Categories
Greinar

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Deila grein

12/12/2019

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Börn eru yf­ir­leitt ekki göm­ul þegar þau átta sig á að það er betra að vera stór en lít­il, eldri en yngri. Stærð og aldri fylgja völd og mögu­leik­inn til að hafa áhrif á eigið líf og sam­fé­lag. Orðræða end­ur­spegl­ar ráðandi viðhorf til sam­fé­lags­hópa og eru börn þar eng­in und­an­tekn­ing. Ófor­svar­an­leg hegðun full­orðinna er stund­um kölluð barna­leg. Það ligg­ur í aug­um uppi að til þess að hafa vægi í sam­fé­lag­inu, eins og það er upp­byggt í dag, skipt­ir máli að vera full­orðinn.

Ósjald­an heyr­um við því haldið fram, við hin ýmsu til­efni, að börn­in séu framtíðin. Fal­leg hugs­un ligg­ur þar ef­laust að baki og ætl­un­in að benda á mik­il­vægi þess að hlúa vel að heim­in­um til þess að geta af­hent hann börn­un­um þegar þau verða stór. Það sem marg­ir átta sig hins veg­ar ekki á er að með þess­um orðum erum við að segja að tími barn­anna komi seinna. Barnæsk­an er hins veg­ar ekki biðstofa full­orðins­ár­anna. Börn og ung­menni eiga að hafa rödd frá því að þau eru fær um að koma skoðunum sín­um á fram­færi og þeirra rödd á að fá svig­rúm og vægi.

Barna­sátt­mál­inn lof­orð til barna

Fyr­ir rúm­lega þrjá­tíu árum var börn­um heims­ins gefið lof­orð. Lof­orð um að standa skyldi vörð um rétt­indi þeirra og vel­ferð fram­ar öllu öðru. Lof­orðið, sem í dag­legu tali kall­ast Barna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna, markaði mik­il tíma­mót í bar­átt­unni fyr­ir rétt­ind­um barna, en sátt­mál­inn fel­ur í sér alþjóðlega viður­kenn­ingu á því að börn séu sjálf­stæðir ein­stak­ling­ar með full­gild rétt­indi, óháð rétt­ind­um full­orðinna.

Sátt­mál­inn var full­gilt­ur af Alþingi árið 1992 og lög­fest­ur 2013. Þrátt fyr­ir að langt sé um liðið eru mörg af ákvæðum hans enn ekki orðin að veru­leika. Það telst til dæm­is enn til fyr­ir­mynd­ar og vek­ur at­hygli þegar börn­um er gefið tæki­færi til að tjá sig á op­in­ber­um vett­vangi. Það ætti hins veg­ar að vera orðið með öllu sjálfsagt enda eru, þegar öllu er á botn­inn hvolft, fá mál­efni sem ekki snerta líf þeirra með ein­hverj­um hætti.

Radd­ir barna fá aukið vægi

Víðtæk end­ur­skoðun stend­ur nú yfir á allri þjón­ustu við börn á Íslandi að mínu frum­kvæði. Við stönd­um á kross­göt­um og höf­um alla burði til að búa til ein­hverja fram­sækn­ustu um­gjörð í heimi þegar kem­ur að því að hlusta á radd­ir barna og upp­fylla rétt­indi þeirra. Auk­inn skiln­ing­ur er að verða á því að radd­ir barna og Barna­sátt­mál­inn sé átta­vit­inn sem eigi að liggja til grund­vall­ar öll­um ákvörðunum og stefnu­mót­un sem varða líf yngri kyn­slóðar­inn­ar. Því til staðfest­ing­ar má nefna að rík­is­stjórn­in samþykkti fyrr á þessi ári til­lögu mína um að all­ar stór­ar ákv­arðanir sem og laga­frum­vörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrif­um á stöðu og rétt­indi þeirra.

Þessi hugs­un ligg­ur til grund­vall­ar allri minni vinnu í embætti fé­lags- og barna­málaráðherra. Ekki síst í fyrr­nefndi end­ur­skoðun og samþætt­ingu á þjón­ustu við börn sem nú fer fram und­ir for­ystu fé­lags­málaráðuneyt­is­ins þvert á önn­ur ráðuneyti. Hugs­un­in end­ur­spegl­ast einnig í stuðningi ráðuneyt­is­ins við ný­af­staðið Barnaþing umboðsmanns barna og ný­und­ir­rituðum sam­starfs­samn­ingi fé­lags­málaráðuneyt­is­ins við UNICEF um mark­visst sam­starf við inn­leiðingu sveit­ar­fé­laga á Barna­sátt­mál­an­um. Mun það fara fram und­ir for­merkj­um Barn­vænna sveit­ar­fé­laga og er stefnt að því að að minnsta kosti 30 pró­sent sveit­ar­fé­laga á Íslandi hafi fengið viður­kenn­ingu sem barn­væn sveit­ar­fé­lög við árs­lok 2021.

Hluti af dag­legu lífi

Til að tryggja raun­veru­lega barn­vænt sam­fé­lag þurfa börn að njóta þeirra rétt­inda sem Barna­sátt­mál­inn kveður á um í sínu nærum­hverfi á degi hverj­um. Þess vegna þarf inn­leiðing hans ekki síst að fara fram hjá sveit­ar­fé­lög­um en þangað sækja börn að stærst­um hluta þá þjón­ustu sem þau þurfa á að halda. Inn­leiðing Barna­sátt­mál­ans þýðir að for­send­ur hans gangi sem rauður þráður gegn­um starf­semi sveit­ar­fé­lags­ins á öll­um stig­um. Barna­sátt­mál­inn verði þannig ekki leng­ur fal­leg kór­óna sem sett er upp á hátíðis­dög­um held­ur hluti af dag­legu lífi, alla daga og alls staðar.

Ég legg áherslu á að hér er ekki aðeins um að ræða fal­leg orð og fög­ur fyr­ir­heit. Að baki þess­um breyt­ing­um liggja bein­hörð vís­indi en æ fleiri rann­sókn­ir sýna að vel­ferð barna skipt­ir sköp­um þegar kem­ur að því að byggja upp heil­brigt og gott sam­fé­lag til skemmri og lengri tíma. Lengi býr að fyrstu gerð og ein besta fjár­fest­ing sem sam­fé­lög geta ráðist í er að hlúa vel að börn­um.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2019.