Categories
Greinar

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Deila grein

15/07/2014

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Þorsteinn SæmundssonNýlega bárust fregnir af því að bandaríska risaverslunarkeðjan Costco hygði á landvinninga á Íslandi. Að vanda fór samfélagsumræðan út um víðan völl af þessu tilefni, ekki síst fyrir tilstuðlan fjölmiðla. Mátti halda í byrjun að nú yrði slakað til fyrir verslunarrisann með lagasetningum sem væru til þess fallnar að breyta rekstrarskilyrðum verslunar stórlega, m.a. með tilslökunum í sölu áfengis og innflutnings á hráu kjöti.

Nú þegar umræðan hefur róast virðist svo sem Costco hafi áhuga á að hasla sér völl á Íslandi á þeim forsendum og innan þess regluverks sem íslensk stjórnvöld setja. Því ber að fagna. Sá sem hér ritar hefur haldið því fram bæði í ræðu og riti að helsta von Íslendinga um samkeppni sé fólgin í innflutningi á kaupmönnum og fagnar því hugmyndum Costco um rekstur á Íslandi.

Núverandi fákeppni hefur verið og er ein mesta ógnin við íslenska neytendur og afkomu þeirra. Verstu einkenni fákeppninnar hafa undanfarin misseri kristallast í því að innflutt vara hefur lækkað mjög óverulega þrátt fyrir allnokkra styrkingu íslensku krónunnar. Þessi staðreynd hefur ekki komist á dagskrá því kaupmönnum hefur tekist að snúa allri umræðu um verslun á Íslandi að landbúnaðarkerfinu, vörugjöldum og tollum. Í þeirri umræðu er öllu blandað saman og menn velja sér rök hverju sinni líkt og af hlaðborði. Hvergi minnast kaupmenn á að samkvæmt erlendum könnunum er ofmönnun í íslenskri verslun allt að 20% og að óvíða eru jafn margir fermetrar í verslun á íbúa og hér á Íslandi auk þess sem ótakmarkaður afgreiðslutími eykur kostnað og hækkar þar með vöruverð.

Verði tilkoma Costco á íslenskan markað til þess að auka samkeppni og hagkvæmni í verslun ber að fagna komu fyrirtækisins til Íslands. Nauðsynlegt er þó að svara nokkrum spurningum sem vakna við komu fyrirtækisins. Hverjir eru innlendir samstarfsaðilar Costco og hugsanlegir meðeigendur? Sérstaka athygli hafa vakið hófstillt viðbrögð forstjóra Haga, sem hefur yfirgnæfandi markaðshlutfall hér á landi, við yfirvofandi samkeppni. Getur verið að Hagar eða aðilar þeim tengdir eigi aðild að fyrirhugaðri verslun Costco? Svör við þessum spurningum og fleiri slíkum verða að liggja fyrir áður en hægt er að fagna komu Costco til Íslands.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.