Categories
Fréttir

Vilhjálmur Hjálmarsson látinn

Deila grein

15/07/2014

Vilhjálmur Hjálmarsson látinn

vilhjalmur-hjalmarssonVilhjálmur Hjálmarsson, bóndi og fyrrverandi þingmaður og ráðherra lést í gær, 14. júlí, á heimili sínu Brekku í Mjóafirði, 99 ára að aldri.
Hann fæddist á Brekku 20. september árið 1914, og var jafna kenndur við bæinn, sonur hjónanna Hjálmars Vilhjálmssonar og Stefaníu Sigurðardóttur.
Vilhjálmur var kvæntur Önnu Margréti Þorkelsdóttur, sem lést 21. apríl 2008. Þau eignuðust fimm börn; Hjálmar (látinn 2011), Pál, Sigfús Mar, Stefán og Önnu. Barnabörn Vilhjálms og Margrétar eru átján, barnabarnabörnin 35, barnabarnabarnabörnin fimm og tvö til viðbótar eru á leiðinni.
Vilhjálmur lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni árið 1935. Hann stundaði búskap í um þrjátíu ár, kenndi við barnaskólann í Mjóafirði og sinnti auk þess ýmis konar félagsmálastörfum.
Vilhjálmur sat í hreppsnefnd Mjóafjarðar í á fimmta áratug, frá 1944 til 1990. Þar af var hann oddviti hreppsins frá 1950 til 1978.
Þingferill Vilhjálms, sem stóð í þrjátíu ár, hófst árið 1949 þegar hann tók fyrst sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn sem þingmaður Suður-Múlasýslu. Hann gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1974-1978. Hann sat einnig í ýmsum nefndum og ráðum, þar á meðal var hann formaður útvarpsráðs árin 1980-1983.
Þegar þingsetu lauk árið 1979 tóku ritstörf við. Samtals komu út 24 bækur eftir Vilhjálm sem hann skrifaði sjálfur og þrjár sem hann átti hlutdeild í.
Á meðal bóka Vilhjálms eru endurminningarnar, „Raupað úr ráðuneyti“ frá 1981 og sjálfsævisagan „Hann er sagður bóndi“ frá 1991. Þá skrifaði hann ævisögu Eysteins Jónssonar í þremur bindum árin 1983-1985 og Mjófirðingasögur í þremur bindum árin 1987-1990.
Síðasta bók Vilhjálms, „Örnefni í Mjóafirði“, kemur út 20. september nk. en þá hefði hann átt hundrað ára afmæli. Af þessu tilefni sló Fréttablaðið á þráðinn til Vilhjálms síðastliðinn föstudag en hann var ern til dánardags. „Þetta er reyndar smá svindl því handritið var til,“ sagði Vilhjálmur þegar blaðamaður hrósaði honum fyrir framtakssemina. Og ekki vantaði gamansemina þegar rætt var um ritstörf hans. „Ég hef alla tíð skrifað mikið. Ég skrifaði til dæmis allar mínar ræður þegar ég var ráðherra, mér fannst það líka betra að vita hvað ég hafði sagt.“
Framsóknarflokkurinn vottar aðstandendum dýpstu samúð.