Categories
Greinar

Réttindi barna í hávegum höfð

Deila grein

21/11/2019

Réttindi barna í hávegum höfð

Þrjá­tíu ára af­mæli Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna er fagnað um þess­ar mund­ir. Með þeim mik­il­væga sátt­mála sam­mælt­ust þjóðir um að börn nytu á eig­in for­send­um ákveðinna rétt­inda og er hann sá mann­rétt­inda­samn­ing­ur sem hef­ur verið staðfest­ur af flest­um þjóðum heims­ins. Barna­sátt­mál­inn var full­gilt­ur fyr­ir Íslands hönd árið 1992 sem fel­ur í sér að Ísland er skuld­bundið að þjóðarétti til að virða og upp­fylla ákvæði samn­ings­ins.

Stuðning­ur við inn­leiðingu Barna­sátt­mál­ans

Til þess að tryggja að börn njóti þeirra rétt­inda sem sátt­mál­inn kveður á um þarf ekki hvað síst að hafa í huga aðstæður í nærum­hverfi barna á degi hverj­um. Á heim­il­um þeirra, í skól­um og hvar sem þau dvelja. Í ljósi þess hafa fé­lags­málaráðuneytið og UNICEF á Íslandi gert samn­ing með það fyr­ir aug­um að tryggja aðgengi allra sveit­ar­fé­laga að stuðningi við inn­leiðingu Barna­sátt­mál­ans. Þessi stuðning­ur er afar mik­il­væg­ur enda gegna sveit­ar­fé­lög­in mik­il­vægu hlut­verki í lífi barna á Íslandi og ann­ast stærst­an hluta þeirr­ar þjón­ustu sem hef­ur bein áhrif á þeirra dag­lega líf. Íslensk sveit­ar­fé­lög hafa sýnt í verki mik­inn áhuga á að rækja þetta hlut­verk sitt. Það var mér því sönn ánægja að geta í til­efni af þrjá­tíu ára af­mæli Barna­sátt­mál­ans und­ir­ritað sam­komu­lag um auk­inn stuðning við þá góðu vinnu sem þar fer fram. Með slíku sam­stilltu átaki skip­ar Ísland sér í fremstu röð þeirra ríkja sem hvað best standa vörð um rétt­indi barna.

Stjórn­völd taki aukið mið af sjón­ar­miðum barna

Ákvörðun um að inn­leiða Barna­sátt­mál­ann fel­ur í sér viður­kenn­ingu á að þekk­ing og reynsla barna sé verðmæt og að stuðla eigi að því að efla þátt­töku barna og ung­menna í sam­fé­lag­inu og leit­ast eft­ir og nýta reynslu þeirra og viðhorf. En ef við ætl­um okk­ur raun­veru­lega að styrkja hlut­verk barna og ung­menna í sam­fé­lag­inu og tryggja þátt­töku þeirra við stefnu­mót­un og ákv­arðana­töku þurf­um við að ganga lengra en að gefa börn­um orðið við hátíðleg tæki­færi. Við þurf­um skýr­ar breyt­ing­ar sem tryggja sam­starf við börn og að radd­ir þeirra heyr­ist, ekki bara í mál­um er þau varða held­ur öðrum líka. Við þurf­um að hlusta á til­lög­ur þeirra og sjón­ar­mið, taka þær al­var­lega og gera að veru­leika.

Að skapa barn­vænt sam­fé­lag sem ger­ir börn­um kleift að vera raun­veru­leg­ir þátt­tak­end­ur er eitt­hvað sem við hljót­um öll að vera sam­mála um að sé af hinu góða. En að fá börn raun­veru­lega að borðinu er ekki al­veg ein­falt mál. Eins að sjá til þess að við það sitji öll börn, ekki aðeins þau með sterk­ustu radd­irn­ar, og að þau séu þar á eig­in for­send­um en ekki á for­send­um full­orðinna.

Börn búa yfir sér­stakri reynslu og þekk­ingu sem get­ur verið mis­mun­andi eft­ir aldri þeirra og aðstæðum. Á grund­velli þeirr­ar reynslu hafa þau skoðanir og hug­mynd­ir á því hvernig sam­fé­lagið gæti verið betra. Þrátt fyr­ir það er of oft gert lítið úr fram­lagi barna til umræðu og ákv­arðana­töku. Afar margt í stefnu stjórn­valda hef­ur beint eða óbeint áhrif á líf barna. Samt sem áður er hún að mestu leyti þróuð án til­lits til þess hvaða áhrif hún mun hafa á börn og framtíð þeirra. Þátt­taka barna í stefnu­mót­un get­ur leitt til stefnu­breyt­inga og skapað sam­tal á milli ólíkra aðila. En til þess að reynsla og skoðanir barna hafi raun­veru­leg áhrif þurf­um við að vanda til verka.

Meira sam­ráð við börn og ung­menni í mót­un

Rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi í mars síðastliðnum til­lögu mína, byggða á til­lög­um til mín frá stýri­hópi stjórn­ar­ráðsins í mál­efn­um barna, um að stefnt verði að auk­inni þátt­töku barna og ung­menna í stefnu­mót­un stjórn­valda sem og til­lögu sem fel­ur í sér að all­ar stærri ákv­arðana­tök­ur sem og laga­frum­vörp skuli rýnd út frá áhrif­um á stöðu og rétt­indi barna. Þetta var stór ákvörðun og afar mik­il­væg. Í maí síðastliðnum fylgdi ég þess­um til­lög­um eft­ir og skrifaði und­ir samn­ing við umboðsmann barna um að unn­ar yrðu til­lög­ur að því hvernig tryggja mætti að þátt­taka barna og ung­menna í stefnu­mót­un hér á landi yrði mark­viss, reglu­leg og raun­veru­leg og að sér­stak­lega yrði hugað að því að öll­um börn­um og ung­menn­um væru tryggð jöfn tæki­færi til þátt­töku, án mis­mun­un­ar. Fljót­lega för­um við að sjá fyrstu drög að þeim til­lög­um en mik­il­væg­ur þátt­ur í und­ir­bún­ingi þeirra er þing barna sem haldið er á veg­um umboðsmanns barna í Hörpu í dag og á morg­un. Auk barna er þing­mönn­um, full­trú­um sveit­ar­stjórna, stofn­ana rík­is og sveit­ar­fé­laga, aðila vinnu­markaðar­ins og frjálsra fé­laga­sam­taka sem koma að mál­efn­um barna boðið til þings­ins og standa von­ir til þess að það verði öfl­ug­ur vett­vang­ur fyr­ir sam­tal og sam­ráð um mál­efni barna til framtíðar.

Við sem telj­umst full­orðin í dag höf­um afar tak­markaða þekk­ingu á reynslu nú­tíma­barna og áhuga­mál­um þeirra. Það er kom­inn tími til þess að við viður­kenn­um að börn­in eru svo sann­ar­lega sér­fræðing­ar í því að vera börn en ekki við full­orðnu. Okk­ar hlut­verk er að tryggja rödd­um barna far­veg og áhrif og skuld­binda okk­ur til að hlusta á þær.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019.