Íslendingar hafa á undanförnum áratugum gengið í gegnum miklar breytingar. Frá því að vera meðal fátækustu þjóða Evrópu frá stofnun lýðveldisins höfum við risið upp í hóp þeirra sem hvað best standa. Þessi þróun hefur orðið vegna þess að við höfum í sameiningu staðið af okkur áföll sem virtust á stundum óyfirstíganleg.
Við höfum á einungis örfáum árum þurft að takast á við eldgos og náttúruhamfarir, fall WOW air, heimsfaraldur og stríð í Úkraínu ásamt tilheyrandi alheimsverðbólgu. Ríkissjóður hefur staðið undir beinum kostnaði sem nemur um 350 milljörðum króna vegna þessara áfalla og þó stöndum við enn sterkari en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Þetta eitt og sér gefur ástæðu til bjartsýni.
Ísland í fremstu röð
Í alþjóðlegum samanburði stendur Ísland framarlega á flestum sviðum. Við búum í einu friðsælasta og öruggasta landi heims, lífsgæði okkar mælast þau bestu, jöfnuður er meiri en víða annars staðar og jafnréttismál hafa hlotið verðskuldaða athygli.
Þegar litið er til hagvaxtar og ríkisfjármála er staðan hér gjörólík því sem blasir við í mörgum löndum Evrópusambandsins. Þar glíma ríki við viðvarandi halla og skuldabyrði, en hér hefur tekist að halda ríkisfjármálum í mun betra jafnvægi þrátt fyrir gríðarleg útgjöld vegna áfalla síðustu ára. Landsframleiðsla á mann var árið 2024 um 30% hærri en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Það undirstrikar styrk íslensks efnahagslífs.
Atvinnuleysið segir þó mest. Árið 2024 mældist það hér um 3,4%, en í löndum Evrópusambandsins var það á sama tíma um 6% að meðaltali. Þessi munur er afgerandi. Atvinnuleysi er mesta böl sem nokkurt samfélag getur tekist á við því það grefur undan sjálfstrausti einstaklinga, eykur fátækt og veikir samstöðu. Að við höfum getað haldið atvinnuleysi svo lágu er einn helsti styrkleiki íslensks samfélags.
Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar blasir við ákveðin þversögn. Ísland hefur á eigin forsendum náð árangri sem margar Evrópuþjóðir geta aðeins látið sig dreyma um. Samt er því stundum haldið fram að aðild að Evrópusambandinu sé eftirsóknarverð leið til framfara. Raunin er sú að árangurinn sem við sjáum í dag er sprottinn úr okkar eigin aðstæðum og ákvarðanatöku.
Skortur á aðgerðum í baráttunni við verðbólgu
Þrátt fyrir styrka stöðu þjóðarbúsins blasir við sú staðreynd að ríkisstjórninni tekst ekki að bregðast nægilega við viðvarandi verðbólgu og háum stýrivöxtum. Í aðdraganda síðustu kosninga var talað fyrir afgerandi aðgerðum til að ná verðbólgu niður en þegar á reynir standa loforðin eftir án efnda.
Síðasta haust hófst vaxtalækkunarferli Seðlabankans og greiningaraðilar voru almennt sammála um að bjart væri fram undan, byggt á þáverandi efnahagsstefnu. Nú er myndin önnur: verðbólguvæntingar hafa hækkað á ný og tiltrú markaðarins á getu ríkisstjórnarinnar til að leysa eitt mikilvægasta verkefni samtímans, að ná verðbólgu og vöxtum niður, dvínar. Í vor kallaði ég eftir því á Alþingi að forsætisráðherra leiddi samráð við helstu hagsmunaaðila til að móta sameiginlegar aðgerðir í ljósi versnandi stöðu í baráttunni við verðbólgu, en sú forysta birtist ekki.
Sérstaklega er ástandið grafalvarlegt á húsnæðismarkaði. Ungt fólk á erfitt með að koma sér upp eigin heimili. Nauðsynlegt er að auka framboð íbúða, hraða uppbyggingu og einfalda reglur. Þar að auki þarf að tryggja hagkvæm lánskjör til langs tíma, með óverðtryggðum föstum vöxtum. Þannig skapast raunverulegar aðstæður til að ná tökum á verðbólgunni og létta undir með fólki í daglegu lífi.
Framtíðin í okkar höndum
Við eigum að vera stolt af því sem við höfum afrekað. Við eigum að tala samfélag okkar upp, vera bjartsýn og vinna saman. Framtíð Íslands er björt. Hún er í okkar höndum og með sameiginlegu átaki er engin áskorun of stór.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. september 2025.