Categories
Greinar

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Deila grein

15/09/2021

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Á mörgum vinnustöðum hér á landi neyðist eldra fólk til að hætta að vinna fyrr en það vildi vegna reglna um starfslok. Aldurstengdar viðmiðanir varðandi starfslok eiga ekkert erindi í því samfélagi sem við búum í. Það er viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu án vandkvæða. Við gerum eldra fólki og vinnumarkaðinum í heild enga greiða með aldurstengdum viðmiðunum sem þessum.

Framsókn vill miða starfslok við hæfni

Fjölmargir einstaklingar hafa gífurlega margt fram að færa þrátt fyrir að vera komið yfir sjötugt. Fólk verður ekki af reynslu, þekkingu, menntun né dugnaði við ákveðinn afmælisdag. Með þeim reglum sem eru við lýði í dag erum við að neita þeim einstaklingum, sem enn vilja fara út úr húsi, taka þátt í samfélaginu og á atvinnumarkaði, hitta fólk og vinnufélaga og afla tekna (sem stundum er mikil þörf á). Að auki missir vinnumarkaðurinn af starfskrafti sem enn er verðmætur.

Eitt áherslumála Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess. Samtal um starfslok eiga að eiga sér stað meðal vinnuveitanda og starfsmanns, en ekki innan lagabálka ríkisins.

Að eldra fólk vinni án skerðinga

Ásamt þessu er það áherslumál hjá Framsókn að eftirlaunafólk fái að vinna eins og það sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Fjölmargir eftirlaunaþegar hafa enn brennandi áhuga á að vinna en sjá ekki virði þess eins og staðan er í dag miðað við þær skerðingar sem mæta þeim. Að auki eru brýn þörf á aukatekjum hjá mörgum eftirlaunaþegum. Við eigum ekki að láta eldra fólk gjalda fyrir dugnað.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og situr í 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 15. september 2021.