Categories
Fréttir Greinar

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Deila grein

05/09/2023

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Ný­verið var kynnt skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna sem er afrakst­ur vinnu starfs­hóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neyt­enda og sam­keppn­isaðstæður á inn­lend­um banka­markaði þar sem m.a. yrði litið til gagn­sæi þókn­ana, vaxta­kostnaðar, gjald­töku og annarra kostnaðarliða sem neyt­end­ur bera. Þá vann hóp­ur­inn einnig grein­ingu á tekju­mynd­un stóru viðskipta­bank­anna þriggja ásamt því að gera sam­an­b­urð á starfs­hátt­um viðskipta­banka á Norður­lönd­un­um með til­liti til tekju­mynd­un­ar, einkum vaxtamun­ar.

Það eru áhuga­verðar niður­stöður sem koma fram í skýrsl­unni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðar­hlut­föll bank­anna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sam­bæri­leg og hjá svipuðum bönk­um á hinum Norður­lönd­un­um. Hins veg­ar hef­ur auk­in hag­kvæmni í rekstri bank­anna og lækk­un sér­staka banka­skatts­ins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neyt­enda, en hins veg­ar komið fram í bættri arðsemi bank­anna. Þá dró skýrsl­an einnig fram að sum þjón­ustu­gjöld eru ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Í því ljósi er meðal ann­ars vert að benda á gjald­töku ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sem er dul­in en veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Geng­isálag bank­anna á korta­færsl­ur sker sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Með ein­földuðum hætti má áætla að heim­il­in hafi greitt bönk­un­um um 6,6 ma.kr. í geng­isálag ofan á al­mennt gengi árið 2022 fyr­ir það að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um. Það sem kom mest á óvart var að korta­gengið er óhag­stæðara en svo­kallað seðlag­engi sem al­mennt er óhag­stæðasta gengið hjá bönk­um.

Tals­verð umræða hef­ur spunn­ist um niður­stöður skýrsl­unn­ar og hef­ur meðal ann­ars verið bent á það að vaxtamun­ur heim­ila hafi aldrei verið lægri. Á móti kem­ur hins veg­ar að vaxtamun­ur á fyr­ir­tæki er í há­marki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem al­menn­ing­ur borg­ar.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að hér sé starf­rækt öfl­ugt banka­kerfi enda er hlut­verk banka veiga­mikið í að styðja við aukna verðmæta­sköp­un í land­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur mik­ill hagnaður bank­anna komið til umræðu og hef­ur vakið spurn­ing­ar um jafn­vægi í grein­inni og stöðu neyt­enda. Ég stend við það sem kem­ur fram í skýrsl­unni og tel að bank­arn­ir hafi rými til þess að gera bet­ur við neyt­end­ur, hvort sem það er fólk eða fyr­ir­tæki. Sú arðsemi sem birt­ist í upp­gjör­um bank­anna er mik­il og í ofanálag sýna töl­ur að vaxtamun­ur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hags­muna­mál sam­fé­lags­ins er að ná verðbólg­unni niður og þar verða all­ir að leggja sitt af mörk­um og er banka­kerfið ekki und­an­skilið því. Sú upp­byggi­lega umræða sem hef­ur átt sér stað í kjöl­far skýrsl­unn­ar er af hinu góða enda snerta neyt­enda­mál okk­ur öll. Sem ráðherra neyt­enda­mála mun ég láta upp­færa skýrsl­una ár­lega til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál, sam­fé­lag­inu til hags­bóta.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.