Categories
Fréttir

„Við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára“

Deila grein

05/09/2023

„Við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára“

Brugðið á leik í hópvinnu á Farsældarþingi - mynd
Brugðið á leik í hópvinnu á Farsældarþingi

Alls tóku yfir 1.100 manns þátt í Farsældarþingi sem mennta- og barnamálaráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag, þar af voru um 700 manns á staðnum. Á þinginu fór fram víðtækt samtal fagfólks, þjónustuveitenda, stjórnvalda, barna og aðstandenda um farsæld barna og er þingið mikilvægur liður í stefnumótun og áætlanagerð þegar kemur að innleiðingu laga um farsæld barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra opnaði þingið og kynnti nýjan vef og mælaborð um farsæld barna.

Fundað var í Silfurbergi og Norðurljósum í Hörpu

Innleiðing farsældarlaganna er í fullum gangi á vettvangi sveitarfélaga, framhaldsskóla, heilbrigðiskerfisins og innan lögreglunnar. Kerfi íþrótta og tómstunda hafa þar einnig miklu hlutverki að gegna. Hefur ráðherra lagt áherslu á gott samtal og samstarf ólíkra aðila og er farsældarþing öflugt tæki til að auðvelda þessum ólíku kerfum að stilla saman strengi með samþættingu og farsæld barna að leiðarljósi.

Það eru 1.000 manns (+ nokkur hundruð með streymi) í Hörpu núna að skipuleggja næstu skref þegar kemur að farsæld barna….

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 4. september 2023

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði formlega nýjan vef um þjónustu í þágu farsældar barna þar sem farið er yfir forsendur og framkvæmd samþættingar þjónustunnar. Þá sýndi hann mælaborð um farsæld barna sem hefur verið í þróun frá árinu 2019 og verður formlega opnað á næstunni. Aðalmarkmiðið með mælaborðinu er að draga fram heildstæða mynd af farsæld barna hér á landi fyrir ríki og sveitarfélög á grundvelli þeirra fjölþættu tölfræðigagna sem til staðar eru.

„Ég er ótrúlega þakklátur þessum mikla fjölda fólks sem tók þátt í Farsældarþinginu vegna þess að það er svo mikilvægt að við heyrum í öllum þessum ólíku aðilum sem starfa með börnum alla daga. Þá vil ég sérstaklega þakka þeim 38 börnum sem voru með okkur hér í dag og tóku þátt í vinnunni. Ég hef lagt á það ríka áherslu að við fylgjumst vel með innleiðingu farsældarlaganna og að við getum samhliða átt opið og hreinskilið samtal, þar sem við gerum upp það sem hefur gengið vel og ræðum hvað hefur síður gengið eftir – og það var meðal annars markmiðið með Farsældarþinginu, ásamt því að við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Börn tóku þátt og komu sínum sjónarmiðum að á þinginu

Upptöku af Farsældarþingi má nálgast hér: 

https://vimeo.com/event/3674241/embed

Heimild: stjr.is