Categories
Greinar

Fjölmörg framfaramál

Deila grein

19/06/2019

Fjölmörg framfaramál

Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á að tryggja að öryggi matvæla, lýðheilsa fólks og heilbrigði dýra sé eins og best verður á kosið. Í þessu samhengi er mikilvægt að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að Ísland verði fyrst ríkja í heiminum að banna dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við sýklalyfjaónæmi af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins. Þetta er raunveruleg ógn og því stórt framfaraskref að við höfum ákveðið að bregðast við henni.

Sókn íslensks landbúnaðar
Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn. Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis. Til þess að tryggja heilnæmi innfluttra matvæla verður gripið til ýmissa aðgerða, m.a. verður að leggja fram vottorð við innflutning matvæla, gæðaeftirlit með matvöru verður hert og átak verður gert í upprunamerkingum til að neytendur viti hvaðan matvælin koma.

Orkan áfram í eigu Íslendinga
Umræða um orku- og auðlindamál hefur verið áberandi síðustu misseri og hefur dregið athygli margra að framtíðaráskorunum í þeim málaflokki. Við verðum að mæta þeim áskorunum, m.a. með því að ljúka við gerð Orkustefnu, bæta auðlindaákvæði í stjórnarskrá, bæta lagaumgjörð um orku- og auðlindamál innanlands m.a. til að tryggja innlent eignarhald og nýtingu á jörðum og hlunnindum. Orkufyrirtækin eiga að vera áfram í eigu almennings, hér á að vera eitt dreifkerfi og eitt verð fyrir dreifingu raforku. Að auki þurfum við að fylgjast vel með og beita okkur við uppfærslu orkumála í EES samstarfinu.

Fjölbreyttur málalisti þingflokksins
Þó svo að ofangreind mál séu öll afar mikilvæg þá hafa þingmenn Framsóknar beitt sér í fjölmörgum öðrum málaflokkum. Á þeim lista má m.a. nefna ályktun um meðferð og fræðslu um vefjagigt, mótun klasastefnu, mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða, endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, þingsályktun um náttúrustofur, stofnun lýðháskóla á Laugarvatni, vistvæn opinber innkaup matvöru og þróun á velferðartækni. Frumvarp um búvörulög var lagt fram sem fjallar um afurðastöðvar í kjötiðnaði og eitt þingmannamál hefur þegar fengist samþykkt en það voru breytingar á lögum um almannatryggingar er fjalla um barnalífeyri.

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur og lausn viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Grunnstefna flokksins hefur ekkert breyst í rúma öld en áskoranir samfélagsins eru síbreytilegar. Það eru forréttindi að fá að takast á við þær og móta samfélagið. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingmaður Framsóknarflokksins