Categories
Greinar

Hver er þinn réttur?

Deila grein

10/03/2015

Hver er þinn réttur?

Elsa-Lara-mynd01-vefurFjármögnunarfyrirtækið Lýsing, hefur tapað nokkrum dómsmálum á undanförnum mánuðum. Um er að ræða mál sem rekin hafa verið fyrir héraðsdómi og einnig í Hæstarétti. Oft er um að ræða mál sem hafa fordæmisgildi fyrir aðra lánasamninga, er hafa verið gefnir út hjá fjármögnunarfyrirtækinu.

Í síðustu viku tapaði Lýsing tveimur dómsmálum vegna gengistryggðra lána í Hæstarétti Íslands. Ágreiningur í málunum laut að því hvort lántakendur gætu borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra vaxta frá stofndegi lánasamningsins til maí 2010, vegna þess hluta lánanna sem bundnir voru ólögmætri gengistryggingu.

Talið er það séu allt að 10 þúsund lánasamningar sem dómarnir í síðustu viku geta haft áhrif á. Því miður virðist það vera svo að hver og einn sem hefur gengistryggðan lánasamning, sem hafi sömu lánaskilmála og dæmdir voru ólögmætir, þurfi að sækja mál sitt til að fá réttlætinu fullnægt. Það mun þó koma í ljós á næstu dögum eða vikum, samkvæmt tilkynningu á vef Lýsingar. Sá háttur hefur verið hafður á hingað til í þessum málum, innan þessa fjármögnunarfyrirtækis.

Lögfræðingurinn sem sótti málin í síðustu viku gegn Lýsingu telur að allar varnir fjármögnunarfyrirtækisins séu brostnar. Þeir dómar sem hafi fallið séu fordæmisgefandi og nái til mikils hluta lána, af þessu tagi. Lána sem Lýsing hefur til þessa hafnað útreikningi á.

Óþolandi og ólíðandi vinnubrögð

Í ræðum mínum í Störfum þingsins í síðustu viku, ræddi ég framgang fjármála- og fjármögnunarfyrirtækja í málum sem þessum. Málum þar sem þessi fyrirtæki neita að endurreikna lán, nema einstaklingar fari í mál til að leita réttar síns. Þrátt fyrir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála hafi verið dæmd ólögmæt bæði fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti. Margir þeirra sem standa í þessum sporum finnst erfitt að sækja mál sín. Finnst það bæði kostnaðarsamt og flókið. Vegna þessara þátta er talsverður fjöldi einstaklinga sem fer á mis við það sem þau geta átt rétt á. Þessi vinnubrögð fjármála –  og fjármögnunarfyrirtækja eru algjörlega óþolandi og ólíðandi með öllu.

Hvað getur þú gert?

Það eru lögfræðingar sem sérhæfa sig í málum sem þessum. Nokkrir þeirra bjóða þeim sem eru m.a. með gengistryggð lán, upp á forathugun á lánunum. Sú athugun kostar ekki neitt. Að henni lokinni er hægt að fá að vita með talsverðri vissu, hvort lánið falli undir sömu skilmála og hafa verið dæmdir ólögmætir fyrir dómstólum. Ef svo er þá er jafnframt hægt að fá grófa áætlun um áætlaða inneign hjá fjármála – eða fjármögnunarfyrirtækinu. Ef áhugi er síðan fyrir að stefna fyrirtækinu, þá taka lögfræðingarnir málskostnaðargjald fyrir það. Þeir einstaklingar sem hafa fjölskyldutryggingar eru margir tryggðir fyrir þeim kostnaði. Það ætti öllum að vera auðvelt að hafa samband við tryggingarfélagið sitt og kanna stöðu sína í þessum málum.

Hvað getur Alþingi gert?

Nauðsynlegt er að endurskoða lög um neytendavernd og tryggja með öllu að fjármála – og fjármögnunarfyrirtæki, geti ekki leikið þennan leik til framtíðar. Endurskoða þarf lög og reglugerðir um fjármála- og fjármögnunarfyrirtæki og skerpa betur á réttindum neytenda, með það í huga að neytandinn beri ekki einn ábyrgð ef efnahagsleg áföll eiga sér stað. Ábyrgðin verður einnig að liggja hjá lánveitanda. Auk þessa hefur verið kallað eftir endurskoðun á skilyrðum til gjafsókna, m.a. að kanna hvort hægt sé að endurskoða þau tekjuviðmið sem sett eru fram í skilyrðum umsóknar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 10. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.