á auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin.
Ég leyfi mér að fullyrða að á þeim tíma datt engum til hugar að staðan árið 2019 yrði sú að svo fá fyrirtæki væru með svo stóran hlut kvótans. Og ekki nóg með það heldur farin að banka í hámarksþakið. Það er auðvitað gleðilegt og jákvætt að íslenskur sjávarútvegur sé með þeim fremstu, ef ekki sá fremsti, í heiminum. Það breytir því ekki að umbóta er þörf.
Fyrr á árinu var í samráðsgátt stjórnvalda nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrár sem er hluti af þeirri markvissu vinnu ríkisstjórnarinnar í umbótum á stjórnarskránni. Ég tel gríðarlega mikilvægt að slíkt auðlindaákvæði sé í stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar.
Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun.
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.
Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.
Þótt slíkt ákvæði sé mikilvægt þá dugar það ekki eitt og sér. Það verður að ríkja sátt um nýtingu auðlinda okkar, hvort heldur er orka, land eða fiskimið. Árin 2014 og 2015 lagði ég sem sjávarútvegsráðherra í mikla vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða, vinnu sem byggðist á tillögum sáttanefndar þar sem að komu fulltrúar allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðilar. Það frumvarp fól í sér að í sjávarútvegsfyrirtæki gerði samning um kvóta til ákveðins tíma, 23 ára, sem undirstrikar eign þjóðarinnar á auðlindinni en gefur sjávarútvegsfyrirtækjunum tækifæri til langtímahugsunar og býr til fyrirsjáanleika.
Frumvarpið komst ekki inn til þingsins vegna mikillar andstöðu samstarfsflokksins. Ég tel að grunnur að sátt um sjávarútveginn felist í þessu frumvarpi og því að lækka hámark kvótaþaks, bæði í heildaraflaheimildum og í einstökum tegundum, og vinna þannig að aukinni dreifingu kvóta.
Frumvarpið hefði haft mikil áhrif á samfélagið og stuðlað að meiri sátt, meira jafnvægi í samfélaginu.
Það hefði haft áhrif á þróun byggðar því sjávarútvegurinn er einn af burðarásum í atvinnu og verðmætasköpun um allt land. Kvótakerfið var ekki búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir.
Það var ekki búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyjum.
Það var búið til svo Íslendingar allir gætu notið hagsbóta af öflugum íslenskum sjávarútvegi. Umbætur í sjávarútvegi eru nauðsynlegar og tímabærar. Og Framsókn mun beita sér fyrir þeim.
Því Ísland á að vera land tækifæranna. Og Framsókn er afl umbóta í íslensku samfélagi. Ekki flokkur byltinga. Flokkur umbóta.
Það þarf ekki mikið innsæi til að átta sig á því að við erum sem þjóð ekki búin að jafna okkur eftir hrunið og þau miklu svik sem almenningur upplifði þegar heilt bankakerfi hrundi. Ofan í það komu Panama-skjölin og nú Samherjamálið. Margir upplifa það kerfi sem við höfum byggt upp sem ófullkomið og máttvana til að standa vörð um hagsmuni almennings.
Á þessum stundum hljóðna líka í smá stund þær raddir sem hæst hafa um „ofvaxnar“ eftirlitsstofnanir og of flókið og íþyngjandi kerfi. Því markaðurinn þarf jú ekki eftirlit því hann sér um það sjálfur! Þennan söng heyrðum við á árunum fyrir efnahagshrunið. Segir ekki einhvers staðar að skilgreiningin á brjálæði sé að gera sömu mistökin aftur og aftur? Frelsi er mikilvægt en án ábyrgðar er frelsið lítils virði.
Jarðarmál
Og talandi um frelsi. Við heyrum af því fréttir að einn auðmaður frá Bretlandi hafi keypt upp hátt á annað prósent landsins. Ef 99 aðrir slíkir auðmenn gerðu slíkt hið sama væri ekkert eftir. Sættum við okkur að innan við hundrað einstaklingar geti átt allar jarðir á Ísland? Enginn sættir sig við í nafni viðskiptafrelsis að hægt sé að kaupa heilu dalina eða héruðin.
Uppkaup jarða geta skaðað fullveldi landsins. Þau hafa áhrif á samfélagsgerðina. Slík jarðasöfnun dregur kraft úr byggðum landsins. Dæmin sýna að heilu landsvæðunum er lokað fyrir frjálsri för. Við viljum ekki sjá slíka auðlindasöfnun. Eignarhaldi er leynt og auk þess ógagnsætt.
Þessi þróun gengur gegn hugsun Framsóknar. Verkefni Framsóknar er að tryggja fjölbreytta nýtingu auðlindar í þágu samfélags og þjóðar.
Í regluverkinu verður að taka á öllum þessu þáttum. Punktur.
Við fáum reglulega fréttir af því að einhverjir velji sér þá leið að færa fjármuni í flóknum fléttum til aflandseyja hér og þar í heiminum. Það er sorglegt til þess að hugsa að fólk og fyrirtæki sjái ekki sóma sinn í að deila kjörum með þjóðinni sinni og flytji peningana í skattaskjól. Ég held ég tali fyrir hönd mikils meirihluta þjóðarinnar þegar ég segi: Þessu verður að linna. Hættið að fela peningana. Takið þátt í að byggja betra samfélag.
Byggðamál
Framsókn á uppruna sinn í sveitum landsins líkt og íslenska þjóðin. Það hefur ætíð verið skýr stefna flokksins að horfa á landið sem eina heild. Nú horfir svo við að um 84 prósent landsmanna búa á einu horni landsins sem er afmarkað af Hvíta í Borgarfirði og Hvítá í Árnessýslu. Þróunin hefur verið hröð og þróunin hefur verið studd af ákvörðunum stjórnvalda sem hafa komið nær öllum störfum ríkisins fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara einn flokkur sem hefur flutt stofnanir út fyrir höfuðborgarsvæðið og það er flokkurinn okkar.
Það er stefna okkar, nú sem fyrr, að byggðir um allt land séu blómlegar. Við viljum að fólk geti búið og starfað um allt land. Ljósleiðaravæðing landsins, Ísland ljóstengt, er einstakt verkefni í heiminum og hefur vakið athygli víða enda verður sú staða að árið 2021 verði 99,9 prósent fyrirtækja og heimila komið í samband við háhraða-net. Það er grundvallaratriði til þess að byggð geti dafnað um allt land í þeim miklu breytingum sem eru framundan og nefndar hafa verið fjórða iðnbyltingin.
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auglýsa störf án staðsetningar með það að markmiði að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Ráðuneyti mitt hefur farið á undan með góðu fordæmi og er fyrsta ráðuneytið til að ráða samkvæmt þessari stefnu. Reynslan er góð og kemur það mér ekki á óvart.
Það er ekki aðeins mikilvægt að hæft fólk um allt land geti starfað í stjórnarráðinu. Reynsla og þekking sem fylgir fólki frá ólíkum svæðum eru verðmæt fyrir stjórnarráðið og þá miklu stefnumótun sem fer þar fram.
Loftslagsmál
Umræðan um loftlagsmálin er áberandi í samfélaginu um þessar mundir. Eðlilegt er að litið sé til þeirra aðvarana sem helstu sérfræðingar á þessu sviði hafa haft uppi um langt skeið. Loftlagsvandinn er verkefni okkar allra og er ánægjulegt að flokkurinn sé að leggja sérstaka áherslu á vandann í starfi sínu með stofnun sérstaks vettvangs flokksmanna. Við eigum ekki, og megum ekki, eyða orku í að taka þátt í popúlískum rifrildum sem drifin eru áfram af hagsmunaöflum olíufyrirtækja.
Við hljótum að taka mark á þeim yfirgnæfandi fjölda sérfræðinga sem hafa ekki aðeins bent á hættuna heldur einnig komið með leiðir til að koma í veg fyrir hamfarir sem fylgja hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Það er rétt að efast, það er rétt að gagnrýna, en að aðhafast ekkert og vona það besta er einfaldlega ekki boðlegt fyrir framtíðarkynslóðir.
Í loftlagsmálunum reynir ekki síst á ungt fólk í stjórnmálum sem hlýtur að verða framarlega í því að leita lausna við þessum vanda sem kemur ekki niður á lífsgæðum okkar og leggur ekki alla ábyrgð á herðar einstaklinga heldur einnig fyrirtækja og þjóða. Ég treysti því að ungir framsóknarmenn verði framarlega í þessari umræðu og leyfi mér að vitna í ræðu Eysteins Jónssonar frá stofnun Landssambands ungra framsóknarmanna árið 1938:
“Allir þróttmiklir æskumenn hafa áhuga fyrir umbótum og nýjungum. Framsóknarflokkurinn hefir nóg rúm fyrir slíka menn. Þeir eiga að koma áhugamálum sínum á framfæri í flokknum — hafa áhrif á stefnu hans — flytja inn í hann fjör og þrótt. Þeir eiga að vera samviska flokksins.”
Orkuskipti í samgöngum, aukin skógrækt, aukin landgræðsla. Allt eru þetta þættir sem eru jákvæðir fyrir samfélagið allt. Hreinna loft, grænna land, sjálfstæðara hagkerfi. Hér höfum við allt að vinna og engu að tapa.
Þjóðgarður
Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Þverpólitískri nefnd var falið að greina tækifæri og koma með tillögur sem tekið var mið af og er nú í vinnslu. Ákvörðun um að setja Miðhálendisþjóðgarð verður að vera tekin á yfirvegaðan hátt. Hér er um stórt skipulagsmál að ræða sem nær yfir stóra hluta landsins sem varir um aldur og ævi.
Það skiptir máli að við horfum til framtíðar og tökum ekki ákvarðanir núna sem koma í veg fyrir tækifæri í framtíðinni. Markmiðið hlýtur alltaf að við sem búum hér séum sem mest sjálfbær til orku og fæðuöflunar. Að við fáum notið þeirra auðlinda á sjálfbæran hátt sem okkur var ráðstafað.
Þjóðgarður allra Íslendinga verður ekki að veruleika fyrr en meginþorri landsmanna, ekki síst sá hluti, gæslumenn landsins í 1100 ár, verði sammála um að tækifæri séu í stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.
Samgöngur
Í samgöngum höfum við aukið fjármagn til vegagerðar umtalsvert. Samgönguáætlun var lögð fram fyrir ári síðan og mun uppfærð áætlun verða lögð fram á næstunni. Stærsti munurinn á þeim er að nýframkvæmdum verður flýtt sem nemur um 214 milljarðar króna. Með þessu erum við að stíga stærri skref en þekkst hafa áður. Á landsbyggðinni er verið að flýta framkvæmdum um 125 milljarða en jafnframt mun áherslan síðan vera á tengivegi. Samgöngusáttmálinn ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir sameiginlega sýn og heildarhugsun fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa umferðarvanda höfuðborgarbúa sem ríkt hefur þar síðustu ár.
Þá er gaman að segja frá því að samvinnuleiðir hafa alltaf reynst vel. Einnig í vegakerfinu. Það hefur sýnt sig að samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum geta skilað ávinningi til þeirra sem nýta vegina, brýrnar eða göngin og lægri kostnaði fyrir ríkið. Forsenda slíkra leiða er jafnræðið, að það sé val um aðra leið.
Mennta- og menningarmál
Í mennta- og menningarmálum hefur Lilja Dögg unnið gríðarlega mikla vinnu og komið mörgum stórum málum í framkvæmd, á aðeins tveimur árum. Grundvallarbreyting í starfsumhverfi kennara er orðin að veruleika og nýnemum í kennaranámi hefur fjölgað stórkostlega, eftir að kynntar voru aðgerðir sem gera kennarastarfið eftirsóknarverðara.
Vinna við Menntastefnu til ársins 2030 er á lokametrunum og endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla er í fullum gangi. Fjárveitingar til háskóla og framhaldsskóla hafa aukist, auk þess sem efling iðn-, starfs- og verknáms hefur verið sett í forgang. Þá hefur Lilja gripið til markvissra aðgerða til stuðnings íslenskri tungu enda er tungumálið okkar forsenda skapandi hugsunar og allrar menntunar.
Það er ánægjulegt að segja frá því að bókaútgáfa hefur tekið mikinn kipp eftir að lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku tóku gildi. T.d. hefur fjöldi útgefinna barnabóka aukist um heil 47%.
Einnig er grundvallarbreyting að verða á stuðningi hins opinbera við námsmenn, þegar Lánasjóður Íslenskra námsmanna breytist í Menntasjóð og þá var frítekjumark námsmanna hækkað um 43% fyrr á árinu.
Síðan er kvikmyndastefna í mótun hjá menntamálaráðherra og eins og komið hefur fram þá hefur verið lögð mikil vinna í að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, þar með talinna héraðsfréttamiðla, svo dæmi séu tekin.
Félags- og barnamál
Í félags- og barnamálaráðuneytinu hefur Ásmundur Einar sett mikinn kraft í húsnæðismálin. Í anda Framsóknar er þar hugað sérstaklega að tækifærum fólks til að komast í öruggt húsnæði, hvort heldur það er til kaupa eða leigu, og að undanförnu lagt sérstaka áherslu á uppbyggingu á landsbyggðinni. Má segja að ráðuneyti hans sé í brennidepli í lífskjarasamningunum enda mikil áhersla lögð á húsnæðismál við gerð þeirra. Stofnframlög hafa verið aukin og einnig hafa verið gerðar breytingar á lögum til að þau nýtist með skilvirkari hætti á landsbyggðinni. Í lok október var 3,2 milljörðum úthlutað til kaupa eða byggingar á 531 íbúð um allt land.
Nú er unnið að því að skoða svokölluð hlutdeildarlán til að bregðast við bresti á húsnæðismarkaði og miðar vinnan að því að auðvelda ungu fólki og tekjulágu fólki að eignast eigið húsnæði.
Ásmundur Einar hefur svo eftir hefur verið tekið sett málefni barna á dagskrá. Það er líka svo að skoða verður alla málaflokka ríkisins út frá hagsmunum barna. Þessi áhersla Ásmundar hefur því áhrif langt út fyrir málaflokka ráðuneytisins.
Barnaþingið
Vikan sem er að líða var tileinkuð börnum. Sl. mánudag stóðum við í ráðuneytinu fyrir málþingi um Börn og samgöngur, Ásmundur Einar barnamálaráðherra var á barnaþingi Sameinuðu þjóðanna og barnaþingi í Hörpu er nýlokið. Við getum fagnað því að barnamálaráðherra hafi tekið mál barna föstum tökum. Þátttaka þeirra í samfélaginu skerpir okkur fullorðna fólkið til að taka betri ákvarðanir og hlusta á þá sem landið erfa.
Ákvarðanir sem hafa með einum og öðrum hætti snertifleti inn á öll heimili landsins. Heimilin hafa alltaf verið í forgrunni hjá Framsókn og hefur barnamálaráðherra sagt að árið 2030 verði best fyrir börn að búa á Íslandi. Framsókn ætlar móta fjölskyldustefnu, framhald af áherslu okkar á heimilin, fjölskyldustefnu þar sem börn verða í forgangi.
Eldri borgarar
Við þurfum einnig að hlusta á þá, sem bjuggu til þau lífsskilyrði sem við njótum nú. Eldri kynslóðin býr yfir reynslu og þekkingu sem við kunnum svo vel að meta. Lífslíkur fólks aukast í takt við aukna tæknivæðingu sem þýðir jafnframt að fólk er tilbúið til að vinna lengur. Og við viljum líka að samfélagið sé þannig að allir hafi jöfn tækifæri, á sama hvaða aldursskeiði viðkomandi er.
Við skulum varast að tala um aldraða sem einsleitan hóp. Fyrir aldraða gildir hið sama og um allar kynslóðir: Við viljum að allir hafi kost á því að eiga gefandi og innihaldsríkt líf við góðar aðstæður.
Sveitarstjórnarstigið
Í áratugi hefur sveitarstjórnarfólk barist fyrir því að gerð verði sérstök stefna fyrir sveitarstjórnarstigið. Ég er sjálfur gamall sveitarstjórnarmaður og þekki vel þær áskoranir sem sveitarstjórnarfólk um allt land stendur frammi fyrir. Hlutverk sveitarstjórnarstigsins verður sífellt mikilvægara í samfélaginu með aukinni ábyrgð sem lögð verið á það, til dæmis með flutningi grunnskólans og málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. Þar eiga þessi málefni og mögulega fleiri sem snúa að nærumhverfinu heima.
Það mikla samráð sem átt hefur sér stað við sveitarstjórnarfólk um land allt er komið fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu. Markmið stefnunnar er að styrkja sveitarstjórnarstigið svo það verði betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum. Mikilvægur þáttur í eflingu stigsins er að sameina stjórnsýslu og pólitíska forystu í byggðarlögum og felst í því að á ný verður færður í lög lágmarksfjöldi íbúa sveitarfélaga. Þessi þáttur tillögunnar hefur verið mikið ræddur og þykir mörgum að of skammt sé gengið með 1000 íbúa lágmarki og einnig hefur verið gagnrýnt að of langt sé gengið. Það er bjargföst skoðun mín að þetta skref sé nauðsynlegt til að efla byggðir landsins til að rödd þeirra heyrist og að hagsmunir íbúa um allt land séu betur tryggðir.
Hér er ekki verið að sameina sveitarfélög með valdboði heldur ráða íbúar ferðinni. Hvernig sjá landsmenn þróun sveitarstjórnarstigsins fyrir sér? Ég fullyrði að það verði mikill kraftur sem leystur verður úr læðingi með öflugri stjórnsýslu og sameinaðri pólitískri forystu stærri sveitarfélaga með miklum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og ríkisins. Gott dæmi um framsýni í málefnum sveitarfélaga má sjá hjá íbúum fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sem samþykktu sameiningu fyrir nokkrum vikum og í þeirri vinnu og framtíðarsýn sem birst hefur okkur í sameiningarviðræðum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þar birtist okkur skýr framtíðarsýn og háleit markmið um árangur sem byggist á sérstöðu byggðarlaganna.
Hér er talað fyrir umbótum og eflingu byggða um allt land í anda stefnu og sögu Framsóknar.
Landbúnaður
Búvörusamningurinn hefur verið í endurskoðun og breytingar verið kynntar. Hópur bænda hefur efasemdir um þær breytingar sem voru lagðar til. Og ég skil þá bændur sem hafa lýst yfir miklum áhyggjum af endurskoðuðum samning. Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Bændur vita að það er vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu. Íslendingum fjölgar hratt og fleiri munnar koma til landsins sem þarf að metta. Það eru sóknarfæri í íslenskum landbúnaði en jafnframt standa framleiðendur og bændur frammi fyrir áskorunum. En sóknarfærið verður að vera fyrir alla sem vilja stunda matvælaframleiðslu, ekki fyrir fáa. Samningar sem stjórnvöld gera verður að vera byggt á jafnræði og fyrirsjáanleika sem styður við störf og byggð í landinu.
Matvæli
Ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar breiðan hóp sem samanstendur af nokkrum ráðuneytum til að móta stefnu um heilnæm matvæli, lýðheilsu, byggðamál, fæðuöryggi ofl.
Og talandi um matvæli þá hefur Framsóknarflokkurinn löngum verið talsmaður heilnæmra matvæla og lagt áherslu á að varðveita sérstöðu Ísland umfram önnur lönd til að verjast sjúkdómum og forðast sýklalyfjaónæmi. Við höfum einstakt forskot á önnur lönd og eigum ekki að fórna þeim miklum lýðheilsuhagsmunum fyrir stundarhagsmuni heildsala. Ef ekkert breytist munu fleiri deyja af völdum sýklalyfjaónæmis en deyja af völdum krabbameins árið 2050.
Aðrir flokkar hafa áttað sig á mikilvægi þess og eru heilnæmar landbúnaðarafurðir ein af áherslum í stjórnarsáttmálanum. Íslendingar eiga að framleiða sín matvæli sjálfir og halda landinu hreinu, annað er ræfildómur eins og Margrét Guðnadóttir heitin sagði.
Forsenda fyrir áframhaldandi lífskjörum er aukin verðmætasköpun. Verðmætasköpunin þarf að vera á sjálfbæran hátt þar sem gerð er krafa um samfélagslega ábyrgð. Ofnýting auðlindanna er græðgi. Hin ósýnilega hönd, hún hámarkar sinn eigin hagnað á sem skemmstum tíma.
Íslensk framleiðsla verður ekki samkeppnisfær fyrr en nýting auðlindanna er sjálfbær. Íslensk matvælaframleiðsla er stórt loftslagsmál. Það segir sig sjálft að kolefnisfótspor innfluttra matvæla er stórt. Þessu er hægt að stýra út frá kolefnisspori. Ein leið til að draga úr umhverfisáhrifum er að styðja við þá sem framleiða heilnæmar vörur, íslenskar bændur, styðja við þá sem skapa störf og eru með lágt kolefnisspor og um leið draga úr hvötum sem leiðir til stórfellds innflutnings.
Framtíðin er fólgin í staðbundinni framleiðslu matvæla með áherslu á gæði. Þannig er stigið stórt skref gegn loftslagsbreytingum. Við þurfum að tryggja að kynslóðaskipti í landbúnaði gangi almennt eðlilega fyrir sig.
Framsóknarflokkurinn hefur margoft talað fyrir því að jafna raforkukostnað í dreifðum byggðum. Í landinu er tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, ein fyrir dreifbýli, önnur fyrir þéttbýli. Við erum ein þjóð í einu landi og eigum allt undir að okkur vegni öllum vel.
Samkeppnisforskotið næst ekki nema allir sameinist um að verðmætin felast í byggðum landsins sem eiga allt undir verðmætum störfum í sjávarútvegi og landbúnaði. Við gerum að sjálfsögðu ríkar kröfur til framleiðanda, en kröfurnar verða að vera sanngjarnar svo störfin hverfi ekki til annarra landa með minni kröfur.
Flugvallamál
Fyrr í vikunni bárust af því fréttir að Isavia ætlaði að fara í uppskiptingu á því annars ágæta opinbera félagi, að búa til tvö dótturfélög sem héldi utan um flugleiðsögu og innanlandsflug annarsvegar og móðurfélag sem héldi utan um Keflavíkurflugvöll. Eðlilega hafa menn áhyggjur af því á hvaða vegferð Isavia er. Stjórnin starfar sjálfstætt, skipuð af pólitískum fulltrúum. Þau í stjórninni, sem kusu með tillögu Isavia um að fara í þessa uppskiptingu verða að svara til um þá ákvörðun. Ég hef hins vegar sagt, að Isavia verður ekki einkavætt á okkar vakt.
Frá því að ég kom inn í ráðuneytið hefur verið unnið að gerð flugstefnu, fyrstu sinnar tegundar í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðin í henni eru að varaflugvellirnir verði á einni hendi, á hendi Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum.
Það má alveg setja spurningarmerki við það af hverju íslenska ríkið ætti að niðurgreiða rekstur varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að Isavia taki að sér rekstur og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. En um flugöryggismál er að ræða og þörfin fyrir framkvæmdirnar og þjónustuna miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægu magni af fjölda véla í neyðarástandi. Með öðrum orðum að uppbygging varaflugvalla á Íslandi er flugöryggisverkefni fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll. Við erum eyja langt út í hafi og sitjum því ekki við sama borð og margar aðrar þjóðir á meginlandinu.
Það að Isavia taki við rekstri og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar býr til svigrúm strax á næsta ári sem felst í viðbótarfjármagni sem nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum. Ástandið er vægast sagt orðið mjög bágborið víða og of lítið fjármagn fer í flugvöllinn hér á Akureyri. Með því að Isavia taki að sér Egilsstaðaflugvöll þá verður hægt að setja meira fjármagn til annarra flugvalla, m.a. hér á Akureyri.
Við viljum að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Í því sambandi er einnig ánægjulegt að segja frá því að við 2. umræðu fjárlaga þá var gerð breytingartillaga um að leigja eða kaupa húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli.
Samhliða þessu er unnið að því að finna leiðir til þess að auka fjármagn og nýta í viðhald á flugvöllum landsins og jafna aðstöðumun landsmanna.
Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi og sætanýting er léleg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda í Skotlandi hefur reynst vel og er ætlunin að eftir ár geti íbúar á landsbyggðinni notið góðs af henni.
Ég hef sagt og segi enn: Isavia verður ekki einkavætt á minni vakt, það gildir einnig um Landsvirkjun.
Lokaorð
Nú líður að því að sú ríkisstjórn sem við sitjum í eigi tveggja ára afmæli. Þetta hefur verið ríkisstjórn sóknar og uppbyggingar. Þáttur Framsóknar í stjórninni er drjúgur og ég er stoltur af þeim árangri sem hún hefur náðst á þessum tveimur árum.
Framsókn er og hefur ætíð verið flokkur framkvæmda. Við höfum leitt saman ólík öfl og unnið með þeim að verkefnum sem hafa verið þjóðinni allri til heilla. Þegar þessu kjörtímabili lýkur tel ég að við getum horft stolt um öxl á afrek okkar við landsstjórnina. Nýr menntasjóður námsmanna er mikið umbótamál sem Lilja Dögg hefur leitt af krafti, húsnæðismálin og málefni barna sem Ásmundur Einar hefur svo sannarlega sett í forgang í störfum sínum.
Sjálfur er ég stoltur af þeirri gríðarlegu fjárfestingu í samgöngum um land allt. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er ekki aðeins mikilvæg framtíðarsýn heldur hefur tekist að leiða þar saman ríki og sveitarfélög og þannig hefur sú kyrrstaða sem ríkt hefur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu verið rofin. Allt eru þetta mál þar sem samvinnan hefur gert að veruleika. Allt eru þetta gríðarleg umbótamál sem styrkja Ísland sem land tækifæranna.
Ég hlakka til að vera með ykkur hér um helgina. Við erum mikilvægt afl í íslensku samfélagi, afl umbóta, afl Framsóknar fyrir landið allt.