Categories
Fréttir

Viðbrögð við afbrotum barna – sáttamiðlun

Deila grein

07/03/2015

Viðbrögð við afbrotum barna – sáttamiðlun

líneikLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi viðbrögð við afbrotum barna og þá sérstaklega sáttamiðlun í störfum þingsins í vikunni. En umboðsmaður barna sendi innanríkisráðherra nýlega bréf um viðbrögð við afbrotum barna. Þar er komið inn á sáttamiðlun og mikilvægi hennar sem úrræði fyrir börn sem hafa brotið af sér. Er ráðherra spurður m.a. um notkun á þessu úrræði á síðustu árum. Jafnframt er spurst fyrir um framtíðarsýn ráðherra varðandi úrræði.
„Tilraunaverkefni í sáttamiðlun hófst hér á landi árið 2006. Sáttamiðlun byggist á hugmyndafræði uppbyggilegrar réttvísi og felur í sér að leitast er við að ná sáttum milli þess sem brýtur af sér og brotaþola. Úrlausn minni háttar mála er færð til einstaklinganna sjálfra sem gefur möguleika á skjótvirkari meðferð mála. Á sama tíma er ákveðinn þungi tekinn af ákæruvaldinu. Sáttamiðlun er talin henta sérstaklega vel fyrir börn og ungmenni þar sem þau þurfa að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og bæta fyrir brot sitt,“ sagði Líneik Anna.
Og hún bætti við: „Slíkt er almennt talið mun betur til þess fallið að hafa uppbyggileg og þroskandi áhrif en hefðbundnar refsingar. Er því ljóst að sáttamiðlun er það úrræði sem er best í samræmi við hagsmuni og réttindi barna og hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sérstaklega hvatt aðildarríki til að beita úrræðum sem byggja á uppbyggilegri réttvísi.“
„Mér finnst fullt tilefni til að allsherjar- og menntamálanefnd kynni sér svar hæstv. ráðherra þegar þar að kemur og leiti frekari upplýsinga ef tilefni verður til,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.