Tekjur fyrirtækja þurrkast út
Mikil óvissa ríkir á vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Við erum að horfa fram á nánast hrun í ferðaþjónustu næstu mánuðina og ljóst að áhrifin verða einnig mikil á aðrar atvinnugreinar, bæði hér á landi og erlendis. Bein störf við ferðaþjónustu eru um 25 þúsund á Íslandi og má ætla að hlutur erlendra ferðamanna í verðmætasköpun ferðaþjónustu sé hlutfallslega um 70%. Afleiðing þessa getur með beinum hætti haft áhrif á um 18 þúsund störf hér á landi. Ef ekkert er gert má gera má því ráð fyrir að atvinnuleysi vaxi mikið með tilheyrandi áhrifum á allt þjóðfélagið.Við höfum kynnt fyrsta áfanga umfangsmikilla aðgerða með það að markmiði að verja efnahagslífið eins og hægt er. Aðgerðirnar eru fjölbreyttar og lúta meðal annars að sérstökum hlutaatvinnuleysisbótum, frestun og afnámi opinberra gjalda, sérstökum barnabótaauka með öllum börnum og endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda.
Við þessar aðstæður er markmiðið skýrt; að verja heimilin, fyrirtækin og störfin í landinu.
Hlutabætur eru hryggjarstykkið í aðgerðapakkanum
Fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi frumvarp mitt um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, svokallaða hlutastarfaleið. Markmiðið með lagasetningunni er einfalt; að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt. Mikil verðmæti eru fólgin í því fyrir samfélagið allt að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda og hér verði kröftug viðspyrna þegar faraldurinn hefur gengið yfir.Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
• Allt að 75% hlutabætur – Atvinnurekandi lækkar starfshlutfall starfsmanns niður í að minnsta kosti 80% miðað við fullt starf, en þó ekki neðar en í 75% starfshlutfall, og þá kemur ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýtt starfshlutfall.
• Allt að 90% heildarlauna – Greiðslur atvinnuleysisbóta skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns miðað við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta.
• Þak á samanlagðar bætur og laun 700.000 kr. – Laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur geta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði.
• Laun allt að 400.000 kr. að fullu tryggð – Einstaklingar með 400.000 kr. eða minna í laun á mánuði geta fengið greidd 100% af meðaltali launa.
• Námsmenn heyra undir lögin – Námsmenn geta átt rétt á bótum samkvæmt frumvarpinu uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði ákvæðisins. Hvet ég námsmenn til að kynna sér skilyrðin á vef Vinnumálastofnunar.
• Starfsmenn íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka heyra undir lögin – Starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka eiga rétt á hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda.
• Sjálfstætt starfandi einstaklingar heyra undir lögin – Aðgerðir ríkisins eiga einnig við um sjálfstætt starfandi einstaklinga og gilda sömu skilyrði um þá og starfsfólk fyrirtækja.
Lögin eru tímabundin og gilda út maí en við erum tilbúin að bregðast við ef þess verður þörf. Nú þegar er búið að opna fyrir umsóknir um slíkar bætur á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Ég hvet atvinnurekendur til þess að minnka frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna. Störfin ætlum við að verja með öllum tiltækum ráðum og með hlutastarfaleiðinni tryggjum við að viðspyrnan verður miklu kraftmeiri og snarpari þegar faraldrinum lýkur.
Förum saman gegnum skaflinn!
Öll él styttir upp um síðir og þegar birta tekur munum við þurfa alla þá viðspyrnu sem við náum til að ná fyrri styrk og vonandi gott betur. Með æðruleysi, kjarki og dugnaði komumst við gegnum þessa tímabundnu erfiðleika. Pössum upp á þá sem standa okkur næst, nýtum tæknina til samskipta og ræktum líkama og sál eins og við getum. Samstaða þjóðarinnar hefur sjaldan verið mikilvægari og allir þurfa að leggja hönd á plóg. Saman förum við í gegnum skaflinn.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2020.