Categories
Greinar

Af börnum og brjóstarhöldurum

Deila grein

10/03/2015

Af börnum og brjóstarhöldurum

Jóhanna María - fyrir vefMóðir skrifaði frásögn á netið, þar segir hún frá upplifun sem byrjaði með símtali frá skóla dóttur hennar. Hún var beðin um að koma úr vinnu þar sem dóttir hennar hefði lent í stimpingum við annan nemanda. Þegar hún mætir er henni heldur brugðið að ganga inn í herbergi fullt af fólki. Þarna sat dóttir hennar ásamt skólastjóranum, umsjónakennara, samnemanda og foreldrum hans ásamt umsjónamanni árgangsins. Samnemandi dóttur hennar, sem var karlkyns, sat með blóðugt nef og konan fann strax hvernig horft var ásakandi á sig. Þá voru málin reifuð, drengurinn hafði verið að fikta í brjóstarhaldara dóttur hennar og þrátt fyrir að hafi beðið hann um að hætta, sagt umsjónakennaranum frá því hvað hann væri að gera þá hélt drengurinn áfram og náði að lokum að opna brjóstarhaldarann hennar. Þegar hann náði því kýldi hún drenginn tvisvar.
Móðirin lét sér hvergi bregða og spurði hvort hún hefði verið kölluð úr vinnu til að athuga hvort hún og dóttir hennar ætluðu að kæra drenginn fyrir kynferðislega áreitni. Þá kom annað hljóð í belginn. Atvikið var „ekki svo alvarlegt“ að mati viðstaddra og móðirin beðin um að slaka á og hugsa aðeins hvað hefði gengið á. Dóttirin benti réttilega á að hún hefði beðið drenginn um að hætta og þegar hún hafði látið kennarann vita fékk hún bara svar um að láta sem ekkert væri og þá myndi hann hætta þessu.
Móðirin spurði þá kennarann af hverju hann hefði leyft þetta í stað þess að ganga á milli og stoppa drenginn. Í beinu framhaldi spurði hún hvort hún mætti snerta klofið á honum eða hvort hann gæti ekki opnað brjóstarhaldarann á móður drengsins, svona fyrst þetta væri allt svo smávægilegt og eðlilegt. Það urðu allir orðlausir, kennarinn hélt áfram að benda á að dóttir hennar hefði kýlt drenginn. Móðirin sagði það ekkert skrýtið, hún hefði verið að verja sig fyrir kynferðislegri áreitni.

Þetta er spurningin, hvenær hætti stríðni að vera bara stríðni, hvenær er það orðið kynferðisleg áreitni og hvað kennum við börnum með því að segja : „Hundsaðu þetta bara“?

Ef ókunnugur maður myndi strjúka lærið á dóttur þinni eða opna brjóstarhaldara hennar án samþykkis, þá yrðir þú brjáluð/brjálaður. Það á ekki að vera öðruvísi þó þar sé á ferð jafnaldri hennar. Ef barninu líður illa vegna hegðun samnemenda verður að taka á því.
Ein lélegasta afsökun fyrr og síðar hjá kennurum sem nenna ekki að taka á málunum hefur verið: „Hann er bara skotinn í þér.“ Og hvað með það?
Það réttlætir það ekkert að viðkomandi reyndi að kyssa mig í frímínútum, sló mig í rassinn frammi á gangi eða potaði í brjóstið á mér þegar ég vildi það ekki, bað hann um að hætta og jafnvel ýtti honum í burtu.
Við sátum nokkrar yfir kaffibolla um daginn og vorum að ræða þessi mál. Sem stelpur fengum við áhugalaus skilaboð um að láta þetta framhjá okkur fara, hundsa viðkomandi eða að taka þessu sem hrósi því „hann væri bara skotinn“.

Talandi um kolröng skilaboð. Voru skilaboðin s.s. að segja ekki frá því ef einhver snerti okkur á óviðeigandi hátt, að láta sem ekkert væri þó það væri verið að káfa á okkur og verst af öllu að þykja við eftirsóknarverðar ef einhver elti okkur á röndum til að snerta okkur og kyssa, gegn okkar vilja. Allt þetta er alveg jafn alvarlegt þó viðkomandi sé jafnaldri manns. 12 ára stelpa sem er kannski að byrja á kynþroskaskeiðinu á skilið að fá heilbrigðari skilaboð út í lífið en þetta.

Og hvaða skilaboð gefum við ungum strákum með því sama? Að það sé í lagi að snerta stelpur þó þær vilji það ekki því þær segja ekki frá og ef þær gera það er þeim sagt að hundsa þetta.
Svona hegðun væri ekki liðin á kennarastofunni, að sögukennarinn læddist að stærðfræðikennaranum og klipi í rassinn á henni. Þegar hún snéri sér að honum og spyr hvað þetta eigi að þýða þá komi líffræðikennarinn aðsvífandi og segði kæruleysislega: „Hvaaaða, láttu bara eins og ekkert sé, no biggie!“

Hugsum aðeins um hvaða skilaboð við sendum börnum, það hefur áhrif á þau út lífið. Jafningjafræðsla er orðin svo mikilvægur þáttur af menntun barna og hana þarf að byrja sem fyrst. Er það ekki líka tilgangur skóla, að kenna þeim eitthvað sem þau eiga eftir að nota út lífið.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 6. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.