Categories
Greinar

Að kunna að sigra

Deila grein

07/07/2021

Að kunna að sigra

Í leik og starfi telst það góður eig­in­leiki að kunna að tapa. Taka ósigri með reisn, læra af reynsl­unni og nýta hana til góðs. Að sama skapi er mik­il­vægt að kunna að sigra. Sýna hóg­værð þegar vel geng­ur, sýna aðstæðunum virðingu og gæta þess að van­meta ekki fyr­ir­liggj­andi áskor­an­ir.

Þótt enn sé ótíma­bært að lýsa yfir sigri í bar­átt­unni við Covid-19 geta Íslend­ing­ar glaðst yfir góðum ár­angri. Staðan er góð, mik­ill meiri­hluti full­orðinna hef­ur verið bólu­sett­ur og sam­komutak­mörk­un­um inn­an­lands hef­ur verið aflétt. Sú staðreynd lyft­ir lund­inni, stuðlar að hag­vexti og leys­ir marg­vís­lega starf­semi úr hlekkj­um kór­ónu-veirunn­ar. Þannig er óend­an­lega gam­an að sjá menn­ing­ar­starf kom­ast á fulla ferð, sjá tón­leika­hald glæðast og for­send­ur fyr­ir leik­hús­starfi gjör­breyt­ast til hins betra. Fjölda­sam­kom­ur eru nú leyfi­leg­ar, hvort sem fólk vill sækja í tón­list­ar­húsið Hörpu, sam­komu­húsið á Ak­ur­eyri eða bæj­ar­hátíðir um land allt. Stór og smá leik­hús horfa björt­um aug­um til hausts­ins og menn­ing­arþyrst­ir lands­menn geta loks­ins svalað þorst­an­um, um leið og lista­menn geta að nýju aflað sér fullra tekna eft­ir langa bið. Ferðaþjón­ust­an hef­ur tekið við sér og flest horf­ir til betri veg­ar.

Í þess­um aðstæðum er rétt að rifja upp lífs­spek­ina um drambið og fallið. Hvernig of­lát get­ur snúið góðri stöðu í slæma og hvað við get­um lagt af mörk­um til að viðhalda ár­angr­in­um í Covid-stríðinu. Við þurf­um að kunna að sigra, sýna aðstæðunum virðingu en ekki missa stöðuna frá okk­ur. Gár­ung­arn­ir töluðu um vímu­skyldu sem eðli­legt fram­hald grímu­skyldu og ef marka má frétt­ir af næt­ur­líf­inu und­an­farna daga virðast ýms­ir hafa tekið þá á orðinu. Von­andi rjátl­ast það fljót­lega af skemmtanaglaðasta fólk­inu, enda er bar­átt­unni við Covid-19 ekki lokið. Við þurf­um að halda áfram að sýna ábyrgð og í leiðinni meta hvað við get­um lært af reynslu und­an­far­inna 16 mánaða, svo ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og stjórn­völd geti brugðist rétt við.

Stjórn­völd þurfa einnig að meta hvort ár­ang­ur­inn af stuðningi við at­vinnu­líf og fé­laga­sam­tök hafi verið næg­ur og op­in­bert fé hafi nýst sem skyldi. Sú umræða er að eiga sér stað. Við höf­um öll í sam­ein­ingu lifað sögu­lega tíma. Ljóst er að það reyn­ir á sam­fé­lagið okk­ar í fram­hald­inu, en við höf­um alla burði til að koma sterk­ari út úr þess­ari áskor­un.

Horf­urn­ar eru góðar og sum­ar­leyf­is­tím­inn er geng­inn í garð. Björt sum­ar­nótt­in er tákn­ræn fyr­ir góðan ár­ang­ur, sem okk­ur ber að varðveita í sam­ein­ingu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júlí 2021.