Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2016

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel rúmum 100 árum seinna. Í dag mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenda styrki úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna.
Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Nú nýlega birtist mynd af Þjóðhagsráði Íslands en í ráðinu sitja sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Vissulega getur það reynst flókið að huga að kynjajafnrétti í slíku ráði en þó ætti það ekki að vera svo flókið ef betur er að gáð. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja í ráðinu stöðu sinnar vegna, en svo er tiltekið að forsvarsmenn SA, SÍS og SÍ eigi sæti í ráðinu og þar er vel hægt, ef vilji er fyrir hendi, að huga að kynjajafnrétti þar sem stjórnir þessara samtaka og stofnana eru skipaðar bæði körlum og konum. Að þessu sögðu er hægt að horfa til þeirra viðbragða við skipan ráðsins sem birtust í samfélaginu og óhætt er að draga þá ályktun að okkur hefur miðað áfram, fólk tók eftir þessari skökku mynd og benti á hið augljósa, að Þjóðhagsráð ætti að sjálfsögðu að vera skipað körlum og konum.

Um leið og við minnumst dagsins innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að, alltaf þarf að standa jafnréttisvaktina og við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvernig við getum verið sú fyrirmynd sem við viljum vera. Við lesum um konur á flótta, konur sem eru eru barnshafandi og dreymir um að fæða börn sín inn í sanngjarnan heim en talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni. Margar eru með börn á brjósti eða ferðast með ungabörn með sér. Gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða á meðal flóttakvenna síðastliðin ár. Þær hætta lifi sínu til að eiga börn sín í friðsælum aðstæðum og leita meðal annars til Evrópu. Þær ferðast fótgangandi oft að næturlagi í afskekktum héruðum fjarri lögreglu, á óupplýstum leiðum og ómalbikuðum vegum, halda til í niðurníddum lestum á nóttunni, eiga ekki í nein hús venda og búa við stöðugt öryggisleysi.
Margar konur eiga því börn sín á flótta og í flóttamannabúðum.
Konur eins og við.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir, Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.