Categories
Greinar

Grænt kynlíf

Deila grein

08/03/2015

Grænt kynlíf

Jóhanna María - fyrir vefOrðið þalöt ber ekki mikið yfir sér, en þalöt eru efni sem hafa þá eiginleika að mýkja plast. Vegna eiginleika þeirra eru þau vinsæl í iðnaði og m.a. notuð í framleiðslu leikfanga og húsbúnaðar.

Einhvern tíma var það mikið í umræðunni að karlmenn ættu að forðast það að drekka úr plastglösum og flöskum því það gæti valdið ófrjósemi. Sumir hristu hausinn en þarna var í raun umræða um skaðsemi þalata sem hefur verið þekkt um áratugaskeið. Unnið hefur verið markvisst að því að banna og takmarka notkun þeirra til verndar heilsu almennings. Notkun þalata hér á landi er ekki mikil en þau geta fundist í innfluttum vörum. Eftirlit með þalötum í innfluttum vörum er gott í dag en mætti vera betra, þá er helst notast við tilkynningar á evrópskum markaði sem og frá nágrannalöndum til að gæta þess að vörur sem innihalda þalöt komist ekki í dreifingu hérlendis. Ábyrgðin er þó á hendi framleiðenda, þeir eiga að tryggja að vörur sem innihalda þalöt komi ekki á markað.

Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvar þalöt er að finna. Þá geta hjálpartæki ástarlífsins, sem eru misjöfn að gæðum og gerðum, innihaldið þalöt. Sleipiefni og smokkar geta einnig verið úr eða innihaldið mýkt plastefni.

Til að vísa aftur í umræðuna um ófrjósemi hérna ofar þá geta þalöt haft skaðleg áhrif á frjósemi bæði hjá körlum og konum, þau geta einnig skaðað fóstur. En fóstur og nýfædd börn eru viðkvæmust fyrir þessum efnum. Það er mikilvægt fyrir ungar konur og konur á barneignaraldri að forðast þalöt, því fái þær þalöt í líkama sinn geta þau borist í ófætt barn og skaðað þroska þess. Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska, en sem dæmi hafa þalöt fundist í brjóstamjólk.

Eins og kemur fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn um þalöt sem lagt var fram í vikunni þá hefur notkun skaðlegustu þalatanna í leikföngum og öðrum vörum sem börn geta komist í snertingu við minnkað til muna en í staðinn eru notuð þalöt sem talin eru minna skaðleg. Þalöt eru eftir sem áður notuð við framleiðslu vöru úr PVC-plasti sem þarf að vera mjúk og sveigjanleg.

En þalöt hafa ekki einungis áhrif á okkur mennina því þau brotna misvel niður í umhverfinu og hafa mælst víða. Á sumum stöðum getur lífríkinu stafað hætta af þeim svo endurvinnsla, förgun og meðferð hluta sem innihalda þalöt er einnig mikilvæg.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.