Categories
Forsíðuborði Greinar

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Deila grein

11/09/2017

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Mikið er rætt og ritað um uppbyggingu á Vestfjörðum þessa dagana. Eftir margra ára varnarbaráttu samfélaganna fyrir vestan hafa nú í nokkurn tíma verið vonir og væntingar um uppbyggingu með bættum innviðum og fjölbreyttara atvinnulífi. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á undanförnum árum vantar herslumuninn uppá að fjórðungurinn sé á pari við aðra hvað varðar innviði. Einkum eru það þrjú mál sem eru í brennidepli í dag, veglagning um Teigskóg, virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og laxeldi en að mínu viti þarf aðkomu okkar þingmanna kjördæmisins að öllum þessum málum.

Teigskógur- lagasetning eina leiðin

Nú þegar er vinna er hafin við Dýrafjarðargöng og undirbúningur fyrir nýjan veg um Dynjandisheiði er langt kominn, er aðeins einn kafli eftir í stóru samgönguæðum Vestfirðinga sem er ekki boðlegur en það er vegurinn um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Teigskógur er með þekktari “skógum” á landinu þrátt fyrir að vera að mestu kjarr sem finna má víða á Íslandi. Í raun er með ólíkindum að landeigendur sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu skuli geta komið í veg fyrir að Vestfirðingar njóti samgangna, öryggis og betri lífsgæða. Nýr vegur um Teigskóg hefur þvælst í stjórnkerfinu alltof lengi og þau svör sem við þingmenn höfum fengið hafa aldrei staðist þegar við höfum ýtt á eftir málinu. Í ljósi nýjustu frétta um mögulegar seinkanir er aðeins eitt í boði, að alþingi samþykki lög um Teigskóg svo framkvæmdir geti hafist. Annað er ekki boðlegt. Mun ég flytja slíkt mál geri aðrir það ekki.

Fiskeldi – beita verður mótvægisaðgerðum og opna Djúpið

Í minni sjávarútvegsráðherratíð síðasta haust setti ég af stað starfshóp sem vinna átti stefnumótun í fiskeldi og skilaði hópurinn niðurstöðu nú í lok ágúst. Fiskeldi eða eldi hverskonar er vaxandi um allan heim enda ljóst að fæðuþörf heimsins verður ekki annað með hefðbundnum búskap eða fiskveiðum. Íslendingar hafa ekki fylgt þeirri þróun eldismála sem skyldi og eflaust eru margar skýringar á því. Nú er staðan önnur, eldi er komið til að vera á Íslandi. Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs á Vestfjörðum og sóknarfærin einnig mikil fyrir austan. Niðurstöður starfshópsins ullu mér nokkrum vonbrigðum. Ég hafði vonast eftir skýrari markmiðum og sýn fyrir greinina á næstu árum líkt og fiskeldisþjóðirnar í kringum okkur hafa sett sér. Megin verkefnið var að gera tillögur um umgjörð greinarinnar og átta sig á þjóðhagslegu mikilvægi hennar, þar er lykillinn að meta félagslega og efnahagslega þætti en ekki var gerð tilraun til þess. Þrátt fyrir margt ágætt í vinnu hópsins virðist mér að hann hafi villst frá meginmarkmiðum vinnunnar. Áherslan á „sátt“ milli eldis og veiðiréttarhafa, gjaldtöku af greininni ásamt uppboðsleið Viðreisnar virðist hafa tekið megin tíma hópsins. Ég sakna þess hve lítið er gert með jákvæð áhrif fiskeldis á efnahagslífið, samfélagsþróunina (þrátt fyrir úttekt Byggðastofnunar) sem og hvernig við ætlum að mennta allt það fólk sem greinin þarfnast eða búa um frekari innviði sem fylgja uppbyggingunni.
Viðreisn nær að koma hugmyndum sínum um uppboðsleið þarna inn sem er athyglisvert í ljósi þess að ætlaður forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hefur verið andsnúinn þeirri leið í sjávarútvegi. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta eigi að vera tilraunaverkefni fyrir sjávarútveginn.
Lagt er til að lögfesta lokun Ísafjarðardjúps fyrir laxeldi á grundvelli áhættumats Hafrannsóknarstofnunar sem er hálfs árs gamalt. Til viðmiðunar má benda á að það tók Hafró langan tíma að þróa aflaráðgjöfina sem þokkaleg sátt hefur myndast um og á hverju ári er niðurstaðan rýnd af ICES, í tilfelli áhættumats á fiskeldi fer vísindalega rýnin fer fram eftir að búið er að loka Djúpinu. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar er nýtt og frumraun stofnunarinnar á þessum vettvangi. Ljóst er að of margar spurningar eru uppi um aðferðarfræði, gögn og annað er liggur til grundvallar matinu að hægt sé að nýta það til ákvarðanatöku á þessu stigi. Á fundi þingflokks- og landsstjórnar Framsóknarflokksins á Vopnafirði nú fyrir skömmu sagði ég mikilvægt að erlendir aðila yrðu fengnir til að rýna vinnu Hafrannsóknarstofnunar og formaður Framsóknarflokksins hefur tekið undir það í grein er hann ritaði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að setja eigi á fót sérstaka rannsóknarstofnun við t.d. Háskólann á Hólum eða Auðlindadeild Háskólans á Akureyri sem hafi m.a. það hlutverk að rýna rannsóknir annarra í sjávarútvegi og fiskeldi þar á með talið Hafrannsóknarstofnunar. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á vísindamenn stofnunarinnar heldur myndi slík rýni væntanlega staðfesta og þannig renna enn styrkari stoðum undir þeirra vinnu.
Ennfremur er ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða en bæði einstaka framkvæmdaraðili og Hafró hafa komið fram með mótvægisaðgerðir sem þýða að hægt sé að fara af stað strax í Djúpinu undir eftirliti þannig að hvorki lífræn mengun né erfðablöndun ógni nokkrum stofnum í Djúpinu. Reyndar kom fram á sameiginlegum fundi Atvinnuvega- og Umhverfis- og samgöngunefndar sl. miðvikudag að innan hópsins hafi illa gengið að ná saman og því haldinn sérstakur fundur þar sem leitað var sátta milli “deiluaðila”.
Skýrsluna um fiskeldi þurfum við þingmenn að gaumgæfa mjög vel á komandi dögum í þinginu þannig að náist ásættanleg niðurstaða fyrir samfélögin og náttúruna. Þannig er því ekki farið í dag og verður ekki fyrr en fiskeldi fer af stað í Ísafjarðardjúpi.

Uppbygging raforkukerfisins – hringtenging Vestfjarða

Ég hef sett mig vel inní áform um virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og heimsótti fyrirhuguð virkjanarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði síðastliðið sumar. Ég ætla hinsvegar að láta það vera í bili að fjalla um skrif læknisins sem veit hvað Vestfirðingum er fyrir bestu.
Til þess að bæta raforkuöryggi Vestfirðinga þarf hringtengingu (n-1 tengingu). Fyrir liggja þrjú skref svo slíkt verði að veruleika.
1.skref: Öflun raforkunnar: Finna þarf skynsamleg mörk milli nýtingu á fallvötnum, milli þess að friða og nýta. Pólitíkin hefur komið sér upp mjög viðamiklu ferli til þess enda geta þessi skynsamlegu mörk verið mjög á reiki, það ferli kallast rammaáætlun. Ég hef gagnrýnt það ferli enda alls ekki fullkomið. Hins vegar er það ferlið sem við miðum við í dag og nýtum til ráðgjafar. Bæði Hvalá og Austurgilsvirkjun á norðanverðum Vestfjörðum eru í nýtingarflokki rammaáætlunar sem er lykilatriði.

2. skref: Tengipunktur: Virkjunaraðilar þurfa að geta afhent framleiðslu sína til Landsnets svo hægt sé að miðla henni. Horft hefur verið til þess að tengipunktur fyrir Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og hugsanlega Skúfnavatnavirkjun verði innarlega í Ísafjarðardjúpi, mögulega við Nauteyri. Annar áfangi af hringtenginu Vestfjarða er því að koma slíkum tengipunkti fyrir. Landsnet hyggst leggja þaðan línu suður í Kollafjörð þar sem línan myndi tengjast við “landsnetið”. Við þetta annað skref er ekki komin hringtenging en raforkuöryggi batnar samt sem áður þar sem bilanir austan við Kollafjörð hætta að hafa áhrif á Vestfirðinga. Á línunni frá Kollafirði að Gilsfirði eru margir staðir með mikilli ísingarhættu og bilanir tíðar eins og sést á myndinni hér fyrir neðan frá Landsneti. Endapunktinum er þó ekki náð með þessu skrefi.


Græna línan er möguleg tenging úr Djúpi í Kollafjörð.Fjölmargir ísingarhættustaðir, merktir gulir, appelsínugulir og rauðir frá Kollafirði í Gilsfjörð detta út við 2. skref að hringtengingu Vestfjarða.

3. skref: Hringtenging raforku: Bent hefur verið á að Landsnet hafi ekki gefið út að til standi að leggja út línu út Djúp. Í mínum huga er það ekki einkamál Landsnets hvernig raforkukerfi Vestfirðingar búi við, ekki frekar en það sé einkamál Skipulagsstofnunar hvernig veglagningu á landinu er háttað. Hringtenging raforku á Vestfjörðum er pólitísk ákvörðun, það má benda á að síðastliðið haust var samþykkt í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, tillögur Vestfjarðarnefndar en ein af tillögunum þar var að fela Orkustofnun að finna út hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar. Frá ríkisstjórnarskiptum hefur þessi tillaga ekki fengið framgang frekar en aðrar tillögur nefndarinnar sem núverandi stjórnarflokkarnir sýna engan áhuga. 
Málið er einfalt í mínum huga, Orkustofnun verði falið líkt og Vestfjarðarnefndin lagði til að finna hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar og Alþingi gefi út stefnumarkandi ákvörðun um að ráðist verði í hringtengingu sem fyrst.
Skora ég á Þórdísi Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra raforkumála og þingmann Norðvesturkjördæmis að fela Orkustofnun að hefja þá vinnu.

Þrátt fyrir að kostnaður við slíka tengingu gæti virst þónokkur er ávinningurinn mikill, hægt er að slökkva á olíkyndingu og olíuvarafli sem væri í takt við umhverfisskuldbindingar Íslands, raforkuöryggi Vestfirðinga stórbatnar og loks verður til staðar raforka fyrir minni iðnað. Einnig má benda á að til rannsóknar eru minni virkjanir í Djúpinu sem gætu tengst inná þá línu og lækkað kostnaðinn. Aðrir kostir við að hringtengja rafmagn á Vestfjörðum eins og að tvöfalda Vesturlínu eru líka mjög dýrir en í mínum huga er miklu físilegari leið að að virkja fallvötnin við Djúp og í Hvalá til hagsbóta fyrir samfélögin þar vestra og stuðla að bættu raforkuöryggi í leðinni.

Ef að þingmenn koma sér saman að gera fyrrnefnd þrjú atriði að veruleika er ég sannfærður um að eftir standi kröftug sjálfbær samfélög á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á bb.is, 11. september 2017