Categories
Fréttir

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

Deila grein

14/01/2016

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

GBSOpinberri tveggja daga heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Noregs, í boði Børge Brende utanríkisráðherra Noregs, lauk í dag. Á fundum sínum ræddu ráðherrarnir sameiginleg hagsmunamál Íslands og Noregs, þ.m.t. stöðu mála í Úkraínu og fjölþjóðlegar þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi. Einnig voru til umræðu málefni norðurslóða og önnur svæðisbundin málefni, og greindi Gunnar Bragi meðal annars frá fyrirhugaðri formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu síðar á þessu ári. Málefni flóttafólks og hælisleitenda voru sömuleiðis á dagskrá, en fyrsti hópur flóttafólks frá Sýrlandi er væntanlegur til Íslands í næstu viku.
Staða mála við botn Miðjarðarhafs var einnig til umfjöllunar, sem og loftslagsmál. Gunnar Bragi greindi norska starfsbróður sínum einnig frá breytingum á skipulagi þróunarsamvinnu á Íslandi en Norðmenn réðust í viðlíka breytingar á sínum tíma. Þá ræddu ráðherrarnir fiskveiðimál og voru sammála um að stuðla að bættu samstarfi á norðanverðu Atlantshafi.
Á meðan á heimsókninni stóð átti utanríkisráðherra ennfremur fundi með varnarmálaráðherra, iðnaðarráðherra og Evrópumálaráðherra Noregs. Á fundi sínum með varnarmálaráðherranum, Ine Eriksen Søreide, voru málefni Atlantshafsbandalagsins til umræðu og tvíhliða samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, sem er víðfeðmt. Þannig munu Norðmenn til að mynda sinna loftrýmisgæslu hér á landi með vorinu. Samskiptin við Rússland og öryggismál á Norður Atlantshafsi voru einnig til umræðu á fundinum.
Á fundi utanríkisráðherra með Evrópumálaráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, voru málefni EES til umfjöllunar. Gunnar Bragi greindi meðal annars frá nýútkominni skýrslu stýrihóps stjórnvalda um framkvæmd EES samningsins. Einnig ræddu ráðherrarnir framlög í uppbyggingarsjóð EES, sem nýlega hefur náðst samkomulag um. Aspaker er einnig samstarfsráðherra Norðurlandanna og ræddu ráðherrarnir þá stöðu sem uppi er á Norðurlöndunum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Að endingu fundaði utanríkisráðherra með iðnaðarráðherra Noregs, Monicu Mæland. Á fundinum voru málefni EFTA fyrirferðamikil, auk þess sem fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og nýtilkominn fríverslunarsamningur tólf Kyrrahafsríkja bar á góma.
Utanríkisráðherra fundaði einnig með utanríkis- og varnarmálanefnd norska þingsins og hitti fyrir sendiherra gagnvart Íslandi sem aðsetur hafa í Noregi. Ennfremur fundaði ráðherra með fulltrúum úr norsk-íslenska viðskiptaráðinu og heimsótti Nýsköpunarstofnun Noregs.
„Ég átti mjög ánægjulega og gagnlega fundi hér í Noregi enda liggur fyrir að þessar tvær nánu vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu. Samskiptin við Rússland og þvingunaraðgerðir voru ofarlega á baugi í samtölum mínum við norska kollega, enda Rússland næsti nágranni Noregs og þar, líkt og á Íslandi, miklir hagsmunir í húfi. Það var einnig fróðlegt að heyra sjónarmið Norðmanna um áskoranir við komu flóttafólks. Þótt aðstæður séu um margt ólíkar er mikilvægt fyrir okkur að heyra sjónarmið og læra af reynslu,” sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.