Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Virkt lýðræði tryggir velsæld

Deila grein

14/07/2025

Virkt lýðræði tryggir velsæld

,,Ísland skip­ar efsta sæti á lífs­kjaralista Sam­einuðu þjóðanna. Þetta er mik­il viður­kenn­ing á stöðu Íslands í sam­fé­lagi þjóðanna. Við get­um öll verið stolt af þess­um ár­angri, sem hef­ur tekið ára­tugi að ná með mik­illi vinnu og elju­semi þjóðar­inn­ar. Efna­hags­staða þjóðarbús­ins er nokkuð góð um þess­ar mund­ir, þótt vissu­lega séu blik­ur á lofti. At­vinnu­leysi er lítið og hag­vöxt­ur hef­ur verið stöðugur. Hins veg­ar er einnig ástæða til að staldra við og ígrunda stöðu Íslands í breiðara sam­hengi, ekki síst eft­ir ný­lega ákvörðun for­seta Alþing­is að beita 71. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar til slíta umræðum á þingi.

Í bók sinni Tíu regl­ur vel­meg­un­ar þjóðríkja (e. The 10 Ru­les of Success­ful Nati­ons) lýs­ir höf­und­ur­inn Ruchir Sharma tíu lyk­ilþátt­um sem ein­kenna þjóðríki sem ná ár­angri til lengri tíma. Þeir eru ekki bara efna­hags­leg­ir, held­ur líka póli­tísk­ir og sam­fé­lags­leg­ir. Aflvaki fram­fara eru friður, virkt lýðræði, traust stofn­ana­kerfi og aðhald með vald­höf­um. Þjóðir sem standa vörð um þess­ar stoðir eru lík­legri til að vaxa og dafna til lengri tíma.

Í ljósi þessa vek­ur beit­ing 71. grein­ar stjórn­ar­skrár­inn­ar spurn­ing­ar. Grein­in heim­il­ar for­seta þings­ins að ljúka umræðum um þing­mál og krefjast at­kvæðagreiðslu án þess að frek­ari umræða fari fram. Þótt þessi heim­ild sé stjórn­ar­skrár­bund­in og lög­mæt, þá hef­ur hún hingað til verið nýtt með mik­illi var­færni, enda snert­ir hún sjálf­an kjarna þing­ræðis og lýðræðis­legr­ar umræðu.

Sam­kvæmt Sharma eru það ein­mitt þjóðríki sem leyfa gagn­rýna umræðu, þola deil­ur og leiða deil­ur til lykta sem búa við vel­sæld. Lýðræðis­leg umræða er ekki hindr­un held­ur styrk­ur enda var Alþingi Íslend­inga stofnað árið 930, þannig að hin lýðræðis­lega hefð hef­ur mjög sterk­ar og djúp­ar ræt­ur. For­dæmið sem skap­ast með virkj­un 71. grein­ar­inn­ar get­ur smám sam­an veikt þá lýðræðis­legu hefð sem þingloka­samn­ing­ar gegna á Alþingi, sem hafa verið und­ir­staða póli­tísks stöðug­leika milli stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu. Þetta er ekki spurn­ing um laga­leg­an rétt held­ur siðferðis­legt og lýðræðis­legt mat hverju sinni. Þegar meiri­hluti beit­ir valdi sínu til að þrengja að þing­legri umræðu án þingloka­samn­inga, þá fer allt traust inn­an þings­ins. Niðurstaða þessa þing­vetr­ar er rauna­leg, þar sem til­tölu­lega fá frum­vörp náðu fram­göngu vegna hug­ar­fars­ins sem rík­ir nú á Alþingi.

Ísland stend­ur sterkt að vígi hvað varðar hag­sæld en póli­tísk festa og virðing fyr­ir lýðræðis­leg­um leik­regl­um er ekki sjálf­gef­in.

Vel­sæld þjóðríkja bygg­ist á sam­ræðu, sam­vinnu og virðingu fyr­ir and­stæðum sjón­ar­miðum. Brýnt er að þessi lýðræðis­hefð okk­ar sé virt til að tryggja áfram­hald­andi ár­ang­ur þjóðar­inn­ar og vöxt til framtíðar.”

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júlí 2025.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.