Heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á menntakerfið okkar. Unnið er að því dag og nótt að koma skólastarfi í sem bestan farveg. Allir eru að leggja sig fram um að svo megi verða sem fyrst og forgangur stjórnvalda er menntun. Framúrskarandi menntun er ein meginforsenda þess að Ísland verði samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Verðmætasköpun næstu áratuga mun í auknum mæli byggjast á hæfni, hugviti, rannsóknum og nýsköpun. Þær öru tæknibreytingar sem orðið hafa síðustu ár og kenndar eru við fjórðu iðnbyltinguna munu hafa áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf á næstu áratugum. Tækniframfarir hafa vakið vonir um að tækifærum til að skapa ný og betri störf muni fjölga ört og lífsgæði geti aukist á mörgum sviðum samfélagsins. Gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins hefur verið mikið auðlindadrifin. Skynsamlegt er að fjölga útflutningsstoðunum.
Verðmætasköpun þarf í auknum mæli að byggjast á hugviti, rannsóknum og nýsköpun til að styrkja stoðir hagvaxtar til langframa. Menntun og aukin hæfni er undirstaða sjálfbærni, framfara og aukinna lífsgæða. Ríkisstjórn sýnir vilja í verki í fjárlagafrumvarpinu og fjárveitingar til málefna sem falla undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka um 11% milli ára og verða 127,2 milljarðar kr. á næsta ári.
Aukin fjárfesting í menntun og vísindum
Um 40% af fjárveitingum ráðuneytisins renna til háskólastarfsemi, sem er stærsti einstaki málaflokkur ráðuneytisins. Framlög til háskóla- og rannsóknastarfsemi hækka um 7% milli ára, þar sem bæði er um að ræða aukinn beinan stuðning við skólastarfið og fjárveitingar til einstakra verkefna. Eitt af fyrirheitum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var að framlög til háskólastigsins næðu meðaltali ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Það hefur tekist og er það fagnaðarefni.
Aukin framlög í Nýsköpunarsjóð námsmanna nema 300 milljónum kr. og 159 milljónir kr. fara í fjölgun námsplássa í hjúkrunarfræði og fagnám fyrir sjúkraliða. Þá er gert ráð fyrir verulega auknum fjárveitingum vegna stuðnings við námsmenn, þar sem 2021 verður fyrsta heila starfsár nýs Menntasjóðs námsmanna.
Fjárveitingar til framhaldsskólanna aukast um 3,6% milli ára og verða 36,2 milljarðar kr. Fjárfest verður í margvíslegum menntaumbótum sem eiga að nýtast öllum skólastigunum og framlög í rannsókna- og vísindasjóði hækka um 67% milli ára, úr 6,2 milljörðum kr. í 10,3 milljarða kr.
Aukin viðurkenning á gildi menningar
Umsvifin á sviði menningarmála aukast verulega milli ára. Fjárveitingar til safnamála hækka um 11%, þá nemur hækkun til menningarstofnana 9% og menningarsjóðir stækka einnig um 9%. Meðal einstakra liða má nefna 300 milljóna kr. fjárveitingu vegna húsnæðismála Náttúruminjasafns Íslands, 200 milljónir kr. til undirbúnings vísinda- og upplifunarsýningar fyrir börn og ungmenni og 225 milljóna kr. aukningu vegna tímabundinnar fjölgunar listamannalauna. Þessi tímabundin hækkun er ígildi aukaúthlutunar um 550 mánuði sem kemur til viðbótar við 1.600 mánuði sem almennt er úthlutað skv. lögum. Eyrnamerkt fjármagn vegna listamannalauna verður því 905,6 milljónir kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Þá eru 550 milljónir kr. eyrnamerktar markmiðum og aðgerðum í nýrri kvikmyndastefnu sem kynnt verður á næstu dögum.
Áfram er haldið að efla bókasafnasjóð höfunda, sem greiðir höfundarétthöfum fyrir afnot verka sinna, og eru fjárheimildir hans auknar um 75 milljónir kr. Þá er ráðgert að verja 25 milljónum kr. til að efla starfsemi bókasafna, og rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Á árinu 2021 verður unnið að aðgerðaáætlun nýrrar menningarstefnu. Ég vonast til þess að hún verði hvatning og innblástur til þeirra fjölmörgu sem vinna á sviði íslenskrar menningar til að halda áfram sínu góða starfi.
Fjárlagafrumvarpið í ár sýnir glögglega mikilvægi mennta- og menningar og hvernig er forgangsraðað í þágu þessa. Hugverkadrifið hagkerfi reiðir sig á framúrskarandi menntakerfi. Við erum að fjárfesta í framtíðinni með því að forgangsraða í þágu menntunar. Menntun er eitt mesta hreyfiaflið fyrir einstaklinga, þar sem tækifærin verða til í gegnum menntakerfið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2020.