Categories
Fréttir

Við treystum öll á Landhelgisgæsluna!

Deila grein

02/06/2022

Við treystum öll á Landhelgisgæsluna!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, tók þátt í umræðu á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslandi. Sagði hún mikilvægt að þegar komi að því að vera með hagræðingarkröfu á stoðir og störf þeirra sem er falið að tryggja öryggi og björgun hér á landi, verði að stíga varðlega til jarðar. Er það mat hennar að gjörsamlega ómögulegt sé að viðhafa slíka kröfu þegar kemur að slíkri stoð Íslendinga, öryggi og björgun.

„Þurfum að búa vel að öryggi okkar Íslendinga í sínu víðasta samhengi og við gerum það ekki með því að draga alltaf úr og sýna málaflokknum skilningsleysi,“ sagði Hafdís Hrönn.

Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Hlutverkið hefur hins vegar breyst í tímanna rás og áherslan á björgunar og leitarstörf ásamt sjúkraflutningum bæði á sjó og á landi orðið ríkari. Ljóst er að bæta þarf nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum.

Lögbundin verkefni LHG eru talin upp í 4. gr. laga nr. 52/2006. Meðal þeirra verkefna eru aðkallandi sjúkraflutningar og aðstoð við almannavarnir. Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutning með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs á norður- og austursvæði landsins auk Vestmannaeyja og Vestfjarða, vegna erfiðra veðurskilyrða. Aðeins um 10% af öllum sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning.

„Í samfélaginu okkar er uppi rík krafa um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Vegna þess hve fá við erum og byggðin dreifð, er þetta göfuga markmið langsótt. Hins vegar er heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga gott og það eru leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri sérhæfðu þjónustu sem ekki er raunhæft að halda úti í hverju héraði fyrir sig. Annað úrræði sem þekkist víða í vestrænum heimi er notkun á sjúkraþyrlum sem bæði geta stytt flutningstíma til muna ásamt því að koma viðbragðsaðilum fyrr til skjólstæðinga. Þyrlur sem sinna þessu hlutverki eru gríðarlega góð viðbót við það kerfi sem við nú þegar höfum en um er að ræða mikið og stórt skref í þá átt að jafna og tryggja aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni okkar allra. Þá er jákvætt að segja frá því að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 þar sem aðkoma Landhelgisgæslunnar var m.a. til skoðunar. Staðan hefur ekki verið ásættanleg m.a. í Vestmannaeyjum og biðin eftir utanspítalaþjónustu vegna tímalengdar hefur reynst dýrkeypt og við þurfum að koma í veg fyrir að tjón skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins verði meira vegna þess að við höfum ekki tólin og tækin til að tryggja tafarlausa þjónustu til þeirra sem á henni þurfa. Uppfærum umræðuna og tökum hana af alvöru hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Það er spurning hvort ekki sé kominn tími á að ein þyrla LHG sé með fasta staðsetningu á landsbyggðinni t.d. á Suðurlandi á sama tíma og að varðskipið Freyja er með staðsetningu á Norðurlandi.“

„Við treystum öll á Landhelgisgæsluna! En gæslan treystir líka á okkur og við verðum að axla ábyrgð í þeim efnum,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.

***

Ræða Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur í heild sinni í umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands:

„Virðulegi forseti!

Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Hlutverkið hefur hins vegar breyst í tímanna rás og áherslan á björgunar og leitarstörf ásamt sjúkraflutningum bæði á sjó og á landi orðið ríkari.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lagt áherslu á að stjórnendur Landhelgisgæslu Íslands leiti allra leiða til að hagræða í rekstri stofnunarinnar. Skoða þurfi gaumgæfilega áhrif ýmissa tækniframfara og sjálfvirknimöguleika á mannaflaþörf við einstök störf. Horfa þurfi til ólíkra álagspunkta og haga mannahaldi í samræmi við það. Sérstaklega þurfi að gæta að því að starfsemi stoðdeilda sé haldið í lágmarki þannig að mönnun skipa og loftfara sé hámörkuð. Þá telur Ríkisendurskoðun vera tækifæri til að einfalda rekstrarfyrirkomulag vaktstöðvar siglinga.

Fyrir nefndinni kom fram að Landhelgisgæslan hafi hagkvæmni að leiðarljósi og leiti sífellt leiða til hagræðingar innan þeirra marka sem viðmið um viðbragðsgetu, lög og reglugerðir og kjarasamningar leyfa. Landhelgisgæslan hafi jafnframt verið leiðandi í að nýta nýjustu tækni í starfsemi sinni með tilheyrandi hagræðingu. Megi þar nefna fjareftirlit með efnahagslögsögunni, nýtingu snjallforrita og notkun ómannaðra loftfara. Landhelgisgæslan taki jafnframt þátt í þróun tækninýjunga og að vorið 2021 hafi nýtt vaktakerfi verið innleitt í stjórnstöðvum sem veita svigrúm til að aðlaga mönnun enn frekari að álagi hvers tíma.

Þá ber að nefna að huga verður að mikilvægi starfsaldurslista flugmanna sem eru mikilvægt öryggisatriði, og jafnvel enn mikilvægara í tilfelli flugmanna Landhelgisgæslunnar sem starfa oft undir gríðarlegu álagi, standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru iðulega í húfi og fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður með veikt og slasað fólk. Það þarf að huga vel að þessu þegar við tölum um að hagræða.

Finnst mikilvægt – þegar kemur að því að vera með hagræðingarkröfu á þær stoðir og störf þeirra sem er falið að tryggja öryggi og björgun hér á landi – AÐ VARLEGA SÉ STIGIÐ TIL JARÐAR og að mínu mati er gjörsamlega galið að við séum með slíka kröfu þegar kemur að þessum málaflokki. Þurfum að búa vel að öryggi okkar Íslendinga í sínu víðasta samhengi og við gerum það ekki með því að draga alltaf úr og sýna málaflokknum skilningsleysi.

Virðulegi forseti,
Ljóst er að bæta þarf nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum. Skortur á raunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti LHG reynist alvarlegur veikleiki í starfsemi gæslunnar. Þá segir að því er varðar flugkost LHG þurfi að gera raunhæfar áætlanir um fjárfestingar og rekstur loftfara svo að viðunandi björgunargeta sé tryggð. Í skýrslunni er SKÝRT tekið fram að mikilvægt sé að TF-SIF sé FYRST OG FREMST notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks LHG sem er að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu VIÐ ÍSLAND.
Í áliti háttvirtrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að TF-SIF sé stóran hluta ársins í útleigu til verkefna á vegum Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu. Flugstundir TF-SIF ættu að vera í meirihluta hér á landi og umfang eftirlits gæslunnar í lofti hreinlega krefst þess að TF-SIF sem er útbúin myndavélum og öðrum tæknibúnaði sem margfaldi eftirlits- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Flugvélin sé því lykileining við eftirlit og löggæslu á hafinu og því ljóst að ekki sé hægt að halda uppi viðunandi eftirliti þegar flugvélin er ekki til staðar. Tek undir með sjónarmiðum háttvirtrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar kemur að því að tryggja þurfi viðveru TF-SIF hér á landi allt árið svo að eftirlit með landhelginni sé bætt svo að tryggja megi fullnægjandi öryggis- og þjónustustig á hafinu umhverfis Ísland.

Virðulegi forseti,
Lögbundin verkefni LHG eru talin upp í 4. gr. laga nr. 52/2006. Meðal þeirra verkefna eru aðkallandi sjúkraflutningar og aðstoð við almannavarnir. Ég velti fyrir mér hvert hlutverk Þyrlu LHG er varðandi almenna sjúkraflutninga þar sem vegalengdir eru langar eða ómögulegar.
Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutning með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs á norður- og austursvæði landsins auk Vestmannaeyja og Vestfjarða, vegna erfiðra veðurskilyrða. Til þess þurfum við einnig að huga að því að tryggja viðunandi lendingaraðstæður fyrir þyrlur víða um land. Aðeins um 10% af öllum sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning. Á Suðurlandi nánast þrefaldast fólksfjöldi landshlutans yfir sumartímann og því þurfum við að vera vel í stakk búin til að bregðast við með réttum hætti og búa viðbragðsaðilum okkar þær aðstæður og búnaði að fumlaus vinnubrögð séu sjálfsögð.

Í samfélaginu okkar er uppi rík krafa um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Vegna þess hve fá við erum og byggðin dreifð, er þetta göfuga markmið langsótt. Hins vegar er heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga gott og það eru leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri sérhæfðu þjónustu sem ekki er raunhæft að halda úti í hverju héraði fyrir sig. Annað úrræði sem þekkist víða í vestrænum heimi er notkun á sjúkraþyrlum sem bæði geta stytt flutningstíma til muna ásamt því að koma viðbragðsaðilum fyrr til skjólstæðinga. Þyrlur sem sinna þessu hlutverki eru gríðarlega góð viðbót við það kerfi sem við nú þegar höfum en um er að ræða mikið og stórt skref í þá átt að jafna og tryggja aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni okkar allra. Þá er jákvætt að segja frá því að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 þar sem aðkoma Landhelgisgæslunnar var m.a. til skoðunar. Staðan hefur ekki verið ásættanleg m.a. í Vestmannaeyjum og biðin eftir utanspítalaþjónustu vegna tímalengdar hefur reynst dýrkeypt og við þurfum að koma í veg fyrir að tjón skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins verði meira vegna þess að við höfum ekki tólin og tækin til að tryggja tafarlausa þjónustu til þeirra sem á henni þurfa.
Uppfærum umræðuna og tökum hana af alvöru hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Það er spurning hvort ekki sé kominn tími á að ein þyrla LHG sé með fasta staðsetningu á landsbyggðinni t.d. á Suðurlandi á sama tíma og að varðskipið Freyja er með staðsetningu á Norðurlandi.

Virðulegi forseti,
Við treystum öll á Landhelgisgæsluna! En gæslan treystir líka á okkur og við verðum að axla ábyrgð í þeim efnum!“