Categories
Greinar

Veikasti hlekkurinn?

Deila grein

15/01/2016

Veikasti hlekkurinn?

Silja-Dogg-mynd01-vefMeð innlimun á Krímskaga braut Rússland gróflega gegn friðhelgi landamæra Úkraínu og alþjóðalögum, sem ekki á sér hliðstæðu í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Eftirleikurinn er öllum ljós og ekkert í stöðunni sem kallar á endurmat vestrænna ríkja í þvingunaraðgerðum sínum gagnvart Rússlandi.

Samstaða nauðsynleg

Það er eðli þvingunaraðgerða að ná ekki markmiðum sínum nema mörg ríki standi að þeim sameiginlega. Í þessu tilfelli standa auk Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, EES og EFTA-ríkjanna, aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, Ástralía og Nýja-Sjáland saman. Framan af snerust þær um takmarkanir á ferðafrelsi tiltekinna einstaklinga og frystingu fjármuna þeirra og tiltekinna fyrirtækja. Eftir að malasíska farþegaþotan var skotin niður yfir Úkraínu í júlí 2014 var hert á aðgerðunum og þær ítrekað framlengdar.

Ákvörðun Rússa vonbrigði

Vandinn sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir liggur ekki okkar megin, heldur í breyttri afstöðu Rússa sem beina nú sjónum að minnstu ríkjunum sem standa að þessum aðgerðum, væntanlega í von um að finna veikan hlekk og rjúfa samstöðuna. Frá því að Úkraínudeilan hófst hefur Ísland ítrekað talað fyrir virku samtali við Rússland. Við höfum stutt þær aðgerðir sem líklegar eru til sátta og höfum ekki hikað við að gagnrýna báða aðila átakanna þegar svo ber  undir. Samskipti okkar við Rússa hafa einkennst af virðingu og hófsemd, nú sem endranær. Það eru því gríðarleg vonbrigði að rússnesk yfirvöld ákváðu að bæta Íslendingum á lista yfir lönd sem sættu innflutningsbanni á matvælum. Slíkt bann er úr öllu samræmi við þær aðgerðir sem Rússar eru beittir af hálfu okkar og annarra þjóða en það hefur beinst gegn litlum hópi einstaklinga og viðskiptum tengdum hergagnaframleiðslu. Það dylst engum að innflutningsbann Rússa kemur hins vegar mjög illa niður á íslenskum sjávarútvegi og matvælaframleiðendum og einstökum byggðarlögum. Þau mál verður að skoða sérstaklega og ráðamenn hafa lýst sig reiðubúna til þess.

Nýjir markaðir

Íslensk stjórnvöld hafa gert sitt ítrasta til að koma í veg fyrir að bannið; ráðamenn hafa ritað  bréf til rússneskra starfsbræðra og embættismenn hafa átt fundi með Rússum til að útskýra stöðu okkar. Í kjölfar ákvörðunar Rússa kom utanríkisþjónustan á framfæri hörðum mótmælum á framfæri við þá. Samtímis hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið til samstarfs við útflytjendur um sókn á nýja markaði.

Utanríkisstefna Íslendinga

Ísland á mikið undir því að ríki hafi alþjóðalög í heiðri og fari friðsamlega fram í alþjóðasamskiptum. Þverpólitísk sátt hefur ríkt um stefnu stjórnvalda í málefnum Úkraínu og þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi sem er þýðingarmikið í slíku grundvallarmáli sem Úkraínudeilan er. Ríkisstjórnin telur brýnt að stjórnvöld sýni áfram fulla samstöðu með öðrum vestrænum ríkjum og haldi uppi þrýstingi á rússnesk stjórnvöld. Það væri raunar mikill ábyrgðarhluti að rjúfa slíka samstöðu. Breyting á okkar afstöðu væri kúvending á áratugalangri stefnu Íslands í utanríkismálum, og yrði ekki nema að undangenginni ítarlegri umræðu á vettvangi íslenskra stjórnmála þar sem öllum steinum yrði velt við. Hún myndi í grunninn snúast um spurninguna:  Viljum við vera veikasti hlekkurinn í samstöðu vestrænna ríkja um að verja alþjóðalög? Svar mitt við þeirri spurningu er: nei.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 15. janúar 2016.