Árangursríkt vorþing er að baki með samþykkt margra framfaramála sem munu hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar. Þar af voru sjö frumvörp samþykkt, ásamt einni þingsályktunartillögu, sem snerta mennta-, menningar- og vísindamál á Íslandi.
Kennarastarfið það mikilvægasta
Kennarafrumvarpið um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, varð að lögum. Það er fagnaðarefni en með þeim er lögfestur hæfnirammi um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda sem lýsir betur þeirri hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Meginmarkmið nýrra laga er að stuðla að sveigjanlegra skólakerfi, sem verður nemendum og kennurum til hagsbóta. Við viljum að allir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn-, og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf sín og ábyrgð. Þessi nýju lög eru framfaraskref í þá átt og munu þau skapa fleiri tækifæri fyrir kennara til þess að þróa sig í starfi, og stuðla að meiri samfellu og samstarfi skólastiga.
Íslenskan efld
Stjórnvöld hafa sett íslenskuna í öndvegi. Sá ánægjulegi áfangi náðist á liðnu vorþingi að þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi var samþykkt samhljóða. Í tillögunni er fjallað um alls 22 aðgerðir sem því tengjast en meginmarkmið þeirra eru að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Það er mikilvægt að styrkja stöðu þjóðtungunnar á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga. Í þessu mikilvæga máli þurfa allir að leggja sitt af mörkum: stofnanir, atvinnulíf og félagasamtök – og við öll. Við getum, hvert og eitt okkar, tekið þátt í að þróa tungumálið, móta það og nýta á skapandi hátt.
Íþróttaumhverfið öruggara
Í kjölfar #églíka-yfirlýsinga íþróttakvenna árið 2018 skipaði ég starfshóp sem fékk það hlutverk að koma með tillögur til að auka öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Afrakstur þeirrar vinnu má meðal annars finna í frumvarpi um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem var samþykkt sem lög frá Alþingi nú á vordögum. Markmið nýju laganna er að íþrótta- og æskulýðsstarf sé öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldis sem þar kann að koma upp án ótta við afleiðingarnar. Það er kappsmál okkar að tryggja öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi og sjá til þess að umgjörð og aðstæður á þeim vettvangi séu sem bestar fyrir þátttakendur og starfsfólk.
Lýðskólar
Ný lög um lýðskóla voru samþykkt en hingað til hefur ekki verið löggjöf í gildi um starfsemi þeirra hér á landi. Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Við samþykkt frumvarpsins varð mér hugsað hlýlega til Jónasar Jónssonar frá Hriflu, fyrrverandi menntamálaráðherra. Hann var talsmaður þess að hér á landi væri öflugt og fjölbreytt menntakerfi, þar sem meðal annars væri lögð áhersla á ræktun mannsandans og að nemendur gætu öðlast aukið sjálfstraust. Nýtt frumvarp um lýðskóla skapar svo sannarlega umgjörð utan um fjölbreyttari valkosti í íslensku menntakerfi og eykur líkurnar á að nemendur finni nám við hæfi.
Vísindaumgjörð efld
Tvö frumvörp urðu að lögum sem bæta stoðkerfi rannsókna og vísinda á Íslandi og auka möguleika íslenskra vísindamanna í alþjóðlegu samstarfi. Ný lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir auðvelda meðal annars þátttöku Rannsóknasjóðs í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaáætlana og heimila að sérstök stjórn verði sett yfir Innviðasjóð. Sameiginleg stjórn hefur verið yfir Rannsóknasjóði og Innviðasjóði þrátt fyrir að eðli sjóðanna sé talsvert ólíkt. Rannsóknasjóður veitir styrki til einstakra rannsóknaverkefna á meðan hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknainnviði á Íslandi en þeir eru nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að stunda vísindarannsóknir. Rannsóknainnviðir eru aðstaða, aðföng og þjónusta sem vísindamenn nýta við rannsóknir og til að stuðla að nýsköpun á fagsviðum sínum. Ný lög um samtök um evrópska rannsóknainnviði voru einnig samþykkt en þau munu meðal annars auðvelda íslenskum aðilum að samnýta rannsóknainnviði með öðrum þjóðum, innviði sem ólíklegt væri að íslenskt vísindasamfélag gæti fjármagnað eitt og sér.
Neytendur fá aukinn rétt
Frumvarp um breytingu á höfundalögum náði fram ganga en markmið þess er að tryggja að einstaklingar sem ferðast milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti þar nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Þar er réttarbót og mikið framfaraskref fyrir neytendur.
Höfundarréttur styrktur
Þá voru lög um sameiginlega umsýslu höfundarréttar einnig samþykkt en þau fela meðal annars í sér bætt starfsumhverfi rétthafasamtaka á sviði höfundarréttar, sem teljast sameiginlegar umsýslustofnanir. Sameiginleg umsýsla höfundarréttinda er mikilvægt úrræði til efnahagslegrar hagnýtingar fyrir fjölda rétthafa, innlendra sem erlendra. Slíkar stofnanir fara með verulegar fjárhæðir fyrir hönd rétthafa. Því er mikilvægt að reglur um slíka umsýslu séu skýrar og gagnsæjar og að þátttaka rétthafa sé tryggð í öllu ákvarðanaferli.
Fleiri framfaramál í farvatninu
Framfylgd ríkisstjórnarsáttmálans gengur vel. Líkt og yfirferðin hér að framan sannar hafa mörg þjóðþrifamál orðið að lögum og fleiri slík eru á leiðinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef nú þegar lagt fram frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla og frumvarp um sviðlistir sem verða kláruð á næsta þingi. Þá verður frumvarp um nýtt styrkja- og námslánakerfi lagt fram á haustdögum ásamt nýrri menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Ég þakka þeim fjölmörgum aðilum sem komu að undirbúningi þessara mikilvægu mála fyrir góða samvinnu og farsælt samstarf. Afrakstur þessarar góðu vinnu mun skila sér í betra samfélagi fyrir okkur öll.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.