Í dag er kvenréttindadagurinn haldinn hátíðlegur. Liðin eru 104 ár frá því konur á Íslandi sem voru yfir fertugu fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Okkur Íslendingum hefur lánast að vera framarlega í réttindum kvenna í gegnum tíðina. Réttindin hafa ekki komið af sjálfu sér, konur og jafnréttissinnar í hópi karla hafa þurft að berjast fyrir hverju skrefi. Svipaða sögu er að segja af réttindabaráttu hinsegin fólks. Skrefin hafa verið stigin eftir baráttu gegn hefðum og ríkjandi viðhorfum.
Það sem við lærum af réttindabaráttu kvenna og hinsegin fólks er að stjórnmálamenn verða að hafa sýn en ekki aðeins kænsku til að fylgja öldugangi samtímans með það eitt í huga að afla nægs fylgis í næstu kosningum. Sagan dæmir og sagan dæmir af hörku. Það er því afar furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að sjá rótgróna stjórnmálaspekinga sem segjast í gegnum tíðina hafa aðhyllst frelsi einstaklingsins og mannúð vera uppfulla af lotningu fyrir helstu lýðskrumurum samtímans austan hafs og vestan. Þeir segja gjarnan að íslenskir stjórnmálamenn verði að skynja þessa undiröldu, ekki til að bregðast við henni og koma í veg fyrir uppgang afla sem standa gegn frjálslyndi og mannúð, heldur til að slást í hópinn.
Framsókn hefur í gegnum tíðina verið í fararbroddi frjálslyndra afla á Íslandi þótt margir vilji gera lítið úr þætti flokksins í miklum umbótamálum. Konur hafa lengi verið áberandi í Framsókn og gegnt mikilvægum embættum, bæði í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu. Framsókn stóð fyrir fæðingarorlofi fyrir feður og Framsókn var í fararbroddi í réttindabaráttu samkynhneigðra varðandi hjúskap og ættleiðingar. Þessi sterka frjálslynda taug er flokknum mikilvæg og hefur reynst þjóðinni vel.
Mér þótti afar vænt um að á þjóðhátíðardaginn að í hópi þeirra sem hlutu fálkaorðuna var Guðrún Ögmundsdóttir, sem hlaut riddarakross fyrir störf sín að mannúðarmálum og réttindabaráttu hinsegin fólks. Guðrún er ein þeirra sem hefur haft mikil áhrif á samfélagið og er öðrum fyrirmynd. Ég óska íslenskum konum til hamingju með daginn. Sagan sýnir okkur að við getum breytt samfélaginu. Hvert skref í rétta átt er mikils virði. Ísland stendur framarlega í jafnréttismálum en við getum gert betur og verðum að gera betur.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 19. júní 2019.