Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.
Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.
Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.
Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.
Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.
Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.