Categories
Greinar

Af hverju Framsókn?

Deila grein

16/09/2021

Af hverju Framsókn?

Þegar greinar dynja á kjósendum í aðdraganda kosninga er gott að fara yfir hið pólitíska svið. Ég ætla ekki að tala um snögglegan áhuga sumra flokka á byggðamálum nú rétt fyrir kosningar heldur ætla ég að færa fyrir því rök af hverju Framsókn er besti kosturinn fyrir Vestfirðinga í þessum kosningum.

Orð og efndir – Liðið kjörtímabil

Á kjörtímabilinu hefur Ásmundur Einar Daðason hefur umbreytt stjórnsýslu þegar viðkemur málefni barna svo eftir er tekið. Ásmundur hefur breytt húsnæðiskerfinu og komið með sveigjanleg úrræði þannig að nú er verið að byggja húsnæði um land allt, þar á meðal á Vestfjörðum. Stofnframlög HMS hafa nýst í sveitafélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og áður hýsti skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur ráðist hefur verið í Bolungarvík í 30 ár þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma. Nú síðast tilkynnti Ásmundur Einar um 134 milljóna króna stofnframlag til nemendagarða fyrir Lýðskólann á Flateyri.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur unnið grettistak í menntamálaráðuneytinu. Tryggð var fjármögnun fyrir nýrri námslínu í Háskólasetri Vestfjarða í sjávarbyggðafræði sem gerir Háskólasetrinu kleift að vaxa og styrkir stoðir þess. Ennfremur samþykkti Lilja lög um Lýðsskóla og gerði sérstakan samning um Lýðsskólann á Flateyri sem tryggði rekstur hans til næstu ára.

Vestfirðingar hafa heldur betur orðið vart við veru  Sigurðar Inga í samgönguráðuneytinu. Helstu framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á kjörtímabilinu 2017-2021 á Vestfjörðum eru:

Vegasamgöngur

 • Dýrafjarðargöng.
 • Strandavegur um Bjarnarfjarðarháls
 • Djúpvegur, Hestfjörður-Seyðisfjörður um Hattardalsá.
 • Örlygshafnarvegur, Skápadalsá-Hvalsker.
 • Dynjandisheiði. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes
 • Vestfjarðavegur um Teigskóg  Gufudalsá-Skálanes. Endurbygging og breikkun á um 6,6 km kafla frá Gufudalsá að Skálanesi. Kinnarsstaðir-Þórisstaðir. 2,7 km kafli yfir Þorskafjörð. 260 m löngsteypt brú.
 • Djúpadalsvegur. Nýbygging Djúpadalsvegar á um 5,7 km kafla.
 • Vestfjarðavegur um Bjarnadalsá í Önundarfirði
 • Bíldudalsvegur um Botnsá í Tálknafirði

Hafnarmannvirki

 • Bíldudalur – Tenging Kalkþörungabryggju, endurbygging Hafskipabryggju og landfylling austan hafnar.
 • Bolungarvík – Endurbygging Brjóts
 • Suðureyri – Endurbygging Vesturkants
 • Hólmavík – Endurbygging stálþils
 • Ísafjörður – Nýr kantur á Sundabakka (300 m) og dýpkun

Flug

 • Ísafjarðarflugvöllur – Grjótvörn, bílastæði og yfirlögn á flugbraut.
 • Bíldudalsflugvöllur – Klæðning á flugbraut.
 • Reykhólar – Endurnýjun yfirlags
 • Gjögur, viðhald
 • Loftbrú!

Við vitum öll að mikið er eftir enn en þetta eru engu að síður risaskref í rétta átt. Til þess að setja hlutina í samhengi þá voru samanlögð útgjöld í nýframkvæmdir á vegunum á vestursvæði síðustu fjögur ár rétt tæpir 23 milljarðar!

Byggðastefna í verki

Stjórnvöld þarf að skapa íbúum og fyrirtækjum þau skilyrði að þau geti vaxið og dafnað þar sem þau kjósa að setja sig niður. Þess vegna þarf þjónusta við íbúana að vera dreifð um landið og grunninnviðir þurfa að vera til staðar svo sem heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir. Ákvörðunarvaldið hefur færst frá landsbyggðinni suður á bóginn og stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar fjarri fólkinu sem þarf að nýta sér þjónustuna. Við höfum sérstaklega upplifað þetta í heilbrigðisþjónustu.

Orkumál

Hvert landssvæði verður að hafa tækifæri til þess að nýta þá möguleika sem eru til staðar á hverju svæði. Vestfirðingar eiga að geta verið sjálfum sér nægir varðandi raforku og fengið að virkja þá kosti sem eru í rammaáætlun og hagkvæmra kosta svo sem í Vatnsfirði. Loftslagsmál eru stærsta viðfangsefni okkar stjórnmálamanna en ef við eigum að geta stundað orkuskipti verður að vera til græn orka til þess að búa til rafeldsneyti fyrir flutningabílana og skipin eða fjölskyldubílana. Orkuskipti án orku eru orðin innantóm.

Fiskeldi

Fiskeldi hefur verið kærkomin innspýting í atvinnulífið á Vestfjörðum. Framsóknarmenn hafa frá upphafi stutt við uppbyggingu greinarinnar, jafnvel þegar greinin átti sér fáa sem enga málsvara. Mikilvægt er að öll umgjörð og regluverk sé eins og best verður á kosið þannig að umhverfisáhrif verði sem minnst. Til þess að tryggja sjálfbærni á öllum sviðum verður líka að horfa á samfélagslega hlutann og þar er lykilatriði að geta tryggt sveitarfélögum sanngjarnar tekjur á móti þeirri uppbyggingu og kostnaði sem fylgir umsvifunum.

Uppboð á kvóta, feigðarflan fyrir sjávarútvegsfyrirtæki  í NV

Í Norðvesturkjördæmi eru nánast eingöngu bolfiskútgerðir og sjávarútvegsfyrirtækin eru flokkuð sem lítil-meðalstór fyrirtæki. Uppboð á kvóta eins og sum framboð boða er dauðadómur yfir litlum- og meðalstjórum bolfiskútgerðarfyrirtæki í Norðvesturkjördæmi sem ættu ekki roð í stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sem halda mörg hver á kvóta í uppsjávartegundum líka og njóta þar af leiðandi mikillar arðsemi úr þeirri grein. Það er því vandséð hvernig uppboð á kvóta á að hjálpa hinum dreifðu byggðum Norðvesturkjördæmis. Kvótakerfið er ekki fullkomið en það borgar sig frekar að vinna í annmörkum þess frekar en að færa aflaheimildir úr Norðvesturkjördæmi til stærstu fyrirtækjanna.

Landbúnaður

Í aðdraganda kosninga er vinsælt að vilja umbylta landbúnaðarkerfinu algjörlega en yfirleitt er óútfært hvernig á að auka hag bænda í þeim breytingum. Aukið tollafrelsi á að frelsa bændur en gerir lítið annað en að berskjalda þá gagnvart samkeppni frá öðrum löndum þar sem sýklalyfjanotkun er meiri og kröfur um aðbúnað eru gjarnan allt aðrar. Framsókn hefur staðið með íslenskum landbúnaði og varið hann ágjöf. Það skiptir máli að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri. Sterkt landbúnaðar- og mætvælaráðuneyti skapar tækifæri í auknum umsvifum og blómstrandi nýsköpun í landbúnaði. Íslenskir matvælaframleiðendur þurfa meiri frelsi til að auka virði framleiðslu sinnar og heimila ætti heimaslátrun og vinnslu, en hún þarf að sjálfsögðu að standast kröfur. Tækifærin eru fjölmörg, við þurfum að sjá þau og vinna með þeim.

Setjum X við B á kjördag

Ég hef undanfarin fjögur ár setið á þingi fyrir Framsókn og er stolt af þeim árangri sem við höfum náð í ríkisstjórn. Framsókn hefur haft samvinnu að leiðarljósi í þriggja flokka ríkisstjórn þar sem ólík sjónarmið koma saman og þá fæðast bestu lausnirnar. Framtíðin ræðst á miðjunni. Setjum x við B á kjördag.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður og í framboði fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 16. september 2021.